Rúmar 72 milljónir til 46 verkefna

11.03.2025Samfélag

Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði styrkjum til 46 rannsóknarverkefna í ár, en þetta er í 18. skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Umsóknir hafa aldrei verið fleiri, eða 88.

Ánægðir styrkþegar Orkurannsóknasjóðs stilla sér upp fyrir myndatöku.
Ánægðir styrkþegar Orkurannsóknasjóðs stilla sér upp fyrir myndatöku.

Fjölbreytt og metnaðarfull rannsóknarverkefni

Að vanda voru verkefnin afar fjölbreytt en öll í samræmi við tilgang Orkurannsóknasjóðs, sem er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála, hvetja námsfólk til að velja sér viðfangsefni á þeim sviðum, gera fjárframlög orkufyrirtækis þjóðarinnar til rannsókna bæði skilvirkari og sýnilegri og tryggja að þær rannsóknir sem styrktar eru aðstoði við að ná fram framtíðarsýn okkar, sem er sjálfbær heimur knúinn endurnýjanlegri orku.

Að meðtöldum styrkveitingum þessa árs, sem voru samtals 72,159 milljónir kr., hefur sjóðurinn veitt 459 styrki til rannsóknarverkefna. Viðfangsefnin í námi og rannsóknarverkefnum skiptast nokkuð að jöfnu milli orku- og virkjunarmála og náttúru- og umhverfismála. Í heild hafa styrkir sjóðsins á þessum árum numið einum milljarði og 60 milljónum króna.

Jóna Bjarnadóttir
Jóna Bjarnadóttir

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, ávarpaði styrkþega. Hún sagði m.a. að á þeim 18 árum sem liðin eru frá því styrkveitingar hófust hafi áhersla á rannsóknir tengdar endurnýjanlegri orku hér á landi aukist og ánægjuefni að sjá hve mörg veldu nú að fara inn á þessa braut. „Við hjá Landsvirkjun erum afar stolt af þessu framlagi sjóðsins til orku- og umhverfismála og þeim mörgu frábæru verkefnum sem hafa hlotið brautargengi í krafti þessara styrkveitinga í gegnum árin,“ sagði Jóna.

Öflun nýrrar þekkingar

Ragna Karlsdóttir
Ragna Karlsdóttir

Ragna Karlsdóttir, stjórnarformaður Orkurannsóknasjóðs, sagði að við mat á umsóknum væri skoðað hversu vel verkefnið félli að tilgangi og markmiðum sjóðsins og hversu líklegt það væri til að afla nýrrar þekkingar. Litið til starfsferils umsækjanda, rannsóknarferils, samstarfsaðila og aðstöðu umsækjanda til að sinna verkefninu. Jafnframt er litið til þess að styrkféð dreifist á sem flest viðfangsefni, eftir því sem umsóknir gefa tilefni til. Einnig var litið til þess hvort meistara- og/eða doktorsnemar svo og nýdoktorar væru aðilar að verkefninu.

Veðurspár, viðhorf og varmi

Ólafur Rögnvaldsson kynnir verkefni um sannreyningu veðurspáa
Ólafur Rögnvaldsson kynnir verkefni um sannreyningu veðurspáa

Venju samkvæmt kynntu þrír styrkþegar verkefni sín við athöfnina. Það voru þau Ólafur Rögnvaldsson, sem sagði frá sannreyningu veðurspáa í rauntíma, Sóllilja Bjarnadóttir, sem fjallaði um viðhorf almennings til loftslagsaðgerða og réttlátra umskipta og Samuel Scott, en erindi hans bar heitið Advancing Geothermal Reservoir Models for Superhot Systems.

Sóllilja Bjarnadóttir segir frá viðhorfum almennings til loftslagsaðgerða og réttlátra umskipta
Sóllilja Bjarnadóttir segir frá viðhorfum almennings til loftslagsaðgerða og réttlátra umskipta

Í stjórn Orkurannsóknasjóðs eru nú, auk Rögnu Karlsdóttur formanns, Ólafur Arnar Jónsson, forstöðumaður Nærsamfélags og náttúru hjá Landsvirkjun, Hildur Harðardóttir verkefnastjóri á deild Loftslags og áhrifastýringar hjá Landsvirkjun, Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands, Halldór Guðfinnur Svavarsson, prófessor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og Brynhildur Bjarnadóttir, dósent við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Samuel Scott kynnir verkefni sitt.
Samuel Scott kynnir verkefni sitt.

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir