Við leggjum rækt við samráð og samtal
Áhersla fyrirtækja á samráð og samtal eykst ár frá ári. Það á við um Landsvirkjun jafnt sem önnur stórfyrirtæki. Kynningar og samráð eru nú sjálfsagður hluti af öllum stærri framkvæmdum og við hjá Landsvirkjun viljum vera í fararbroddi á þessu sviði.
Við ætlum að hlusta, sýna samkennd og bregðast við því sem sagt er til að tryggja að samfélagsleg sátt ríki um starfsemi fyrirtækisins.
Hvammsvirkjun er nýjasta stórframkvæmd Landsvirkjunar sem er í bígerð. Við undirbúning hennar hafa verið haldnir fjöldi samráðs- og kynningarfunda með hagaðilum nær og fjær. Við leituðum til óháðra sérfræðinga um álitamál og miðlum niðurstöðum þeirra á heimasíðu framkvæmdarinnar. Við útbjuggum líka myndir og myndbönd sem sýna á sjónrænan hátt hvernig Hvammsvirkjun mun koma fyrir sjónir að verki loknu.
Samráðs- og kynningarferlið vegna Hvammsvirkjunar er vísir að sniðmáti fyrir allar stærri framkvæmdir Landsvirkjunar í nánustu framtíð. Við munum líka þróa ferlið og aðlaga, og nýta það í smærri framkvæmdum þegar á við. Þannig ætlum við að stuðla að sátt og samlyndi við fólk, náttúru og umhverfi.