Hringrás vatns og orkuvinnslu
Sólarljósið veldur því að vatn gufar sífellt upp af yfirborði jarðar. Sólin hitar yfirborðið og vatn í sjó og á landi umbreytist í vatnsgufu, sem stígur upp til himins. Því hærra sem vatnsgufan berst, þeim mun kaldara verður loftið. Við það kólnar gufan, þéttist og myndar ský.
Úrkoma myndast í skýjunum og fellur aftur niður til jarðar, sem rigning eða snjókoma. Regnvatn og bráðinn snjór safnast saman í ár og læki. Orka losnar á leið vatnsins þegar það rennur ofan af fjöllum og niður til sjávar. Sú orka er notuð til raforkuvinnslu í vatnsaflsstöð, með því að leiða vatnið um hverfla stöðvarinnar.
Eftir nýtingu vatnsorkunnar berst vatnið til sjávar og hringrásin heldur áfram.