Vaðölduver

2022Vindafl

Vaðölduver, sem hefur gengið undir vinnuheitinu Búrfellslundur, er fyrsta vindorkuver landsins. Þar verða 28 vindmyllur á 17 km² svæði. Helmingur þeirra verða gangsettar haustið 2026 og reiknað er með að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.

Í fréttavakt hér fyrir neðan getur þú nálgast öll nýjustu tíðindi sem tengjast verkefninu.

Fréttavakt Vaðölduvers

Velkomin á vaktina! Hér fyrir neðan getur þú nálgast allar nýjustu fréttir og reglulegar uppfærslur um stöðu mála og framvindu verkefnisins.

21.02.2025

Búrfellslundur = Vaðölduver

Við vorum rétt í þessu að birta frétt um að vindorkuverið, sem hingað til hefur gengið undir vinnuheitinu Búrfellslundur, mun hér eftir bera heitið Vaðölduver.

Eftir að staðsetningu vindorkuversins var breytt og umfang þess minnkað teljum við ekki rétt að kenna það við Búrfell, enda er það fjall töluvert sunnar. Staðið hefur til um allnokkurn tíma að kenna vindorkuverið við Vaðöldu sem er fell nærri framkvæmdasvæðinu, en þar sem ​það var þekkt í öllu leyfisveitingaferlinu sem Búrfellslundur var ákveðið að hrófla ekki við nafninu fyrr.

Lesa frétt
06.02.2025Tilkynning

Virkjunarleyfið stendur

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu um að ógilda ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar.

Orkustofnun veitti virkjunarleyfið í ágúst á síðasta ári, en í september kærðu samtökin Náttúrugrið þá ákvörðun og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi. Í niðurstöðum sínum segir meirihluti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að ekki yrði séð að neinir þeir annmarkar lægju fyrir sem raskað gætu gildi ákvörðunar Orkustofnunar.

Lesa úrskurðinn
28.11.2024Frétt

Vindmyllurnar verða frá Enercon

Landsvirkjun hefur samið við þýska vindmylluframleiðandann Enercon um kaup, uppsetningu og rekstur á 28 vindmyllum sem settar verða upp í Búrfellslundi við Vaðöldu.

Lesa frétt Samið um kaup á 28 vindmyllum á 20 milljarða. Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmda hjá Landsvirkjun, Uli Schulze Südhoff, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Enercon, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Steinunn Pálmadóttir, lögmaður hjá Landsvirkjun.
28.11.2024

Yfirgripsmikil grein um framkvæmdaverkefni

Það er óhætt að mæla með lestri greinarinnar hér fyrir neðan. Hún birtist í fjölmiðlum í vikunni, en í henni er farið yfir allar framkvæmdir sem framundan eru hjá okkur á Suðurlandi.

Þar kemur meðal annars fram að þegar mest verður að gera í Búrfellslundi, Hvammsvirkjun og Sigöldu verða 650 manns á verkstað!

26.11.2024Frétt

Ærin verk­efni næstu ár

Grein eftir Ásbjörgu Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Framkvæmda hjá Landsvirkjun, um þau viðamiklu verkefni sem framundan eru á Suðurlandi.

Lesa frétt
Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmda.
24.10.2024Frétt

Framkvæmdir hafnar við Búrfellslund

Framkvæmdir eru hafnar við fyrsta vindorkuver landsins. Búrfellslundur eða Vaðölduver verður á 17 ferkílómetra svæði í kringum Vaðöldu í Rangárþingi ytra. Fulltrúar sveitarfélagsins, Borgarverks, verkfræðistofunnar COWI og Landsvirkjunar fögnuðu þessum áfanga í gær.

Lesa frétt Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á verkstað við Vaðöldu.
10.10.2024

Kæru á virkjunarleyfi vísað frá og stöðvunarkröfu hafnað

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði í gær frá kæru Skeiða- og Gnúpverjahrepps á virkjunarleyfi Búrfellslundar. Jafnframt hefur kröfu Náttúrugriða um stöðvun framkvæmda við Búrfellslund verið hafnað.

Lesa frétt
11.09.2024Tilkynning

Rangárþing ytra veitir leyfi til framkvæmda

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag að veita Landsvirkjun leyfi til framkvæmda vegna vindorkuvers við Vaðöldu. Um er að ræða leyfi vegna vegagerðar innan framkvæmdasvæðis annars vegar og leyfi til uppsetningar vinnubúða hins vegar.

Sveitarstjórnin tók framkvæmdaleyfisumsókn Landsvirkjunar fyrir á fundinum og fól skipulags- og umferðarnefnd, ásamt umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd Rangárþings ytra, að vinna áfram að afgreiðslu umsóknarinnar.

Lesa fundargerð sveitarstjórnar
17.08.2024

Ítarleg grein um undirbúning vindorkuvers

Undirbúningur að byggingu Búrfellslundar, vindorkuvers Landsvirkjunar við Vaðöldu, hefur staðið á annan áratug. Hörður Arnarson, forstjóri, hefur ritað yfirgripsmikla grein um málið sem birtist á vefnum okkar í dag - sjá hér fyrir neðan.

17.08.2024Frétt

Vandaður aðdragandi vindorkuvers

Undirbúningur að byggingu Búrfellslundar, vindorkuvers Landsvirkjunar við Vaðöldu, hefur staðið á annan áratug. Hörður Arnarson, forstjóri, skrifar.

Lesa frétt
14.08.2024Frétt

Samið um lands- og vindorkuréttindi

Forstjóri Landsvirkjunar undirritaði í dag samning við íslenska ríkið um lands- og vindorkuréttindi vegna Búrfellslundar.

Lesa frétt Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, við undirritun samningsins í dag.  Mynd: Forsætisráðuneytið / Sighvatur Arnmundsson
12.08.2024Tilkynning

Virkjunarleyfi komið í hús!

Orkustofnun afgreiddi í dag virkjunarleyfi fyrir vindorkuverið Búrfellslund við Vaðöldu. Landsvirkjun mun í kjölfarið sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Rangárþings ytra.

Lesa frétt
30.07.2024

Samið við Landsnet um flutning raforku

Við höfum samið við Landsnet um að tengja vindorkuverið í Búrfellslundi inn á raforkuflutningskerfið.

Meira um málið hér
06.06.2024

Fyrstu skrefin tekin

Við höfum tekið fyrstu skrefin að framkvæmdum við vindorkuverið okkar sem gengið hefur undir heitinu Búrfellslundur.

Í vindorkuverinu sem rís við Vaðöldu verða tæplega 30 vindmyllur á 18 ferkílómetra svæði og vonir standa til að spaðar þessa fyrsta vindorkuvers landsins verði farnir að snúast í lok árs 2026.

Séð yfir svæðið þar sem vindmyllurnar munu rísa. Horft er í norður í átt að Sultartangalóni. Fremst á myndinni má sjá að undirbúningur er í startholunum fyrir borunina sem fer fram í sumar.

Jarðlög rannsökuð

Í sumar verða ýmsar jarðtæknirannsóknir á svæðinu. Rannsaka þarf jarðlög undir fyrirhuguðum vindmyllum, byggingum og vegi. Rannsóknarsvæðið er allt umhverfis Vaðöldu, neðan Sultartangastíflu og norðan vegar F26, innan Rangárþings ytra.

Í rannsóknunum felst m.a. að bora hátt í 30 m kjarnaboranir, en einnig eru grafnar gryfjur í laus jarðlög við hvert vindmyllustæði. Þá verða 12-15 m loftboranir í vegstæði að fyrirhuguðum vindmyllum og í næsta nágrenni fyrirhugaðra mannvirkja, auk þess sem boraðar verða tvær vatnstökuholur innan svæðisins.

Niðurstöður rannsóknanna veita mikilvægar upplýsingar sem nýtast í hönnun mannvirkja. Áætluð verklok eru í september.

28.05.2024Frétt

Verkís verður ráðgjafi fyrir Búrfellslund

Verkís varð hlutskarpast í útboði sem fór fram í febrúar og höfum við því tekið tilboði fyrirtækisins, sem það gerði í samvinnu við Rambøll í Danmörku.

Lesa frétt
17.01.2024

Útboð á vindmyllum

Við höfum ákveðið að auglýsa útboð á vindmyllum fyrir vindorkuver við Vaðöldu sem ber vinnuheitið Búrfellslundur. Verkefnið er boðið út með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál.

Meira um málið hér
16.03.2023

Fróðleg grein um fyrirhugaðan vindlund

Hér fyrir neðan er hægt að lesa ítarlega grein um vindorkuverið sem við hyggjumst reisa við Vaðöldu. Mælum með lesningu!

16.03.2023Frétt

Vindorka við Vaðöldu

Grein eftir Einar Mathiesen, framkvæmdastjóra Vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun.

Lesa frétt
Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma
03.11.2022Frétt

Sótt um virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar

Landsvirkjun hefur sótt um virkjunarleyfi til Orkustofnunar vegna fyrirhugaðs Búrfellslundar. Uppsett afl lundarins er 120 MW og mun hann nýta mannvirki og aðra innviði sem fyrir eru á stærsta orkuvinnslusvæði fyrirtækisins, Þjórsár- og Tungnaársvæðinu.

Lesa frétt