Neyðarstjórn

Neyðarstjórn Landsvirkjunar (NLV) stýrir viðbrögðum fyrirtækisins við vá. Forgangsverkefni hennar er að koma í veg fyrir slys á fólki, tjón á mannvirkjum og umhverfi og að raforkuvinnsla skerðist.

Hlutverk og ábyrgð

Meginhlutverk NLV er tvíþætt – annars vegar skipuleggur hún neyðarstjórnun fyrirtækisins, en í henni felst m.a. að hafa umsjón með viðbragðsáætlunum, æfingum, þjálfun, endurskoðun og samræmingu á verklagi í vá. Hins vegar stýrir hún aðgerðum og viðbrögðum í vá, ásamt vettvangsstjórum.

Forstjóri ber ábyrgð á neyðarstjórninni og sér um að skipa hana. Framkvæmdastjóri Vatnsafls er formaður NLV og ber hann ábyrgð á starfi stjórnarinnar í umboði forstjóra.

Neyðarsamstarf raforkukerfisins

Neyðarsamstarf raforkukerfisins (NSR), er samvinnuvettvangur vinnslufyrirtækja, flutningsfyrirtækis, dreifiveitna, stórnotenda og opinberra aðila á Íslandi vegna vár sem steðjar að vinnslu, flutningi eða dreifingu raforku og rekstri stórnotenda.

NSR er ekki viðbragðsaðili og tekur því ekki yfir stjórn aðgerða í vá. Hún er í höndum neyðarstjórna aðila samstarfsins. Landsnet er í forsvari fyrir NSR.

Hlutverk NSR

  • Efla samvinnu aðila samstarfsins vegna vár og vinna að þjóðarhag með því að auka öryggi raforkuvinnslu, raforkuflutnings, raforkudreifingar og reksturs stórnotenda.

  • Treysta tengsl við Samhæfingarstöð almannavarna og aðra tengda aðila vegna forvarna og viðbragða í vá.

  • Stuðla að greiðri upplýsingamiðlun og samræmdum neyðarfjarskiptum í vá.

  • Stuðla að samræmingu hugtakanotkunar, verklags (viðbragðsáætlana) og skilgreininga í lögum og reglugerðum á ábyrgð og skyldum þátttakenda vegna viðbragða í vá.