Stefna í rafeldsneyti og loftslagstengdri viðskiptaþróun

Núgildandi stefna í rafeldsneyti og loftslagstengdri viðskiptaþróun var samþykkt af stjórn Landsvirkjunar í mars 2025.

Tilgangur stefnunnar

Tilgangur stefnu Landsvirkjunar í rafeldsneyti og loftslagstengdri viðskiptaþróun er að setja fyrirtækinu leiðsögn og ramma um hvernig þróun starfsemi og orkusölu á þessu skilu háttað. Á alþjóðavísu er kostnaður græns vetnis og rafeldsneytis, enn sem komið er, hár samanborið við jarðefnaeldsneyti eða aðra valkosti til orkuskipta svo sem beina rafvæðingu og líforku.

Landsvirkjun á ekki von a því að grænt vetni og rafeldsneyti komi til með að leika stórt hlutverk í innlendum orkuskiptum næstu ár, en að það gæti breyst yfir næsta áratug eða til lengri tima litið.

Stefna í rafeldsneyti og loftstengdri viðskiptaþróun

Stefnan á PDF

Landsvirkjun leitast við að selja orku til verkefna sem hámarka verðmætasköpun fyrir fyrirtækið og Ísland og sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, að teknu tilliti til annarra samfélags-, umhverfis- og áhættuþátta verkefna. Bein rafvæðing farartækja og iðnaðar er orkuskiptaðgerð sem getur fallið vel að þessum áherslum. Landsvirkjun telur því mikilvægt að styðja og taka þátt í verkefnum tengdum aukinni rafvæðingu farartækja og iðnaðar á Íslandi.

Á sviði græns vetnis og rafeldsneytis sér Landsvirkjun tækifæri til lengri tíma og telur að vöxtur þessara greina geti leikið hlutverk í vegferð að sjálfbærum heimi. Landsvirkjun mun skoða möguleika til orkusölu og þátttöku í þróun smærri vetnisverkefna. Fyrirtækið mun einnig meta möguleika til orkusölu til stærri rafeldsneytisverkefna til lengri tíma en slík verkefni eru ekki talin samkeppnishæf sem stendur.

Landsvirkjun fylgist með framvindu mála og mun búa sig undir mögulegan vöxt þessara greina ef aukin eftirspurn verður eftir grænu vetni og rafeldsneyti til lengri tíma litið. Landsvirkjun mun jafnframt áfram kanna önnur tækifæri til orkusölu eða þátttöku í þróun annarra orkuskipta- og loftslagsverkefna, svo sem á sviði lífgass, sorporku og kolefnisföngunar. Landsvirkjun mun vinna að þróun slíkra verkefna með samstarfsaðilum þar sem við á.