Meiri orku eftir styttra ferli

05.03.2025Fyrirtækið

Ársfundur Landsvirkjunar árið 2025 var haldinn fyrir fullum sal í Silfurbergi í Hörpu þann 4. mars og um leið var því fagnað að í sumar eru liðin 60 ár frá stofnun fyrirtækisins. Í erindum og umræðum kom skýrt fram að nauðsynlegt væri að vinna meiri raforku hér á landi, en stytta þyrfti ógnarlangt leyfisveitingaferli sem nú stæði þeirri vinnslu fyrir þrifum.

Upptaka af fundinum

Sterk framtíð á stoðum fortíðar

Á 60 ára afmælisári orkufyrirtækis þjóðarinnar fjallaði ársfundurinn um þá miklu reynslu sem við höfum öðlast í orkuvinnslu úr endurnýjanlegum auðlindum en jafnframt um framtíðarsýn okkar og mat á því hvað gera þarf til að tryggja orkuskipti og áframhaldandi velsæld í orkumálum.

Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður Samskipta og upplýsingamiðlunar, setti fundinn og stjórnaði honum. Í hennar máli kom m.a. fram að stolt yfir mikilvægu hlutverki orkufyrirtækis þjóðarinnar er rauði þráðurinn í svörum starfsfólks Landsvirkjunar þegar það er spurt hvers vegna það starfi hjá fyrirtækinu.

Forgangsmál að rjúfa kyrrstöðu

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, steig fyrstur í pontu. Hann benti á að eitt brýnasta verkefni stjórnmálanna væri að auka verðmætasköpun. Hann vísaði til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aukna orkuöflun, styrkingu flutningskerfis raforku, bætta orkunýtni og að stutt verði við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land. Þá sagði hann nauðsynlegt að einfalda ferli leyfisveitinga og að verkefni í nýtingarflokki rammaáætlunar njóti forgangs í stjórnsýslu orkumála.

Ráðherra sagði einnig nauðsynlegt að stærri hluti tekna af orkuvinnslu rynni til nærsamfélags virkjana og forgangsatriði væri að tryggja orkuöryggi heimila og almennra notenda. Orkuskiptin krefðust þess að kyrrstaða í orkumálum væri rofin og það væri algjört forgangsmál hjá ríkisstjórninni.

Þá sagðist ráðherra vonast til að fyrsta vindorkuverið, Vaðölduver, eyddi tortryggni í garð slíkra orkukosta. Sjálfur væri hann sannfærður um að vindorkan ætti eftir að leika stórt hlutverk hér á landi, enda væri hún fullkominn meðspilari vatnsorkunnar.

Daði Már kvaðst binda vonir við að ný aðferð við val á einstaklingum í stjórnir fyrirtækja í ríkiseigu bætti þær enn frekar og styrkti hagsmuni eigendanna, sem væri þjóðin öll. Þá þakkaði hann núverandi stjórn fyrir farsæl og mikilvæg störf.

Vel í stakk búin fyrir orkuvinnslu

Jón Björn Hákonarson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, rakti góða fjárhagsstöðu Landsvirkjunar sem kæmi samfélaginu öllu til góða. Reksturinn 2024 hefði gengið vel, þótt ekki hafi hann náð sömu hæðum og metárið 2023. Aðstæður í vatnsbúskapnum hefðu verið krefjandi, en samt hefði stjórn fyrirtækisins náð að leggja til að fyrirtækið greiddi 25 milljarða kr. í arð til ríkissjóðs.

Jón Björn lagði áherslu á nauðsyn þess að bæta við orkuvinnslu og ráðast í orkuskipti. Það yrði að gera Landsvirkjun, sem og öðrum fyrirtækjum í orkuvinnslu, kleift að sinna hlutverki sínu af krafti til að leggja grunn að velferð og hagsæld samfélagsins í framtíðinni.

Stjórnarformaðurinn benti á að einstök fjárhagsstaða Landsvirkjunar væri engin tilviljun. Fyrirtækið hefði fjárfest í arðbærum virkjunum og endursamningar við viðskiptavini undanfarin misseri og ár hefðu styrkt reksturinn mjög. Fyrirtækið hafi náð að greiða niður skuldir, um leið og svigrúm hafi skapast til að greiða eiganda þess, íslensku þjóðinni, ríflegan arð. Fyrirtækið hafi aldrei í 60 ára sögu þess verið jafn vel í stakk búið til að ráðast í frekari orkuöflun. Hann benti sérstaklega á að Landsvirkjun væri með næst hæstu lánshæfiseinkunn allra orkufyrirtækja á Norðurlöndum, einungis Statkraft í Noregi væri með hærri einkunn.

Jón Björn fagnaði því að framkvæmdir væru loks hafnar við Vaðölduver, fyrsta vindorkuverið og nýja stoð í raforkuvinnslu landsins. Þá styttist í Hvammsvirkjun, eftir áratugi á teikniborðinu. Vaðölduver og Hvammsvirkjun myndu leika lykilhlutverk í aukinni orkuöflun. Þá yrði Sigöldustöð stækkuð, sem og Þeistareykir. Þannig væri Landsvirkjun að nýta fjóra virkjunarkosti í vatni, vindi og jarðvarma.

Skuldlausar eilífðarvélar

Hörður Arnarson forstjóri rakti uppbyggingu undanfarinna áratuga og hversu vel hefur tekist til að starfa í samræmi við umhverfi og náttúru. Græna orkan væri lífsgæði okkar allra og samtvinnuð sjálfsmynd þjóðarinnar.

Landsvirkjun framleiðir um 75% alls rafmagns á Íslandi. Hörður nefndi sérstaklega hversu vandað og ítarlegt viðhald allra stöðva er og snyrtilegt umhverfi þeirra, enda sýni kannanir að sveitungar þeirra séu sáttir. Þessar eilífðarvélar séu grunnur velsældar samfélagsins.

Græna orkan er besta framlag okkar til loftslagsmála, að mati Harðar. Samningar við stórnotendur hafi verið grunnurinn að uppbyggingu raforkukerfisins og þeir stórnotendur séu mjög mikilvægur þáttur í efnahagslífi okkar. Vissulega hafi Landsvirkjun tekist á við stórnotendur um raforkuverð en alltaf hafi fundist lausn sem Landsvirkjun sé sátt við og sem tryggir stórnotendum hagkvæman rekstur.

Hörður benti á að íslenska raforkukerfið ætti engan sinn líka í heiminum, með 100% endurnýjanlegri orku og ekkert varaafl að grípa til. Það væri krefjandi að virkja beljandi jökulfljót eða bora í virk eldfjallasvæði, en þetta hefði okkur tekist með afar góðum árangri.

Á síðasta ári var kerfið okkar fullselt og á sama tíma var vatnsbúskapurinn með versta móti. Hörður benti á að þrátt fyrir þetta hefði orkufyrirtæki þjóðarinnar tekist að standa við allar skuldbindingar.

Forstjórinn fór fögrum orðum um mannauð fyrirtækisins og trausta innviði þess. Hann benti á að ekkert fyrirtæki á Íslandi skilaði jafn miklum arði til eigenda sinna og Landsvirkjun. Stjórn hafi lagt til 25 milljarða arð, tekjuskattur á síðasta ári hafi numið 12 milljörðum og samtals renni því 37 milljarðar í ríkissjóð þetta eina rekstrarár. Frá 2021 hafi Landsvirkjun samtals greitt 91 milljarð í arð og 61 milljarð í skatta, samtals 152 milljarða króna, um leið og skuldir voru lækkaðar um 90 milljarða.

Hörður sagði að mikilvægar nýframkvæmdir væru loks hafnar og hefði ekki mátt síðar vera, því eftirspurn fari sífellt vaxandi. Orkuskiptum hafi seinkað, raforkuverð til almennra neytenda hækkað og Landsvirkjun hafi ekki getað stutt við öll fyrirtæki sem óski samninga um raforku. Þá sagðist hann taka undir með fjármálaráðherra að auka þyrfti ávinning nærsamfélags virkjana og tryggja sanngjarna skiptingu hans. Til framtíðar skorti skýra sýn á orkuþörf okkar, hvað þurfi til orkuskipta, til að styðja við hagvöxt og styðja ný fyrirtæki. Þetta þurfi stöðugt að endurmeta.

Loks sagði Hörður forstjóri að framtíðin væri björt, en við yrðum að nýta tækifærin. Við ættum skuldlausar eilífðarvélar sem við gætum verið stolt af. Þær væru það besta sem við færðum komandi kynslóðum.

Ákvarðanir í þágu barna og barnabarna

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis, minnti í upphafi erindis síns á það markmið í langtíma orkustefnu stjórnvala, að orkuþörf samfélagsins sé ávallt uppfyllt. Hins vegar kæmi ekki fram hver sú orkuþörf væri.

Hún fór yfir hversu langt og strangt ferli það er að fá leyfi til að reisa nýja virkjun. Hvammsvirkjun hafi verið til umfjöllunar í rúmlega aldarfjórðung. Þar af hafi tekið yfir áratug að fá öll leyfi í hús – sem séu reyndar ekki endanlega í hendi. Ef engar tafir hefðu orðið þá hefði Hvammsvirkjun tekið til starfa í ár, 2025. Og þetta væri staðan með virkjun sem ítrekað hefði verið staðfest að væri hagkvæmur virkjunarkostur, heilum áratug frá því að Alþingi setti Hvammsvirkjun í nýtingarflokk.

Jóna sagði að ef allt gengi að óskum ætti leyfisveitingaferlið ekki að vera lengra en 12 ár. Hún benti á að rammaáætlun hafi átt að stuðla að aukinni sátt . Það markmið hefði ekki náðst. Í tilfelli Hvammsvirkjunar hefðu t.d. 8 stjórnvaldsákvarðanir verið kærðar í 11 kærumálum og þar að baki væru alls 30 kærur. Tvisvar hefðu leyfi verið felld úr gildi, í hvorugt skiptið vegna einhverra efnislegra atriða t.d. að hönnun hafi verið ábótavant eða einhverjir aðrir annmarka af hálfu Landsvirkjunar. Í fyrra tilvikinu hefði Orkustofnun átt að tala meira við Umhverfisstofnun. Það skorti samráð. Í hinu tilvikinu hefði Héraðsdómur í raun sagt að þessar stofnanir hefðu ekki þurft að ræða saman, því Umhverfisstofnun hefði ekki haft lagaheimild til að taka ákvörðun í málinu.

Þá sagði Jóna að umsóknarferlið sjálft gæti tekið tvö ár, án þess að gefa nokkurn minnsta afslátt af umhverfismálum. Það þyrfti bara að afgreiða öll stóru málin á sama stað á sama tíma. Þar bætist framan við 2 ára umfjöllun í rammaáætlun og loks þriggja ára framkvæmdatímabil, alls 7 ár.

Jóna benti á að þær ákvarðanir sem við tækjum í dag væru grunnur að aðstæðum barna okkar og barnabarna í framtíðinni. Við yrðum að vanda okkur við ákvarðanir ef við ætluðum að uppfylla orkuþörf þeirra. Stjórnmálamenn yrðu að hafa kjark til að taka ákvarðanir til lands tíma og stofnanir að hafa burði til að vinna að þeim.

Lægsta raforkuverð Evrópu

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu, bauð áheyrendum í tímaflakk rúm 20 ár aftur í tímann. Þá voru sett ný raforkulög sem innleiddu samkeppni i framleiðslu og sölu á raforku og leystu úr læðingi krafta sem bitust í 3 bylgjum.

