Orkan okkar, börnin og barnabörnin
Græna orkan okkar er fyrir löngu orðin hluti af sjálfsmynd okkar sem þjóðar, enda mikilvæg forsenda þeirrar velsældar og lífsgæða sem við búum við hér á landi. Við getum öll verið stolt af þvísem uppbygging raforkukerfisins hefur fært okkur. Mín kynslóð þekkir lítið annað en að það sé til nóg af grænni orku til að uppfylla þarfir okkar, hvort heldur er í hversdagslífinu eða atvinnulífinu. Afi minn og amma höfðu sannarlega aðra sögu að segja. En hver verður staðan hjá börnum okkar og barnabörnum?
Í rúmlega 5 ára gamalli orkustefnu stjórnvalda er kveðið á um að orkuþörf samfélagsins skuli ávallt uppfyllt. Núna blasir hins vegar við sú staða að við getum ekki mætt allri eftirspurn eftir raforku. Það gildir bæði um aukna orkuþörf vegna almenns vaxtar samfélagsins og um aukna orkuþörf fyrirtækja sem vilja bæta við rekstur sinn eða hefja nýjan. Hér er rétt að taka fram að orkuþörf vegna orkuskipta í samgöngum virðist ætla að verða minni en spáð var næstu 10 árin þar sem þróun notkunar rafeldsneytis gengur hægar en spár gerðu ráð fyrir. Vinnsla rafeldsneytis er enn ekki samkeppnishæf en við fylgjumst grannt með þróuninni, tilbúin að láta að okkur kveða þegar það verður hagkvæmt.