Sterk framtíð á stoðum fortíðar
Yfirskriftin í ár er Sterk framtíð á stoðum fortíðar og lögð er áhersla á að ekki þurfi að leita langt yfir skammt að lausnum á orkuvanda þjóðarinnar. Ísland eigi að baki farsæla sögu uppbyggingar orkukerfis sem sé einstakt í heiminum og að verkefnið sé að halda áfram á þeirri braut – nýta þekkinguna til að mæta raforkuþörf til vaxtar samfélagsins og orkuskipta. Viðhorfskannanir hafi ítrekað sýnt að almenningur sé stoltur af fyrirtækinu og treysti því fyrir fjöreggi íslensku þjóðarinnar, endurnýjanlegum náttúruauðlindum landsins.
Fyrirtækið hafi leikið lykilhlutverk í uppbyggingu íslenska raforkukerfisins og hafi alla burði til þess að takast á við þau verkefni sem þarf að vinna svo hægt sé að styðja við þróun og vöxt samfélagsins á komandi árum.
Að venju er skýrslan stútfull af fróðleik um orkufyrirtæki þjóðarinnar; orkuvinnsluna, afkomuna, raforkumarkaðinn, loftslags- og umhverfismál, vinnustaðinn, stefnuna, samskipti við samfélagið og miðlun og fræðslu, svo fátt eitt sé nefnt.