Landsvirkjun í hnotskurn
Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar. Við vinnum rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum; vatnsafli, jarðvarma og vindi. Við rekum samtals 18 aflstöðvar - fjórtán vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur í rannsóknarskyni - á fimm starfssvæðum víðs vegar um land.
Í stefnu Landsvirkjunar kemur fram að framtíðarsýn fyrirtækisins er sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku. Hlutverk okkar er að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi.
Við vinnum stærstan hluta allrar raforku á Íslandi, eða yfir 70%. Um 85% orkunnar sem við framleiðum eru seld á stórnotendamarkaði, en 15% á heildsölumarkaði.
Á hverju ári gefum við út ítarlega ársskýrslu sem inniheldur yfirgripsmikla umfjöllun um rekstur og starfsemi fyrirtækisins. Þar er hægt að nálgast ýmsar lykiltölur og gagnlegar upplýsingar um helstu verkefni okkar, rekstur og starfsemi.