Fróðlegur fundur í Grósku
Jöklar hafa verið helsta hugðarefni vísindafólks undanfarna daga enda er árið 2025 Ár jökla og verndar þeirra hjá Sameinuðu þjóðunum og af því tilefni blásið til fyrirlestra og settur saman fróðleikur af ýmsu tagi.
Landsvirkjun, Jarðvísindastofnun og Jöklarannsóknarfélag Íslands fóru yfir samstarf sitt undanfarna áratugi á opnum fundi í Grósku föstudaginn 21. mars, á alþjóðlegum degi jökla, og þar ræddu vísindamenn um hvað framtíðin gæti borið í skauti sér. Fundurinn var hinn fróðlegasti og hægt er að horfa á upptöku af honum hér.
Andri okkar Gunnarsson er verkefnisstjóri á deild þróunar vatnsafls en líka formaður Jöklarannsóknarfélagsins. Hann birti grein í Morgunblaðinu sama dag og opni fundurinn var haldinn og fór þar yfir mikilvægi jöklanna í orkuvinnslu þjóðarinnar.
Síðar sama dag fræddi Andri landsmenn um íslenska jökla og ákvarðanir í orkumálum í þættinum Samfélaginu á RÚV, en hægt er að hlusta á viðtalið hér.
Morgunblaðið birti einnig viðtal við Andra mánudaginn 24. mars og þar fór hann enn yfir stöðu jöklanna. Þar sagði hann m.a.: „Raunar þarf hitastig á Íslandi ekki að breytast mikið, kannski að kólna um 1-2 gráður að meðaltali, svo jöklarnir eigi möguleika á því að fara aftur að bæta við sig svo einhverju nemi.”
Við hjá Landsvirkjun ætlum að halda áfram að bæta við okkur þekkingu um íslensku jöklana og starfa náið með bestu vísindamönnum á því sviði.