Upprunaábyrgðir

Upprunaábyrgð er staðfesting á því að tiltekið magn raforku hafi verið unnið með endurnýjanlegum orkugjöfum. Neytendur geta stutt við vinnslu á endurnýjanlegri orku með því að kaupa slíkar upprunaábyrgðir.

Tilgangur upprunaábyrgða er að styðja við uppbyggingu endurnýjanlegra orkukosta og þar með orkuskipti.

Hvað er upprunaábyrgð?

Upprunaábyrgð felur í sér upplýsingar um hvar, hvenær og hvernig ein megavattstund (MWst) af endurnýjanlegri raforku var unnin. Þar með staðfestir upprunaábyrgð að tiltekið magn raforku hafi verið unnið með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Því má segja að endurnýjanlegir orkugjafar gefi af sér tvær aðskildar vörur, fyrst raforkuna og í beinu framhaldi upprunaábyrgðir.

Hvati til hraðari orkuskipta

Upprunaábyrgðakerfið er evrópskt kerfi sem skapar fjárhagslegan hvata til að vinna endurnýjanlega orku og flýtir þannig fyrir orkuskiptum í Evrópu.

Aðildarríki upprunaábyrgðakerfisins eru tuttugu og átta og er Ísland meðlimur í gegnum aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu.

Allir raforkunotendur, óháð staðsetningu innan Evrópu, geta stutt við vinnslu endurnýjanlegrar orku með því að kaupa upprunaábyrgðir. Kerfið er valkvætt og því byggja verðmæti upprunaábyrgða í grunninn á eftirspurn frá neytendum.

Enginn þarf að kaupa upprunaábyrgðir en öllum er frjálst að gera það.

Stuðningur við vinnslu endurnýjanlegrar orku

Fyrir hverja megavattstund sem unnin er af endurnýjanlegri raforku verður til ein upprunaábyrgð.

Sjái raforkunotandi sér hag í því að geta sýnt fram á stuðning sinn við vinnslu endurnýjanlegrar orku með alþjóðlega viðurkenndri aðferð kaupir hann upprunaábyrgðir.

Ákvörðunin um að borga aukalega getur bæði verið tekin út frá sjónarmiðum um samfélagslega ábyrgð en einnig vegna ákalls frá viðskiptavinum raforkunotandans um staðfestingu á notkun á endurnýjanlegri orku.

Stórnotendur á Íslandi sem kaupa upprunaábyrgðir af Landsvirkjun

Mikilvægar úttektir og vottanir

Spurt og svarað

Viltu vita meira?

Hér höfum við tekið saman algengustu spurningarnar um upprunaábyrgðir.

Ef þú finnur ekki svör við þínum spurningum getur þú sent okkur skilaboð á landsvirkjun@landsvirkjun.is.