Ítarleg vöktun í öflugum verkefnum
Landsvirkjun vill vera til fyrirmyndar í auðlindanýtingu og orkuvinnslu. Til að svo megi vera þarf starfsemi fyrirtækisins að vera með sjálfbærni að leiðarljósi, hvort sem um er að ræða nýtingu jarðvarma, vatnsafls eða vindorku.
Við vinnum nú þegar að tveimur öflugum sjálfbærniverkefnum í tengslum við starfsemi fyrirtækisins á Austurlandi og Norðausturlandi. Verkefnin eru unnin í samstarfi við hagaðila okkar á svæðunum. Markmið þeirra er að vakta og fylgjast með áhrifum af starfsemi Landsvirkjunar og tengdum rekstri á samfélag, umhverfi og efnahag.
Sjálfbærniverkefnin eiga það sammerkt að þau safna og miðla upplýsingum um þætti er tengjast starfsemi Landsvirkjunar með beinum eða óbeinum hætti. Gögn sem til verða eru öllum aðgengileg og geta nýst bæði einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum á þeim svæðum sem þau taka til. Að auki stuðla þau að gagnsæi sem hjálpar til að skapa traust á milli fyrirtækisins og þeirra samfélaga sem það starfar í.