Orkuþörf okkar vex ekki bara vegna tækni eða iðnaðar – hún endurspeglar hver við erum sem samfélag og hvert við viljum fara. Við viljum skapa framtíð sem byggir á sjálfbærni. Nú heyrast hins vegar gamalkunnug stef í orkumálum, sérstaklega vestanhafs þar sem „drill baby drill“ virðist ætla að verða slagorð forsetans þar í málaflokknum. Ísland má ekki láta deigan síga nú þegar áherslan virðist færast frá umhverfismálum og umræða um áframhaldandi notkun hefðbundins jarðefnaeldsneytis virðist á uppleið. Við eigum að stefna ótrauð að orkuskiptum. Það skiptir öllu máli fyrir loftslagið og lífríkið – en líka fyrir heilbrigði fólks, lífsgæði og jöfnuð í samfélaginu.
Við þurfum að vinna meiri raforku hér á landi til að geta hætt að nota jarðefnaeldsneyti. Ýmsar spár hafa verið settar fram um hve mikla raforku þarf til orkuskipta. Ekki er langt síðan við töldum líklegast að grænt eldsneyti, unnið úr rafmagni (vetni) og t.d. kolefni (metanól o.fl.) myndi að mestu leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Þetta græna eldsneyti mun vissulega skipta máli í ákveðnum geirum þegar fram líða stundir en núna eru þessir orkuberar ekki samkeppnishæfir. Hröð tækniþróun í beinni notkun raforku á ýmsar vélar og tæki minnkar svo enn þann hluta sem rafeldsneytið þyrfti ella að dekka.
Því meiri raforku sem við getum notað beint á þann búnað sem við notum núna jarðefnaeldsneyti á, því viðráðanlegra verður það verkefni að afla orku fyrir orkuskiptin. Orkuskipti hafa nefnilega bætta orkunýtni í för með sér – við náum að nota mun hærra hlutfall raforkunnar til að vinna fyrir okkur en við náum að gera með jarðefnaeldsneyti.
Spár um að tvöfalda þurfi orkukerfið hér á landi fyrir orkuskiptin ganga því ekki upp. Þörfin verður líkast til minni og mun vaxa hægar en spáð var. Raunhæfari vöxtur er á þá leið sem núverandi ríkistjórnarflokkar hafa talað fyrir, um 5 TWst aukning (25% núverandi orkukerfis) til 2035 og hóflegur vöxtur í framhaldi af því.