Ístak leggur grunn að Vaðölduveri
Landsvirkjun hefur samið við Ístak hf. um ýmis mannvirki fyrir Vaðölduver, þar sem fyrsta vindorkuver landsins rís. Upphæð samningsins nemur rúmum 6,8 milljörðum króna. Reiknað er með að Ístak hefjist handa núna í maí og að verkinu ljúki sumarið 2027.
Sjö tilboð bárust í verkið. Tilboð Ístaks var metið hagstæðast að teknu tilliti til samtölu fjárhæðar þess og tilboðs í kolefniskostnað.

Undir samninginn fellur bygging á járnbentum og steinsteyptum undirstöðum fyrir 28 vindmyllur, sem og gerð kranastæða fyrir uppsetningu vindmyllanna, ásamt allri jarðvinnu. Þá reisir Ístak um 1000 m² safnstöð á svæðinu, steinsteypta byggingu sem nýtt verður fyrir ýmsan búnað og verkstæði. Safnstöðin verður tengd við tengivirki Landsnets. Þá þarf að leggja töluvert af lögnum á svæðinu og grafa fyrir þeim, ganga frá vatnsveitu, fráveitu og malarplönum.