Raforkumarkaðurinn

Íslenski raforkumarkaðurinn skiptist í tvo aðskilda undirmarkaði, almennan markað og stórnotendamarkað. Stórnotendur nota um 80% af raforkunni á Íslandi, almenn fyrirtæki og þjónusta um 15% og heimili um 5%.

Skipulag íslenska raforkumarkaðarins

Stórnotendur

Til að teljast stórnotandi samkvæmt raforkulögum þarf notandi að nota 80 GWst á ári, eða um 10 MW, á einum og sama staðnum. Stórnotendur tengjast beint við flutningskerfi Landsnets og fá orkuna afhenta þaðan á hárri spennu.

Almennir notendur

Á almennum markaði eru allir þeir notendur sem nota minna en 80 GWst á ári á einum og sama staðnum. Öll heimili landsins teljast því til almenna markaðarins, sem og langflest fyrirtæki og stofnanir. Þessir notendur tengjast ekki beint við flutningskerfið heldur fá orkuna afhenta frá svokölluðum dreifiveitum á lágri spennu. Áður hafa dreifiveiturnar fengið orkuna frá flutningskerfi Landsnets.

Raforka er skilgreind sem markaðsvara og samkeppni ríkir á markaðnum. Jafnframt gilda almennar samkeppnisreglur um sölu rafmagns á Íslandi. Orkufyrirtækjum í opinberri eigu er því óheimilt að selja raforku undir kostnaðarverði, hvort sem er til almennra notenda eða stórnotenda. Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með því að reglum sem gilda um raforkumarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sé fylgt.

Heildsöluviðskipti

Heildsala á raforku eru viðskipti á milli raforkusala. Við hjá Landsvirkjun seljum ekki rafmagn beint til heimila eða minni fyrirtækja heldur seljum við það í heildsölu til sölufyrirtækja sem selja það svo áfram. Um 2 TWst eða um 15% af rafmagnssölunni fara fram með þessum hætti.

Markaðstorg raforku

Tvö fyrirtæki hafa nú leyfi til að reka markaðstorg fyrir raforkuviðskipti, Elma orkuviðskipti og Vonarskarð. Gera má ráð fyrir að samkeppni á raforkumarkaði aukist með tilkomu þessara skipulegu raforkumarkaðstorga. Rétt er að taka fram að fyrirtækin hafa leyfi til reksturs raforkumarkaðar”, en þar sem við notum hér hugtakið raforkumarkaður” yfir alla vinnslu, dreifingu og sölu á rafmagni á Íslandi þá vísum við til Elmu og Vonarskarðs sem markaðstorga raforku.

Markaðstorgin eru jákvætt skref

Raforkumarkaðir eru í stöðugri þróun, bæði á Íslandi og erlendis. Með raforkulögum árið 2003 og síðar með reglugerð árið 2005 voru viðskipti með raforku gefin frjáls á Íslandi. Segja má að fyrsta bylgja samkeppni hafi verið í vinnslu á raforku. Árið 2005 unnu önnur fyrirtæki en Landsvirkjun tæpar 1,5 TWst af raforku á ári, núna er orkuvinnsla þeirra um 5 TWst á ári.

Önnur bylgja breytinga hófst 2017 með innkomu fjögurra nýrra sölufyrirtækja en þau eru nú alls níu talsins.

Þriðja bylgja breytinga hófst í desember 2023 þegar tvö fyrirtæki fengu heimild ráðherra til að reka markaðstorg raforku. Þann 15. apríl 2024 opnaði Vonarskarð sinn markað með vöruúrval allt að 5 ár fram í tímann. Elma, dótturfélag Landsnets, áformar að opna svokallaðan næstadagsmarkað á árinu 2025.

Í Orkustefnu Íslands til 2050 segir: „Til að Ísland verði áfram samkeppnishæft er mikilvægt að til staðar sé virkur samkeppnishæfur orkumarkaður sem skilar fjölbreyttum og misstórum notendum orku á sanngjörnu verði.“ Núverandi þróun í raforkuviðskiptum er liður í því að ná þessum markmiðum og áframhald þeirrar þróunar sem hófst árið 2003.

Heildsöluviðskiptavinir

Heildsölumarkaður raforku er vettvangur viðskipta með raforku á milli raforkusala. Við seljum ekki rafmagn beint til heimila eða smærri fyrirtækja heldur á heildsölumarkaði til sölufyrirtækja sem selja það áfram til endanotenda. Um 2 TWst eða 15% af rafmagnssölunni fer fram með þessum hætti.

Hlutdeild Landsvirkjunar á heildsölumarkaði er breytileg milli ára.