Að loknum erindum voru pallborðsumræður sem Þóra Arnórsdóttir stýrði. Þátttakendur í pallborði voru Hörður Arnarson forstjóri, Guðrún Halla Finnsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Norðuráli, Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar.
Aðspurður um mat á orkuþörf sagði ráðherra að hún væri að einhverju leyti metin í orkuspám Umhverfis- og orkustofnunar og Landsnets. Orkuöflunarvilji væri hins vegar lykilorðið og nú væri staðan sú í fyrsta skipti að algjör einhugur væri meðal allra þingflokka ríkisstjórnar að ráðast í meiri orkuöflun og uppbyggingu dreifikerfisins.
Hörður sagði að mat á orkuþörf hlyti að vera grundvöllur rammaáætlunar. Hvernig ætti annars að ná niðurstöðu? Við þyrftum að skilgreina orkuþörf og virkja í samræmi við það. Og þar ættum við stuðning almennings.
Gestur vísaði í þau orð Jónu Bjarnadóttur að ekki ætti að þurfa lengri tíma en 7 ár frá rammaáætlun til gangsetningar nýrrar virkjunar. Lágmarkstími nú væri 12 ár og sögulega tæki þetta enn lengri tíma. Hann sagði alveg raunsætt og mögulegt að stytta leyfisferli. Við værum búin að skuldbinda okkur til að taka á loftslagsmálum, svo það væri ekki eftir neinu að bíða. Umhverfis- og orkustofnun væri öflugri en forverar hennar og starfsemin yrði skilvirkari.
Þóra benti á að leyfisferli væri lengst hér á landi og þróunin öfug við það sem tíðkaðist á meginlandinu. Fyrirtæki hefðu ekki bolmagn til að ráðast í virkjanir ef þau sæju fram á áratuga flakk um kerfið.
Notendamiðuð stjórnsýsla, ekki stofnanamiðuð
Jóhann Páll sagði stjórnvöld vera að vinna að þéttum lagabreytingapakka sem tæki á þessu. Stjórnsýslan ætti að vera notendamiðuð, ekki stofnanamiðuð. Hann hefði fulla trú á að hægt yrði að koma ferli við nýja orkuöflunarkosti niður í 6-7 ár.
Guðrún Halla svaraði spurningu pallborðsstjóra um raforkumarkaðinn með því að segja að Norðurál gæti ekki starfað án þeirra langtímasamninga sem hér gilda. Erlendis væri víðast hvar að finna virkari raforkumarkaði en hér, en samt byggðu stórfyrirtæki þar líka á langtímasamningum. Upphafsfjárfestingar væru gríðarlegar í stóriðnaði og fyrirtækin yrðu að hafa þann fyrirsjáanleika sem langtímasamningar byðu upp á.
Jóhann Páll benti á nýtt frumvarp sem ætlað er að lögfesta ýmsa varnagla til að tryggja raforkuöryggi heimila ef kæmi til skorts eða skömmtunar. Næsta haust yrði lagt fram annað frumvarp til að tryggja forgang og vernd almennra notenda.
Hörður sagði að huga yrði að samkeppnishæfni landsins með tilliti til uppbyggingar til framtíðar. Stórnotendur hefðu undanfarið verið að færa sig frá meginlandi Evrópu vegna orkumála. Þegar við byggðum nýjar virkjanir yrðu kostirnir að vera hagkvæmir, svo við næðum að halda samkeppnisstöðu á þessum alþjóðlega markaði.
Hár flutningskostnaður
Guðrún Halla tók undir að mikilvægt væri að fylgjast grannt með stöðunni á þessum samkeppnismarkaði. Raforkuverð væri t.d. hátt í Noregi, en það væri niðurgreitt og við þyrftum að keppa við niðurgreidda verðið. Þá benti hún á að flutningskerfi raforku hefði alls ekki verið fullnægjandi undanfarin ár, flutningskostnaður væri of hár og lítill metnaður að taka á því. Staðið hefði til að hækka hann mjög mikið um áramótin en svo verið ákveðið að dreifa þeirri hækkun yfir árið. Flutningskostnaður til heimila hafi einnig aukist og allt hafi þetta verið til að standa undir kostnaði Landsnets af því að fyrirtækið tapaði dómsmáli.

Hörður tók undir þetta og rifjaði upp að þegar hann tók við starfi forstjóra fyrir 15 árum var talið brýnt að leggja Blöndulínu 3 og Suðurnesjalínu 2, en hvorug hefur enn verið lögð. Það væri með miklum ólíkindum hve illa gengi að bæta úr svo mikilvægu atriði. Þá spurði hann einnig hvernig stæði á því að gjaldskrá vegna flutninga hækkaði jafn mikið og raun bæri vitni, þegar ekkert gengi að komast í framkvæmdir.
Í lok pallborðs sagði Gestur Pétursson að hann væri bjartsýnn á að Íslendingar næðu markmiðum sínum í loftslagsmálum. Við ættum val um hvert hugarfar okkar yrði við það verkefnið, en hann fyndi mikla jákvæða sveiflu.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sagði oft talað um orkuskipti sem íþyngjandi og óþægileg, en tækifærin væru fjölmörg. Sjálfur væri hann sannfærður um að orkuskiptin gætu ýtt undir jákvæða byggðaþróun og kveikt ýmsa möguleika.