Ístak leggur grunn að Vaðölduveri

28.04.2025Vaðölduver

Landsvirkjun hefur samið við Ístak hf. um ýmis mannvirki fyrir Vaðölduver, þar sem fyrsta vindorkuver landsins rís. Upphæð samningsins nemur rúmum 6,8 milljörðum króna. Reiknað er með að Ístak hefjist handa núna í maí og að verkinu ljúki sumarið 2027.

Á myndinni fagna samningum þau Sigurgeir Björn Geirsson, yfirverkefnisstjóri Vaðölduvers, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Karl Andreassen, forstjóri Ístaks og Hjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Ístaki.
Á myndinni fagna samningum þau Sigurgeir Björn Geirsson, yfirverkefnisstjóri Vaðölduvers, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Karl Andreassen, forstjóri Ístaks og Hjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Ístaki.

Ístak leggur grunn að Vaðölduveri

Sjá vef Vaðölduvers

Landsvirkjun hefur samið við Ístak hf. um ýmis mannvirki fyrir Vaðölduver, þar sem fyrsta vindorkuver landsins rís. Upphæð samningsins nemur rúmum 6,8 milljörðum króna. Reiknað er með að Ístak hefjist handa núna í maí og að verkinu ljúki sumarið 2027.

Sjö tilboð bárust í verkið. Tilboð Ístaks var metið hagstæðast að teknu tilliti til samtölu fjárhæðar þess og tilboðs í kolefniskostnað.

Ánægðir fulltrúar við undirskriftina.
Ánægðir fulltrúar við undirskriftina.

Undir samninginn fellur bygging á járnbentum og steinsteyptum undirstöðum fyrir 28 vindmyllur, sem og gerð kranastæða fyrir uppsetningu vindmyllanna, ásamt allri jarðvinnu. Þá reisir Ístak um 1000 m² safnstöð á svæðinu, steinsteypta byggingu sem nýtt verður fyrir ýmsan búnað og verkstæði. Safnstöðin verður tengd við tengivirki Landsnets. Þá þarf að leggja töluvert af lögnum á svæðinu og grafa fyrir þeim, ganga frá vatnsveitu, fráveitu og malarplönum.

Fyrri hlutinn tilbúinn 2026

Landsvirkjun samdi í nóvember sl. við þýska fyrirtækið Enercon um kaup, uppsetningu og rekstur á vindmyllunum 28, sem reistar verða í Vaðölduveri. Fyrri helmingur þeirra verður gangsettur á næsta ári og seinni hlutinn árið 2027.

Fyrir skömmu buðu Landsvirkjun og Enercon til vinnustofu á Selfossi þar sem fulltrúar frá sveitarfélögum á Suðurlandi, Vegagerðinni, Samgöngustofu, lögreglunni, Landsneti, RARIK og nokkrum verkfræðistofum komu saman til að ræða allar hliðar skipulags og undirbúnings flutnings á vindmyllunum, enda ljóst að þeir flutningar verða gríðarmiklir. Landsvirkjun kappkostar að eiga sem allra best samstarf við alla þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta.