Raforkumarkaðurinn

Íslenski raforkumarkaðurinn skiptist í tvo aðskilda undirmarkaði, almennan markað og stórnotendamarkað. Stórnotendur nota um 80% af raforkunni á Íslandi, almenn fyrirtæki og þjónusta um 15% og heimili um 5%.

  • Landsvirkjun vinnur mesta raforku af öllum fyrirtækjum hérlendis og selur raforku á stórnotendamarkað og heildsölumarkað.

    Stórnotendamarkaður er alþjóðlegur markaður þar sem Landsvirkjun á í samkeppni við önnur raforkufyrirtæki víða um heim. Landsvirkjun selur um 13 TWst til stórnotenda og aðrir framleiðendur um 3 TWst. Samningar okkar við stórnotendur eru allajafna til langs tíma og tryggja fyrirsjáanleika bæði fyrir Landsvirkjun og stórnotendurna en sá stöðugleiki er nauðsynlegur grunnur fjárfestingarákvarðana.

    Landsvirkjun selur raforku í heildsölu, um 2 TWst árlega, til sölufyrirtækja og í kerfisþjónustu til Landsnets.

  • Íslenska raforkukerfið er verulega frábrugðið öðrum raforkukerfum að því leyti að hér er raforkuvinnsla eingöngu með endurnýjanlegum orkukostum og raforkukerfið er ekki tengt öðru raforkukerfi. Þetta tvennt gerir íslenska kerfið einstakt og við höfum náð að reka þetta kerfi svo vel að eftirtekt hefur vakið víða um heim.

    Sala Landsvirkjunar er að mestu í formi forgangsorku, þ.e. orku sem Landsvirkjun telur sig geta afhent óháð því hver staða miðlunarlóna er frá ári til árs. Við seljum einnig raforku með fyrirvara um að skerða þurfi afhendingu hennar eftir stöðu miðlunarlóna hverju sinni, svokallaða skerðanlega orku.

    Erlendis fer raforkuvinnsla fram með margvíslegum hætti, til dæmis margvíslegum endurnýjanlegum orkukostum, gasi, kolum og kjarnorku. Raforkukerfin eru einnig oft á tíðum samtengd og því er mögulegt að flytja raforku á milli landa og svæða. Skipulag viðskipta erlendis byggir á því að nota hagkvæmustu nýtingu innviða hverju sinni í raforkukerfum sem eru mun flóknari en hið íslenska.

    Íslenska raforkukerfið er að mörgu leyti það kerfi sem lönd víða um heim stefna að, þ.e. raforkuvinnsla sem byggir eingöngu á endurnýjanlegum orkukostum.

    Hin sérstaka staða hérlendis endurspeglast í skipulagi raforkuviðskipta og þeirri þróun sem hefur átt sér stað. Langstærstur hluti heildsöluviðskipta Landsvirkjunar er í formi samninga sem eru langtímasamningar, mánuðir og ár, og oft gerðir löngu áður en afhending hefst. Lítill hluti raforkusölu Landsvirkjunar er í formi stakra klukkustunda.

Skipulag íslenska raforkumarkaðarins

Stórnotendur

Til að teljast stórnotandi samkvæmt raforkulögum þarf notandi að nota 80 GWst á ári, eða um 10 MW, á einum og sama staðnum. Stórnotendur tengjast beint við flutningskerfi Landsnets og fá orkuna afhenta þaðan á hárri spennu.

Almennir notendur

Á almennum markaði eru allir þeir notendur sem nota minna en 80 GWst á ári á einum og sama staðnum. Öll heimili landsins teljast því til almenna markaðarins, sem og langflest fyrirtæki og stofnanir. Þessir notendur tengjast ekki beint við flutningskerfið heldur fá orkuna afhenta frá svokölluðum dreifiveitum á lágri spennu. Áður hafa dreifiveiturnar fengið orkuna frá flutningskerfi Landsnets.

Raforka er skilgreind sem markaðsvara og samkeppni ríkir á markaðnum. Jafnframt gilda almennar samkeppnisreglur um sölu rafmagns á Íslandi. Orkufyrirtækjum í opinberri eigu er því óheimilt að selja raforku undir kostnaðarverði, hvort sem er til almennra notenda eða stórnotenda. Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með því að reglum sem gilda um raforkumarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sé fylgt.

Heildsöluviðskipti

Heildsala á raforku eru viðskipti á milli raforkusala. Við hjá Landsvirkjun seljum ekki rafmagn beint til heimila eða minni fyrirtækja heldur seljum við það í heildsölu til sölufyrirtækja sem selja það svo áfram. Um 2 TWst eða um 15% af rafmagnssölunni fara fram með þessum hætti.

  • Á undanförnum árum hefur fyrirtækjum sem selja til heimila og minni fyrirtækja fjölgað og samkeppni aukist. Fjögur ný sölufyrirtæki (N1, Orka heimilanna, Straumlind og Atlantsorka) hafa hafið starfsemi á undanförnum árum. Þessi fyrirtæki búa ekki yfir eigin raforkuvinnslu. Fyrir á markaði voru Orka náttúrunnar, HS Orka, Fallorka, Orkusalan og Orkubú Vestfjarða. Hægt er að sjá yfirlit yfir öll fyrirtækin á þessari síðu hér.

