Flutningar vegna Vaðölduvers undirbúnir

14.04.2025Vaðölduver

Vindorkufólkið okkar er farið að undirbúa viðamikla flutninga á vindmyllunum 28 sem munu mynda Vaðölduver, fyrsta vindorkuver landsins. Þetta er mjög stórt verkefni þar sem margir þurfa að koma að.

Vindmylluflutningar undirbúnir

Vindorkufólkið okkar er farið að undirbúa viðamikla flutninga á vindmyllunum 28 og öðrum búnaði og efni sem mun mynda Vaðölduver, fyrsta vindorkuver landsins. Þetta er mjög stórt verkefni sem margir þurfa að koma að.

Því bauð Landsvirkjun til vinnustofu á Selfossi í síðustu viku þar sem fulltrúar frá sveitarfélögum á Suðurlandi, Vegagerðinni, Samgöngustofu, lögreglunni, Landsneti, RARIK og nokkrum verkfræðistofum komu saman til að ræða allar hliðar skipulags og undirbúnings.

Vindmyllurnar verða frá þýska vindmylluframleiðandanum Enercon. Fulltrúar þeirra lýstu umfangi verkefnisins, flutningstækjum og stærðum, hvernig vindmyllurnar verða fluttar til landsins, affermdar í Þorlákshöfn og að lokum fluttar upp að Vaðöldu.

Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmda hóf fundinn 
Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmda hóf fundinn 

Uppsetning skiptist á tvö ár

Eitt af stærri verkefnum framkvæmdarinnar er einmitt flutningar á íhlutum vindmyllanna upp að Vaðöldu, þar sem vindlundurinn verður. Fyrir hverja vindmyllu má búast við 10 til 15 leyfisskyldum flutningum, þannig að allt í allt má búast við 300-400 slíkum stórflutningum í tengslum við framkvæmdina.

Hópur frá Enercon kom til landsins til þess að ræða málin á þessum vettvangi. 
Hópur frá Enercon kom til landsins til þess að ræða málin á þessum vettvangi. 

Það verður til að mynda meira en að segja það að koma 84 spöðum sem hver er 70 metrar á lengd, eftir íslenskum vegum alla þessa leið. Á vinnustofunni kom fram að stefnt væri að því að flutningarnir yrðu í bílalestum sem gætu orðið allt að 250 m langar. Flutningarnir verða þó ekki í einni lotu, því uppsetning vindmyllanna skiptist á tvö ár, 2026 og 2027 og flutningarnir skiptast því á rúmlega tvo mánuði hvort ár.

Endanleg flutningsleið ekki ákveðin

Það er að mörgu að huga við flutninga af þessari stærðargráðu. Það þarf að tryggja að vegir og brýr á leiðinni ráði við flutningana, tryggja öryggi við keyrslu undir háspennulínur og að staðið verði rétt að öllum leyfum og skilyrðum fyrir flutningana. Endanleg útfærsla og flutningsleið liggur ekki fyrir en nú verður unnið úr öllu því sem fram kom á vinnustofunni til að útfæra skipulagið betur.

Hópurinn skrapp í vettvangsferð í hráslagaveðri og tók út mögulegar flutningsleiðir.
Hópurinn skrapp í vettvangsferð í hráslagaveðri og tók út mögulegar flutningsleiðir.

Flutningarnir verða fyrst og fremst á næturnar til að lágmarka tafir á umferð og þeim þarf að fylgja ríkuleg upplýsingagjöf, svo vegfarendur viti á hverju sé von, hvar og hvenær. Stefnt er því að flutningarnir hefjist næsta vor og teygist mögulega eitthvað fram á sumar – en eins og kom fram á vinnustofunni mun íslenskt tíðarfar hafa töluvert um þær tímasetningar að segja.

Takk!

Við viljum þakka öllum sem tóku þátt í vinnustofunni fyrir virka og mikilvæga þátttöku. Sérstakar þakkir fær Kvenfélagið Lóan fyrir dásamlegar veitingar í félagsheimilinu Brúarlundi í vettvangsferðinni sem var farin í kjölfarið!

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir