Nýsköpun

Mikil tækifæri liggja í nýsköpun tengdri endurnýjanlegri orku. Sú þekking sem skapast hefur á undanförnum árum, þeir innviðir sem byggðir hafa verið upp og það umhverfi sem orðið er til í kringum nýsköpun eru kjörlendi fyrir frjóar hugmyndir og sköpunarkraft.

Nýsköpun í orkuiðnaði

Nýsköpun í orkuiðnaði er sívaxandi hluti af starfsemi okkar. Fyrirtækið er leiðandi í sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og stuðlar að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun. Með meiri nýsköpun og aukinni verðmætasköpun nýtum við betur þær auðlindir sem okkur er trúað fyrir og leggjum grunn að sterkara og betra samfélagi.

Við eigum í margvíslegu samstarfi við fjölmarga aðila: frumkvöðla, háskóla og aðrar menntastofnanir, fyrirtæki og einstaka vísindamenn, innan jafnt sem utan landsteinanna. Auk þess stundum við fjölbreyttar rannsóknir á lífríki landsins, veðurfari, vatnafari, jöklum og jarðfræði.

Samstarfsverkefni í orkutengdri nýsköpun

Orkídea, Eimur, Blámi og Eygló

Orkutengd tækifæri á Suðurlandi

Orkídea er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Helsta markmið samstarfsins er að auka verðmætasköpun og greiða veg orkutengdra tækifæra, einkum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni. Ætlunin er að efla nýsköpun og rannsóknir á nýtingu grænnar orku og koma á öflugu samstarfi við bæði fræðasamfélagið og atvinnulífið.

Markmiðið er að fjölga möguleikum svæðisins til að takast á við áskoranir samtímans, auka samkeppnishæfni íslenskra afurða á alþjóðlegum markaði og gera Suðurland leiðandi í samspili orku, umhverfis og samfélags.

Heiti verkefnisins, Orkídea, er sprottið af orðunum orka og ídea. Þannig vísar nafnið bæði til grænnar orku og þeirra nýstárlegu hugmynda sem spretta í frjóum jarðvegi.

Skoða vef Orkídeu

Verðmætasköpun á Vestfjörðum

Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Vestfjarðastofu og Orkubús Vestfjarða um orkuskipti og orkutengda nýsköpun á Vestfjörðum

Meginmarkmið Bláma er að efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna. Með orkuskiptum er átt við að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. Markmiðið er að ýta undir orku- og loftslagstengda nýsköpun, efla frumkvöðla og styrkja nýsköpunarumhverfið á Vestfjörðum.

Ætlunin með Bláma er að leiða saman aðila sem geta unnið saman við það að afla alþjóðlegs fjármagns til tilrauna, rannsókna og þróunar á orku- og loftslagsvænum lausnum. Með nýjum tækifærum og auknu samstarfi á milli fyrirtækja og opinberra aðila er hægt að ýta undir að verkefni og tækifæri sem skapast á svæðinu þróist í átt að hringrásarhagkerfi, þar sem verðmætasköpun úr vannýttu hráefni er aukin, bæði úr því sem er til staðar og því sem verður til vegna nýrra verkefna eða framleiðslu.

Skoða vef Bláma

Nýsköpun á Norðausturlandi

Nýsköpunarverkefnið EIMUR er samstarfsverkefni sem hefur bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi að leiðarljósi.

Markmið samstarfsins er meðal annars að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs og að aukinni verðmætasköpun með sérstaka áherslu á sjálfbærni, grænar lausnir, nýsköpun og hátækni á svæðinu. Einnig er lagt upp úr að miðla þekkingu á sviði rannsókna og nýsköpunar á Norðausturlandi í því skyni að efla samkeppni á stærri markaði þar sem styrkleikar Íslands spila lykilhlutverki.

Síðastliðin ár hefur EIMUR meðal annars staðið fyrir kortlagningu auðlinda, haldið út alþjóðlegum sumarskóla í hönnun og sjálfbærni í Kröflu, staðið fyrir hugmyndasamkeppni og ýmsum kynningarmálum. Einnig hefur EIMUR lagt ríka áherslu á samstarf við háskóla og rannsóknastofnanir.

Skoða vef Eims