    Öll þessi fyrirtæki vinna raforku og tvö þeirra selja einnig raforku til stórnotenda. Á vef Aurbjargar má sjá upplýsingar um verð sem sölufyrirtækin bjóða.

  • Landsvirkjun býður nú upp á ferns konar útgáfu á afhendingu forgangsorku til að mæta þörfum sölufyrirtækja, þar sem nýting aflsins og tímalengd afhendingar er mismunandi.

    • Grunnorka er full nýting á afli til eins árs
    • Mánaðarblokk er full nýting á afli til eins mánaðar
    • Skammtímakaup eru fyrir einstaka klukkustundir
    • Aflþjónusta veitir sölufyrirtækjum tækifæri til að kaupa sveigjanleika

    Sala okkar til sölufyrirtækjanna er að langmestu leyti byggð á langtímasamningum, þ.e. samningum sem tryggja afhendingu í einn mánuð eða eitt ár. Mögulegt er að gera slíka samninga mörgum mánuðum, jafnvel einhverjum árum áður en afhending hefst. Samningar til lengri tíma og/eða með upphafsdagsetningu langt fram í tímann hafa skapað Landsvirkjun og sölufyrirtækjum fyrirsjáanleika í rekstri. Slíkur fyrirsjáanleiki er mikilvægur í því vatnsaflsríka kerfi sem rekið er hérlendis.

    Lesa meira um heildsölusamninga Landsvirkjunar.

Markaðstorg raforku

Tvö fyrirtæki hafa nú leyfi til að reka markaðstorg fyrir raforkuviðskipti, Elma orkuviðskipti og Vonarskarð. Gera má ráð fyrir að samkeppni á raforkumarkaði aukist með tilkomu þessara skipulegu raforkumarkaðstorga. Rétt er að taka fram að fyrirtækin hafa leyfi til reksturs raforkumarkaðar”, en þar sem við notum hér hugtakið raforkumarkaður” yfir alla vinnslu, dreifingu og sölu á rafmagni á Íslandi þá vísum við til Elmu og Vonarskarðs sem markaðstorga raforku.

Markaðstorgin eru jákvætt skref

Raforkumarkaðir eru í stöðugri þróun, bæði á Íslandi og erlendis. Með raforkulögum árið 2003 og síðar með reglugerð árið 2005 voru viðskipti með raforku gefin frjáls á Íslandi. Segja má að fyrsta bylgja samkeppni hafi verið í vinnslu á raforku. Árið 2005 unnu önnur fyrirtæki en Landsvirkjun tæpar 1,5 TWst af raforku á ári, núna er orkuvinnsla þeirra um 5 TWst á ári.

Önnur bylgja breytinga hófst 2017 með innkomu fjögurra nýrra sölufyrirtækja en þau eru nú alls níu talsins.

Þriðja bylgja breytinga hófst í desember 2023 þegar tvö fyrirtæki fengu heimild ráðherra til að reka markaðstorg raforku. Þann 15. apríl 2024 opnaði Vonarskarð sinn markað með vöruúrval allt að 5 ár fram í tímann. Elma, dótturfélag Landsnets, opnaði næstadagsmarkað í mars 2025.

Í Orkustefnu Íslands til 2050 segir: „Til að Ísland verði áfram samkeppnishæft er mikilvægt að til staðar sé virkur samkeppnishæfur orkumarkaður sem skilar fjölbreyttum og misstórum notendum orku á sanngjörnu verði.“ Núverandi þróun í raforkuviðskiptum er liður í því að ná þessum markmiðum og áframhald þeirrar þróunar sem hófst árið 2003.

  • Á markaðstorgum raforku myndast tækifæri fyrir seljendur og kaupendur að eiga viðskipti. Þeir senda inn nafnlaus kaup- og söluboð og ef þeir eru ásáttir um verð verður af viðskiptum.

    Ónafngreinanlegar upplýsingar um kaup- og söluboð eru birt opinberlega eftir að þátttakendur hafa sent þau inn. Upplýsingarnar sýna því það markaðsverð sem hefur myndast, boðið magn til sölu og óskir um kaup. Allar þessar upplýsingar eru öllum aðgengilegar. Upplýsingar sem þessar munu því varpa ljósi á verðmyndun á raforkumarkaði, framboð og eftirspurn. Hér er um mikið framfaraskref að ræða samanborið við þá stöðu sem Landsvirkjun er í vegna markaðsráðandi stöðu sinnar.

    Gera má ráð fyrir að tilkoma markaðstorganna verði til þess að samkeppni aukist í raforkuvinnslu og á heildsölumarkaði. Markaðstorgin munu auðvelda nýjum kaupendum og seljendum að stunda raforkuviðskipti.

Heildsöluviðskiptavinir

Heildsölumarkaður raforku er vettvangur viðskipta með raforku á milli raforkusala. Við seljum ekki rafmagn beint til heimila eða smærri fyrirtækja heldur á heildsölumarkaði til sölufyrirtækja sem selja það áfram til endanotenda. Um 2 TWst eða 15% af rafmagnssölunni fer fram með þessum hætti.

Hlutdeild Landsvirkjunar á heildsölumarkaði er breytileg milli ára.