Vindmylluflutningar undirbúnir
Vindorkufólkið okkar er farið að undirbúa viðamikla flutninga á vindmyllunum 28 og öðrum búnaði og efni sem mun mynda Vaðölduver, fyrsta vindorkuver landsins. Þetta er mjög stórt verkefni sem margir þurfa að koma að.
Því bauð Landsvirkjun til vinnustofu á Selfossi í síðustu viku þar sem fulltrúar frá sveitarfélögum á Suðurlandi, Vegagerðinni, Samgöngustofu, lögreglunni, Landsneti, RARIK og nokkrum verkfræðistofum komu saman til að ræða allar hliðar skipulags og undirbúnings.
Vindmyllurnar verða frá þýska vindmylluframleiðandanum Enercon. Fulltrúar þeirra lýstu umfangi verkefnisins, flutningstækjum og stærðum, hvernig vindmyllurnar verða fluttar til landsins, affermdar í Þorlákshöfn og að lokum fluttar upp að Vaðöldu.
