Reglur til lífsbjargar

Við hjá Landsvirkjun höfum sett okkur níu reglur til lífsbjargar. Tilgangur og markmið þeirra er að lýsa varnarlögum sem nauðsynleg eru til að stýra áhættu og þar með fyrirbyggja slys.

Níu fyrirbyggjandi reglur

Reglur til lífsbjargar skulu alltaf viðhafðar þegar unnið er að verkefnum sem innihalda einhvern af þeim hættuflokkum sem reglurnar taka til.

Þær eru byggðar á stærstu áhættuþáttum Landsvirkjunar og þeim varnarlögum sem vitað er að virka gagnvart þeim. Samráð var haft við öryggistrúnaðarmenn, öryggisverði og öryggisnefnd Landsvirkjunar við gerð reglnanna.

Hættuflokkarnir eru:

  1. Vinna á eða við vatn
  2. Vinna við hífingar
  3. Óbeisluð orka
  4. Vinna við rafmagn
  5. Vélbúnaður í gangi
  6. Heitt vatn/gufa og H2S gas
  7. Vinna í hættulegu lokuðu rými
  8. Vinna í hæð yfir 2m
  9. Akstur

Vinna á eða við vatn

Við gætum öryggis á vatni og við vatn.

  • Notum björgunarvesti.
  • Kynnum okkur aðstæður, strauma og dýpt.
  • Vinnum ávallt með vinnufélaga þar sem hætta er á að falla í vatn.

Vinna við hífingar

Við undirbúum hífingar og tryggjum hífingarsvæði.

  • Skoðum hífibúnað fyrir notkun.
  • Tryggjum að kranastjórnandi sé með réttindi.
  • Afmörkum fallsvæði hangandi byrðar.
  • Stöndum aldrei undir hangandi byrði.

Óbeisluð orka

Við berum kennsl á alla orkugjafa

  • Staðfestum að hættulegir orkugjafar hafi verið einangraðir, læstir og merktir.
  • Prófum og staðfestum að engin orka sé til staðar

Vinna við rafmagn

Við fylgjum öryggisreglunum 5 og notum verklagið „læsa, merkja og prófa”.

  • Rjúfum straum að fullu.
  • Tryggjum gegn innsetningu.
  • Sannreynum spennuleysi.
  • Jarðtengjum og skammhleypum.
  • Hyljum eða girðum af nálæga hluti sem eru með spennu.

Vélbúnaður í gangi

Við gætum fyllsta öryggis í námunda við vélbúnað sem er í gangi.

  • Tryggjum að allar vélarhlífar, girðingar og aðrar varnir séu á sínum stað.
  • Fjarlægjum aldrei né afvirkjum vélarhlífar, girðingar eða aðrar varnir á meðan búnaður er í gangi.
  • Höldum útlimum, hári og fatnaði ávallt utan hættusvæðis.

Heitt vatn, gufa og gas

Við gætum fyllsta öryggis í nánd við heitt vatn, gufu og varasamar gastegundir.

  • Tryggjum öryggi með verklaginu „læsa, merkja og prófa”.
  • Berum ávallt H₂S mæli. Berum O₂/CO₂ mæli eftir þörfum.
  • Tryggjum loftræstingu þar sem hætta er á gasi.
  • Höfum öndunarvörn fyrir vitum þar sem hætta er á gasi.
  • Vinnum ávallt með vinnufélaga þar sem hætta er á gasi.

Vinna í hættulegu lokuðu rými

Við fáum ávallt leyfi áður en við förum inn í hættuleg lokuð rými.

  • Fyllum út gátlistann „Staldraðu við“ fyrir inngöngu í lokað rými.
  • Mælum loftgæði áður en við förum inn í rýmið.
  • Berum ávallt loftgæðamæli á okkur.
  • Tryggjum ávallt að öryggisvaktmaður sé til staðar fyrir utan rýmið á meðan vinna fer fram.
  • Tryggjum að björgunaráætlun og búnaður til björgunar sé ávallt til reiðu.

Vinna í hæð yfir 2 m

Við verndum okkur gegn falli þegar við vinnum í hæð.

  • Skoðum fallvarnarbúnað fyrir notkun.
  • Tryggjum verkfæri og búnað til að fyrirbyggja að hann falli.
  • Notum fallvarnarbelti og öryggan festipunkt við vinnu í meira en 2 m hæð þegar engar aðrar varnir eru.
  • Notum fallvarnarbúnað og línu við vinnu í spjótlyftum og mannkörfum.
  • Tryggjum að björgunaráætlun og búnaður til björgunar sé ávallt til reiðu.

Akstur

Við fylgjum umferðarreglum og gætum fyllsta öryggis við akstur.

  • Notum bílbelti.
  • Ökum eftir aðstæðum og hægjum á ef aðstæður krefjast þess.
  • Notum handfrjálsan búnað fyrir síma.
  • Notum ekki snjalltæki undir stýri.
  • Tryggjum lausa muni í farþegarými.
  • Könnum veðurspá áður en haldið er af stað í lengri ferðir.