Fyrst komu fleiri orkuframleiðendur inn á markaðinn, t.d. Orka náttúrunnar, HS orka og ýmsar smávirkjanir. Þá jókst samkeppni í raforkusölu með fjölgun smásala frá 2017 og sú samkeppni lýsti sér í því að nú væri allt að 30% verðmunur milli hæsta og lægsta verðs sem býðst á almennum markaði. Þriðja bylgjan felst í nýtilkomnum markaðstorgum raforku.

Tinna fór yfir mun á raforkumarkaði hér og á meginlandi Evrópu, þar sem markaðurinn er 100 sinnum stærri. Endurnýjanleg orka næmi aðeins þriðjungi af markaði þar, en 100% hér. Þar væru millilandaviðskipti með raforku á meðan raforkukerfi okkar væri einangrað.

Hún taldi upp fleiri atriði sem væru ólík milli þessara markaða. Hér nýttu stórnotendur 80% allrar raforku en því væri öfugt farið á meginlandinu. Heimili á Íslandi hefðu ekki þurft að keppa við stórnotendur um orku og verð.

Tinna sagði því hafa verið haldið fram að endursala stórnotenda inn á íslenska raforkuverðið gæti tryggt öruggt framboð til almennings. Hún sagði að þvert á móti myndi óheft endursala færa verðmyndun á raforku til stórnotenda. Tveir stærstu notendur raforku hér á landi notuðu t.d. hvor um sig meiri orku en öll heimili landsins til samans. Til samanburðar mætti nefna að stærsti raforkunotandi í Noregi notaði orku sem næmi aðeins um 4% af orkunotkun heimila þar í landi.

Tinna benti á að hér á landi væri raforkuverð til heimilda lægra en annars staðar í Evrópu. Langtímasamningar við stórnotendur og sá stöðugleiki sem þeim fylgdi gerði að verkum að orkuframleiðendur væru tilbúnir að fjárfesta í virkjunum hér á landi án niðurgreiðslna frá ríkinu, eins og tíðkaðist víða. Við gætum áfram tryggt almennum notendum örugga orku á sanngjörnu verði.

Tinna sagði að lokum að árið 2003 hefðum við ekki gert okkur grein fyrir hve jákvæða krafta ný raforkulög leystu úr læðingi. Það væri erfitt að sjá önnur 20 ár fram í tímann, en við ætluðum okkur að tryggja framtíð næstu kynslóða.

Orkuþörf, flutningar og orkuskipti

Að loknum erindum voru pallborðsumræður sem Þóra Arnórsdóttir stýrði. Þátttakendur í pallborði voru Hörður Arnarson forstjóri, Guðrún Halla Finnsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Norðuráli, Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar.

Aðspurður um mat á orkuþörf sagði ráðherra að hún væri að einhverju leyti metin í orkuspám Umhverfis- og orkustofnunar og Landsnets. Orkuöflunarvilji væri hins vegar lykilorðið og nú væri staðan sú í fyrsta skipti að algjör einhugur væri meðal allra þingflokka ríkisstjórnar að ráðast í meiri orkuöflun og uppbyggingu dreifikerfisins.

Hörður sagði að mat á orkuþörf hlyti að vera grundvöllur rammaáætlunar. Hvernig ætti annars að ná niðurstöðu? Við þyrftum að skilgreina orkuþörf og virkja í samræmi við það. Og þar ættum við stuðning almennings.

Gestur vísaði í þau orð Jónu Bjarnadóttur að ekki ætti að þurfa lengri tíma en 7 ár frá rammaáætlun til gangsetningar nýrrar virkjunar. Lágmarkstími nú væri 12 ár og sögulega tæki þetta enn lengri tíma. Hann sagði alveg raunsætt og mögulegt að stytta leyfisferli. Við værum búin að skuldbinda okkur til að taka á loftslagsmálum, svo það væri ekki eftir neinu að bíða. Umhverfis- og orkustofnun væri öflugri en forverar hennar og starfsemin yrði skilvirkari.

