Metnaðarfullt umhverfisstarf

Við sem störfum hjá Landsvirkjun vinnum saman að því að uppfylla markmið fyrirtækisins í umhverfismálum. Hvert og eitt okkar skiptir máli og við fögnum öllu frumkvæði. Saman leitum við nýrra lausna og deilum hugmyndum, því við viljum alltaf gera betur í dag en í gær.

Umhverfisfyrirtæki ársins 2023

Samtök atvinnulífsins veittu Landsvirkjun umhverfisverðlaun samtakanna árið 2023. Slík viðurkenning er okkur afar dýrmæt. Hún staðfestir að við erum á réttri braut og að metnaður okkar er sýnilegur í aðgerðum og vinnubrögðum þvert á fyrirtækið.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

„Landsvirkjun fer með umsjón mikilvægra náttúruauðlinda landsins og gerir það á ábyrgan og auðmjúkan hátt. Lögð er áhersla á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar, draga úr þeim og koma í veg fyrir frávik. Fyrirtækið hefur verið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi í hátt í 20 ár og hefur sýnt framsýni og forystu þegar kemur að útgáfu og birtingu umhverfisupplýsinga og aðgerða. Lögð er áhersla á að hámarka verðmæti þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er falið með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þannig hefur fyrirtækið markvisst innleitt sjálfbæra nýtingu í starfsemi sína, hámarkað nýtni og dregið úr úrgangi og losun tengdri starfsemi sinni.“

Árangur síðustu ára

Í loftslags- og umhverfisstefnunni okkar segir: „Landsvirkjun er í fararbroddi á sviði umhverfis- og loftslagsmála“. Til að vera leiðandi þurfum við alltaf að vera á tánum, vera framsýn og leita nýrra leiða. Árangur okkar síðustu ára er glæsilegur og höfum við unnið til fjölda verðlauna. Þessi árangur byggir á áralöngum grunni, þar sem metnaður, þekkingaröflun og vinna hefur borið góðan ávöxt.

Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri (t.h.) tók á móti Sjálfbærniásnum, ásamt Jónu Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra samfélags og umhverfis (t.v.) og Maríu Kjartansdóttur, sérfræðingi hjá stefnumótun og sjálfbærni.
2024

Sjálfbærniásinn

Við fengum Sjálfbærniásinn, fyrir að vera efst opinberra fyrirtækja í könnun á viðhorfi neytenda til frammistöðu atvinnulífsins í sjálfbærnimálum

2024

Europe Climate Leader

Þriðja árið í röð vorum við á lista Financial Times yfir evrópsk fyrirtæki sem hafa lækkað losun á framleiðslueiningu hvað mest á árunum 2017-2022.

2024

Endurúttekt Grænna skrefa

Starfsstöðvar okkar á Mývatnssvæði, Sogssvæði, Þjórsársvæði og í Fljótsdal stóðust endurúttekt Grænna skrefa í mars 2024 með sóma.

2023

Hæsta einkunn CDP

Við héldum sæti okkar á A-lista alþjóðlegu samtakanna CDP árið 2023. Þar erum við í hópi með aðeins um 350 fyrirtækjum á heimsvísu.

2023

Umhverfisfyrirtæki ársins

Samtök atvinnulífsins veittu okkur umhverfisverðlaun samtakanna árið 2023 við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í Hörpu.

2023

Europe Climate Leader

Annað árið í röð sátum við á Europe Climate Leaders lista Financial Times yfir þau 500 evrópsku fyrirtæki sem hafa lækkað losun á framleiðslueiningu hvað mest.

2022

A í einkunn frá CDP

Við hlutum einkunnina A frá alþjóðlegu samtökunum CDP fyrst íslenska fyrirtækja árið 2022, eftir að hafa hlotið einkunnina A- tvö undanfarin ár.

2022

Europe Climate Leader

Við komumst í fyrsta skipti á lista Financial Times yfir þau evrópsku fyrirtæki sem hafa lækkað losun á framleiðslueiningu mest á árunum 2015-2020.

2021

Loftslags­viðurkenning Festu og Reykjavíkur­borgar

Við fengum Loftslagsviðurkenningu Reykjavíkurborgar og Festu árið 2021 afhenta á árlegum Loftslagsfundi sem haldinn var í Hörpu.

2021

Samfélagsskýrsla ársins

Sjálfbærniskýrslan okkar var valin samfélagsskýrsla ársins 2021; viðurkenning sem veitt er af Festu, Stjórnvísi og Viðskiptaráði Íslands.

2020

A- í einkunn frá CDP

Við hlutum einkunnina A- frá CDP árið 2020, fyrst íslenskra fyrirtækja. Þar vorum við í hópi aðeins 50 fyrirtækja í endurvinnanlegri orkuframleiðslu í heiminum.

2020

Græn skref innleidd að fullu

Innleiðingu Grænna skrefa lauk á öllum sjö starfssvæðum okkar, en markmið þeirra er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og efla umhverfisvitund.

2017

Blue Planet verðlaunin

Blöndustöð hlaut á árinu Blue Planet verðlaunin, sem Alþjóða vatnaflssamtökin veita verkefnum sem skara fram úr í sjálfbærri nýtingu vatnsafls í heiminum.

Grænvarpið

Í hlaðvarpinu okkar, Grænvarpinu, fjöllum við um sjálfbæra þróun, bætta nýtingu auðlinda, loftslagsmál, nýsköpun, hringrásarhagkerfið og fjölmargt fleira. Í Grænvarpinu gefst tækifæri til að kynnast bæði starfseminni okkar, framtíðarsýninni og ekki síst því frábæra fólki sem hér vinnur að fjölbreyttum verkefnum.