Landsvirkjun aftur með hæstu einkunn í loftslagsmálum

06.02.2024Umhverfi

Landsvirkjun fær A í einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa og afleiðinga loftslagsbreytinga á starfsemi fyrirtækisins árið 2023 hjá alþjóðlegu samtökunum CDP.

Hæsta einkunn í loftslagsmálum

Landsvirkjun fær A í einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa og afleiðinga loftslagsbreytinga á starfsemi fyrirtækisins árið 2023 hjá alþjóðlegu samtökunum CDP. Þetta er annað árið í röð sem Landsvirkjun fær hæstu einkunn en 2021 fékk orkufyrirtæki þjóðarinnar einkunnina A-, þá fyrst íslenskra fyrirtækja til að ná svo góðum árangri. Einkunnin A þýðir að Landsvirkjun telst til leiðandi fyrirtækja í loftslagsmálum á heimsvísu.

Aðeins 346 fá hæstu einkunn

Samtökin CDP stuðla að samræmdri og faglegri upplýsingagjöf um umhverfismál, ásamt því að veita endurgjöf og hvetja til stöðugra umbóta. Landsvirkjun fékk fyrst mat CDP árið 2016. Kröfur CDP hafa aukist jafnt og þétt með árunum og því þurfti mun meira til að fá A í einkunn nú en þegar vegferðin hófst.

Upplýsingagjöfin er viðamikil og nær utan um loftslagsstýringu fyrirtækja með heildrænum hætti. Árið 2023 skiluðu rúmlega 23 þúsund fyrirtæki inn upplýsingum um loftslagsmál til samtakanna. Landsvirkjun er í hópi 346 þeirra sem hljóta hæstu einkunn og komast á A lista samtakanna.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

Framtíðarsýn Landsvirkjunar er sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku. Við teljum stærsta framlag orkufyrirtækis þjóðarinnar til sjálfbærrar þróunar vera að taka ábyrgð í loftslagsmálum, enda eru orkumál loftslagsmál. Við fögnum afdráttarlausri staðfestingu CDP á virkri baráttu okkar gegn loftslagsvánni. Við erum stolt af árangrinum og ætlum að vera áfram leiðandi í loftslagsmálum.“

SherryMadera, forstjóri CDP:

Sæti á A-listanum snýst um meira en einkunnina sjálfa. Það ber vitni um vönduð og heildstæð gögn sem veita viðkomandi fyrirtæki glögga yfirsýn yfir umhverfisáhrif sín, eru traustur grunnur umbreytinga og – sem mest er um vert – gerir þeim kleift að hrinda metnaðarfullum áformum sínum í framkvæmd.