Ný stefna um rafeldsneyti og loftslagstengda viðskiptaþróun
Landsvirkjun leitast við að selja orku til verkefna sem hámarka verðmætasköpun fyrir fyrirtækið og Ísland. Einnig skiptir máli að þau stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Bein rafvæðing farartækja og iðnaðar er orkuskiptaaðgerð sem getur fallið vel að þessum áherslum og því teljum við mikilvægt að styðja við og taka þátt í verkefnum á því sviði.
Við reiknum ekki með að vetni og rafeldsneyti leiki stórt hlutverk í innlendum orkuskiptum á næstu árum þó horfur geti breyst yfir næsta áratug eða til lengri tíma litið. Kostnaður græns vetnis og rafeldsneytis er, enn sem komið er, hár samanborið við jarðefnaeldsneyti eða aðra kosti til orkuskipta, svo sem beina rafvæðingu eða líforku, og viðskiptaumhverfi sem gæti jafnað þennan mun er enn háð töluverðri óvissu. Eftirspurn helst takmörkuð við slíkar aðstæður. Við sjáum hins vegar möguleg tækifæri á þessu sviði þegar til lengri tíma er litið. Við fylgjumst því grannt með framvindu og þróun kostnaðar, viðskiptaumhverfis og eftirspurnar eftir grænu vetni og rafeldsneyti.
Á næstu árum mun Landsvirkjun halda áfram að skoða möguleika á þátttöku í þróun smærri vetnisverkefna og orkusölu til þeirra. Þá verða þegar fram í sækir einnig metnir möguleikar til orkusölu til stærri rafeldsneytisverkefna en slík verkefni eru ekki talin samkeppnishæf að svo stöddu nema með verulegum opinberum stuðningi.
Við könnum jafnframt áfram tækifæri til orkusölu eða þátttöku í þróun annarra orkuskipta- og loftslagsverkefna, svo sem á sviði lífgass, sorporku og kolefnisföngunar og verður unnið að þróun slíkra verkefna með samstarfsaðilum þar sem við á.
Stefnan var samþykkt af stjórn Landsvirkjunar að tillögu forstjóra og styður við framtíðarsýn fyrirtækisins um sjálfbæran heim, knúinn endurnýjanlegri orku.