Losun áfram lítil

03.03.2025Umhverfi

Losun vegna orkuvinnslu Landsvirkjunar 2024 nam 3,3 grömmum CO2-ígilda á hverja unna kWst og jókst um tæp 6% á milli ára. Aukninguna má rekja til aukinnar vinnslu og losunar frá jarðvarmastöðvum, en á sama tíma dróst heildarraforkuvinnsla saman um tæp 4% vegna slæmrar vatnsstöðu. Losun frá lónum dróst saman um rúm 8% vegna færri íslausra daga en árið áður.

Þetta kemur fram í loftslagsbókhaldi Landsvirkjunar, sem nú er komið út.

Losun vegna orkuvinnslu undir markmiði aðgerðaáætlunar

Lesa loftslagsbókhald 2024

Losunin vegna orkuvinnslu er undir markmiði uppfærðrar aðgerðaáætlunar okkar í loftslags- og umhverfismálum, um að losun vegna orkuvinnslu verði undir 4 CO2-ígildum fram til 2030. Við höfum sett okkur markmið um að losunin verði undir 1 CO2-ígildi á hverja unna kWst árið 2050.

Heildarlosun frá allri starfsemi fyrirtækisins á orkueiningu á síðasta ári nam 4,9 grömmum CO2-ígilda á hverja unna kWst og jókst hún um 4% á milli ára. Heildarlosun á orkueiningu er undir viðmiði samtakanna Science Based Targets initiative (SBTi) til ársins 2040 fyrir orkufyrirtæki sem stuðla að því að hlýnun jarðar haldist innan 1,5°C frá upphafi iðnbyltingar, 9,1 gCO2-íg/kWst. Orkufyrirtæki geta talist kolefnishlutlaus ef losun er undir því viðmiði, kaupi þau kolefniseiningar fyrir þeirri losun sem eftir stendur.

Losun vegna eldsneytisnotkunar bíla og tækja jókst lítillega á milli ára. Við vinnum áfram markvisst að orkuskiptum í bíla- og tækjaflotanum með rafvæðingu og notkun vetnismeðhöndlaðrar lífolíu í stað dísilolíu þar sem rafvæðing er ekki enn orðin möguleg. Notkun lífolíu jókst um 20% á milli ára.

Kolefnisspor dróst saman um 2%

Kolefnisspor (losun að frádreginni bindingu) var um 32,4 þúsund tonn CO2-ígilda og minnkaði um rúm 2% á milli ára. Samdráttinn má m.a. rekja til minni losunar frá lónum og í virðiskeðju, ásamt því að kolefnisbinding jókst um tæp 2% á milli ára.

Við gefum árlega út loftslagsbókhald þar sem við birtum tölulegar upplýsingar um losun vegna starfsemi fyrirtækisins. Endurskoðunarfyrirtækið Bureau Veritas hefur rýnt og staðfest loftslagsbókhaldið okkar skv. alþjóðlega staðlinum ISO 14064-3. Þannig tryggjum við að niðurstöðurnar séu í samræmi við þá losun sem starfsemi fyrirtækisins veldur.

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir