Hugað að nýjum höfuðstöðvum

21.02.2025Fyrirtækið

Stjórn Landsvirkjunar samþykkti á fundi sínum fyrr í dag að kaupa þrjár lóðir austast á Bústaðavegi í Reykjavík, með það í huga að þar rísi næstu höfuðstöðvar orkufyrirtækis þjóðarinnar.

Það kemur þó í hlut næstu stjórnar fyrirtækisins, sem skipuð verður í apríl, að taka frekari ákvarðanir um hvort eða hvenær af þeim framkvæmdum verður. Þá hefur stjórnin einnig samþykkt að hefja sölu á fyrri höfuðstöðvum Landsvirkjunar við Háaleitisbraut 68.

1,3 milljarðar fyrir 3 lóðir

Lóðirnar eru við Bústaðaveg 143, 145 og 147 og liggja að Reykjanesbraut, norður af veitingastaðnum Sprengisandi og gömlu hesthúsum Fáks. Þær voru seldar í einu lagi á um 1,3 milljarða króna með áföllnum gjöldum en fyrstu áform Landsvirkjunar gera ráð fyrir að syðri lóðirnar tvær, 145 og 147, verði sameinaðar undir nýjar höfuðstöðvar. Ekki hefur verið tekin ákvörðum um þriðju lóðina, sem liggur nyrst.

Fyrstu áætlanir gera ráð fyrir að höfuðstöðvar við Bústaðaveg verði í um 80 m fjarlægð frá þeim íbúðarhúsum sem næst standa. Byggingarmagn á lóðunum tveimur verður í samræmi við núgildandi deiliskipulag þótt tvær lóðir verði sameinaðar og á þeim rísi ein bygging. Landsvirkjun mun leggja áherslu á að vera i góðum samskiptum við íbúa í grennd við athafnasvæðið um framgang mála.

Eldri höfuðstöðvar að Háaleitisbraut

Fyrir um 2 árum síðan kom upp mygla í höfuðstöðvum fyrirtækisins til næstum hálfrar aldar að Háaleitisbraut 68 og var starfsfólk fært í núverandi leiguhúsnæði við Katrínartún. Í húsnæðinu við Háaleitisbraut var orðið þröngt um starfsemina og því hafði staðið til í nokkur ár þar á undan að finna félaginu nýjan stað. Stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt sölu á Háaleitisbrautinni og samið hefur verið við fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka um að annast söluferlið sem hefst innan skamms.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Þessar lóðir liggja vel við helstu stofnleiðum og þjónustu, rétt eins og fyrri höfuðstöðvar við Háaleitisbraut gerðu. Þótt endanleg ákvörðun um uppbyggingu á svæðinu liggi ekki fyrir er ánægjulegt að sjá að málið er komið á rekspöl. Ef svo heldur sem horfir gætu nýjar höfuðstöðvar verið fullbúnar eftir 3-4 ár. Við förum fram af varfærni, enda þurfum við að vanda til undirbúnings og allra verka þegar hugað er að byggingu höfuðstöðva sem vonandi munu standa næstu áratugi.“

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir