Öryggi og heilsa

Hjá Landsvirkjun höfum við öryggi starfsfólks, verktaka og allra þeirra sem koma að starfseminni í forgangi. Við vinnum að því að skapa vinnuumhverfi þar sem áhættu er alltaf stjórnað og tryggt er að við komumst öll heil heim. Öryggi er undirstaða alls sem við gerum.

Meginþættir öryggismála

  1. Áhættu alltaf stjórnað
    Við gerum reglulega áhættugreiningu og forvarnaáætlanir til að lágmarka hættu. Öryggisráðstafanir eru hannaðar til að draga úr áhættu og vernda öll þau sem starfa í eða nálægt mannvirkjum okkar.
  2. Öryggismenning í fyrirrúmi
    Við leggjum áherslu á að öryggismenning sé hluti af daglegum störfum okkar. Allt starfsfólk, verktakar og samstarfsaðilar deila ábyrgðinni á því að viðhalda öruggum vinnustað.
  3. Þjálfun og fræðsla
    Við tryggjum að starfsfólk og verktakar hafi aðgang að nauðsynlegri þjálfun og fræðslu. Markmiðið er að auka vitund og hæfni til að vinna á öruggan hátt og taka upplýstar ákvarðanir.
  4. Eftirlit og stöðugar úrbætur
    Við fylgjumst reglulega með framkvæmd verkefna og tryggjum að viðeigandi varnarlög séu til staðar. Við leitum leiða til að bæta ferla okkar og auka öryggi í verkefnum. Við lærum af reynslunni og tökum á móti ábendingum til að gera starfsemi okkar enn öruggari.
  5. Heilsa og vellíðan
    Við leggjum áherslu á heilsu og vellíðan starfsfólks. Við stuðlum að jafnvægi milli vinnu og einkalífs, bjóðum upp á heilsueflandi aðgerðir og styðjum við andlega og líkamlega heilsu.

Hafðu samband

Við leggjum mikla áherslu á öryggi og heilsu á öllum starfssvæðum okkar.

Ef þú hefur athugasemdir, hugmyndir eða spurningar sem varða öryggismál getur þú sent okkur tölvupóst á oryggismal@landsvirkjun.is.

Rótgróin öryggismenning

Öryggi starfsfólks og verktaka gengur framar öllu í rekstri Landsvirkjunar, þar á meðal fjármunum, tíma og framleiðslu. Við leggjum áherslu á að hættur séu ávallt undir stjórn og að verk séu ekki unnin nema ýtrasta öryggis sé gætt.

Landsvirkjun leggur áherslu á að öryggismenning sé virk á öllum sviðum fyrirtækisins. Mikilvægt er að allir taki þátt í að byggja upp og viðhalda öryggismenningunni; jafnt starfsfólk fyrirtækisins, verktakar, ráðgjafar, hönnuðir og þjónustuaðilar.

Við viljum að starfsfólk sé vakandi fyrir hættum í starfsumhverfi sínu, taki virkan þátt í öryggisstarfi fyrirtækisins og geri athugasemdir við óöruggt verklag, búnað eða aðstæður. Við leggjum áherslu á að starfsfólk hafi þekkingu til starfa, undirbúi verk sín vel og vinni með öruggum hætti.

Öflugt teymi starfar að öryggismálum

Öryggisstjórar

Tveir öryggisstjórar eru starfandi hjá Landsvirkjun, öryggisstjóri rekstrar og öryggisstjóri framkvæmda. Þeir sjá um heildarstjórn öryggismála og stefnumótun.

Öryggisverðir

Öryggisverðir eru á öllum starfssvæðum Landsvirkjunar. Þeir fylgjast með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi samræmist lögum og reglum, í samvinnu við öryggistrúnaðarmann.

Öryggistrúnaðarmenn

Öryggistrúnaðarmenn eru starfandi á öllum starfssvæðum Landsvirkjunar. Öryggistrúnaðarmaður er fulltrúi starfsfólks í öryggismálum og fylgist með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi samræmist lögum og reglum. Hann hefur eftirlitshlutverk, gætir að þjálfun og fræðslu og fylgir eftir skráningu á fyrirbyggjandi þáttum og slysum.

Verkefnastjóri öryggis og heilsu

Verkefnastjóri öryggis og heilsu starfar á Þjórsársvæði og vinnur ásamt öryggisverði og öryggistrúnaðarmanni svæðisins að því að tryggja að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi séu í samræmi við lög og reglur.

Reglur til lífsbjargar

Við hjá Landsvirkjun höfum sett okkur níu reglur til lífsbjargar. Tilgangur og markmið þeirra er að lýsa varnarlögum sem nauðsynleg eru til að stýra áhættu og þar með fyrirbyggja slys.

Reglurnar skulu ávallt viðhafðar þegar unnið er að verkefnum sem innihalda einhvern af þeim hættuflokkum sem þær taka til.

Öryggishandbók

Öryggishandbókin okkar styður við öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi á öllum starfssvæðum. Hún felur í sér samantekt á öryggisreglum og verklagsreglum sem allt starfsfólk, verktakar og samstarfsaðilar skulu fylgja.

Helstu markmið handbókarinnar eru:

  • Að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi.
  • Að lágmarka áhættur og fyrirbyggja slys.
  • Að tryggja samræmi við alþjóðlega staðla og gildandi löggjöf.
  • Að efla öryggismenningu og samstarf allra sem starfa á vegum Landsvirkjunar.

Metnaðarfull öryggis- og heilsustefna

Tilgangur öryggis- og heilsustefnu Landsvirkjunar er að skapa vinnustað þar sem öryggi og heilsa starfsfólks er í forgrunni. Markmið okkar er öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi sem stuðlar að vellíðan á vinnustað og heilbrigðri vinnustaðamenningu.

Landsvirkjun hlítir þeim kröfum sem gerðar eru til fyrirtækisins, skuldbindingum sem það hefur undirgengist og hefur stöðugar umbætur að leiðarljósi.