Þóra benti á að leyfisferli væri lengst hér á landi og þróunin öfug við það sem tíðkaðist á meginlandinu. Fyrirtæki hefðu ekki bolmagn til að ráðast í virkjanir ef þau sæju fram á áratuga flakk um kerfið.

Notendamiðuð stjórnsýsla, ekki stofnanamiðuð

Jóhann Páll sagði stjórnvöld vera að vinna að þéttum lagabreytingapakka sem tæki á þessu. Stjórnsýslan ætti að vera notendamiðuð, ekki stofnanamiðuð. Hann hefði fulla trú á að hægt yrði að koma ferli við nýja orkuöflunarkosti niður í 6-7 ár.

Guðrún Halla svaraði spurningu pallborðsstjóra um raforkumarkaðinn með því að segja að Norðurál gæti ekki starfað án þeirra langtímasamninga sem hér gilda. Erlendis væri víðast hvar að finna virkari raforkumarkaði en hér, en samt byggðu stórfyrirtæki þar líka á langtímasamningum. Upphafsfjárfestingar væru gríðarlegar í stóriðnaði og fyrirtækin yrðu að hafa þann fyrirsjáanleika sem langtímasamningar byðu upp á.

Jóhann Páll benti á nýtt frumvarp sem ætlað er að lögfesta ýmsa varnagla til að tryggja raforkuöryggi heimila ef kæmi til skorts eða skömmtunar. Næsta haust yrði lagt fram annað frumvarp til að tryggja forgang og vernd almennra notenda.

Hörður sagði að huga yrði að samkeppnishæfni landsins með tilliti til uppbyggingar til framtíðar. Stórnotendur hefðu undanfarið verið að færa sig frá meginlandi Evrópu vegna orkumála. Þegar við byggðum nýjar virkjanir yrðu kostirnir að vera hagkvæmir, svo við næðum að halda samkeppnisstöðu á þessum alþjóðlega markaði.

Hár flutningskostnaður

Guðrún Halla tók undir að mikilvægt væri að fylgjast grannt með stöðunni á þessum samkeppnismarkaði. Raforkuverð væri t.d. hátt í Noregi, en það væri niðurgreitt og við þyrftum að keppa við niðurgreidda verðið. Þá benti hún á að flutningskerfi raforku hefði alls ekki verið fullnægjandi undanfarin ár, flutningskostnaður væri of hár og lítill metnaður að taka á því. Staðið hefði til að hækka hann mjög mikið um áramótin en svo verið ákveðið að dreifa þeirri hækkun yfir árið. Flutningskostnaður til heimila hafi einnig aukist og allt hafi þetta verið til að standa undir kostnaði Landsnets af því að fyrirtækið tapaði dómsmáli.

Hörður tók undir þetta og rifjaði upp að þegar hann tók við starfi forstjóra fyrir 15 árum var talið brýnt að leggja Blöndulínu 3 og Suðurnesjalínu 2, en hvorug hefur enn verið lögð. Það væri með miklum ólíkindum hve illa gengi að bæta úr svo mikilvægu atriði. Þá spurði hann einnig hvernig stæði á því að gjaldskrá vegna flutninga hækkaði jafn mikið og raun bæri vitni, þegar ekkert gengi að komast í framkvæmdir.

Í lok pallborðs sagði Gestur Pétursson að hann væri bjartsýnn á að Íslendingar næðu markmiðum sínum í loftslagsmálum. Við ættum val um hvert hugarfar okkar yrði við það verkefnið, en hann fyndi mikla jákvæða sveiflu.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sagði oft talað um orkuskipti sem íþyngjandi og óþægileg, en tækifærin væru fjölmörg. Sjálfur væri hann sannfærður um að orkuskiptin gætu ýtt undir jákvæða byggðaþróun og kveikt ýmsa möguleika.

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir