Hringrás auðlinda

Ábyrg nýting auðlinda

3,3 g

CO₂-íg/kWst á ári

Hringrásarhugsun er sífellt að aukast á Íslandi. Hingað til hefur almennt verið lögð áhersla á endurvinnslu úrgangs en nú er ljóst að hringrásarhagkerfið tekur til fleiri og stærri þátta. Slíkt hagkerfi byggir aðallega á tvennu. Annarsvegar að lágmarka notkun auðlinda og hins vegar að viðhalda verðmætum þeirra auðlinda sem teknar eru í notkun eins lengi og mögulegt er.

Framtíðarsýn Landsvirkjunar er sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku. Losun okkar er 3,3 g CO₂-íg/kWst á ári, sem er með því lægsta sem þekkist í heiminum. Iðnaður sem er knúinn grænni, endurnýjanlegri orku hefur lægra kolefnisspor á vörum og þjónustu. Slíkur iðnaður leiðir af sér minni notkun á jarðefnaeldsneyti, bætta nýtingu auðlinda og er mikilvægur vettvangur fyrir nýsköpun, vitundarvakningu og aukna verðmætasköpun.

Færsla úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi er lykilþáttur í vegferðinni að kolefnishlutleysi. Þar spilar orkuvinnsla úr endurnýjanlegum auðlindum stórt hlutverk. Nýleg greining (KPMG, 2023) bendir til þess að auk áherslu á endurvinnslu þurfi að leggja aukna áherslu á orkuskipti, hringrás lífmassa, vistvæna mannvirkjagerð og hringrásarneyslu. Starfsemi okkar styður við allar þessar áherslur.

Endurnýjanleg orka

Öll orkuvinnsla Landsvirkjunar telst til loftslagsaðgerða enda leika orkuskipti lykilhlutverk í orkutengdri nýsköpun, í þróun á rafeldsneytisframleiðslu og með samvinnu við viðskiptavini og önnur fyrirtæki um orkuskipti í þeirra starfsemi.

Landsvirkjun ætlar að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti 2030. Aðgerðir og markmið því tengdu má finna í aðgerðaáætlun okkar í loftslags-og umhverfismálum.

Orkuskipti

Við vinnum hörðum höndum að rafvæðingu bílaflotans okkar. Bílum í eigu fyrirtækisins sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti hefur markvisst verið skipt út fyrir rafbíla og (hrað)hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla verið komið upp á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins.

Að frumkvæði starfsfólks í Kröflustöð erum við að prófa okkur áfram með notkun á vetnismeðhöndluðum lífdísil sem eldsneyti. Þar sem rafmagnsbílar henta ekki fyrir alla okkar starfsemi, sem fer að hluta fram við krefjandi aðstæður, er lífdísill góður kostur því hann má nota beint á dísilvélar. Losun hans er mun minni heldur en við notkun hefðbundinnar dísilolíu.

Hámörkum nýtingu virkjaðra auðlinda

Við berum virðingu fyrir þeim auðlindum sem við nýtum í byggingu aflstöðvanna okkar og þeim auðlindum sem stöðvarnar nýta til orkuvinnslu.

Vönduð vinnslustýring

Við stýrum vinnslu á svæðunum þannig að nýtingin sé sem best og umhverfisáhrifin sem minnst. Sem dæmi má nefna að í jarðvarmavirkjunum stillum við vinnsluholur saman og nýtum þær undir þeim þrýstingi sem hentar framleiðslunni best. Í vatnsaflsvirkjunum er leitast við að hámarka nýtingu auðlindarinnar að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða sem miða að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif.

Á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu rennur vatnið í gegnum sjö aflstöðvar á svæðinu á leið sinni til sjávar:

Endurbótaverkefni

Við erum með sérstaka endurbótadeild sem styður beint við markmiðið um að hámarka nýtingu auðlindanna. Það felur í sér að greina tækifæri til að bæta reksturinn eins og t.d. í þeim tilvikum þar sem búnaður eða vélar eru komin á tíma. Sem dæmi má nefna að við endurnýjun á aflvél í Bjarnarflagi tvöfaldaðist orkuvinnslan (úr 2,5 MW í 5 MW) þrátt fyrir að nýta sama gufumagn og áður.

Sjálfbær nýting

Við leggjum áherslu á að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt. Með sjálfbærri þróun er vísað til þróunar þar sem litið er til lengri tíma og snýst hún um að auka efnahagsleg verðmæti og styrkja samfélagið, jafnframt því að viðhalda gæðum náttúrunnar.

Viðkvæm jarðhitasvæði er nauðsynlegt að byggja upp í þrepum og gefa tíma til þess að bregðast við nýtingu.

Hringrás efna

Við leggjum okkur fram um að auka hringrás efna í framkvæmda- og viðhaldsverkefnum og höfum sett okkur það markmið að allur úrgangur frá okkar starfsemi fari í hringrás auðlinda árið 2030.

Til að tryggja að efnin fari rétta leið vöndum við valið á móttökuaðilum. Þar vega ábyrgir starfshættir meira en kostnaður, því við viljum fullvissa okkur um að efnin sem við skilum frá okkur verði nýtt aftur og að það sé gert með ábyrgum hætti.

Við hugsum í lausnum, nýtum jarðefni sem við gröfum upp í vegagerð og landmótun, notum afgangs fóðringarstál í ný verkefni og finnum leiðir til að koma plasti aftur í frumframleiðslu. Einnig gerum við kröfur til verktaka í okkar um að flokka allan úrgang svo hægt sé að endurnýta og endurvinna eins mikið og mögulegt er.

Líftími véla og búnaðar

Við leggjum okkur fram við að hámarka líftíma aflstöðva, innviða og vélbúnaðar með öflugu viðhaldi. Við lögum hluti áður en bilanir verða sem kemur í veg fyrir að ein bilun leiði af sér aðra. Þannig uppfyllum við kröfur um tiltæki véla, sem er alla jafna 99% frá september til maí. Hver vél í aflstöð er tekin í viðhaldsskoðun árlega og í ítarskoðun á þriggja ára fresti og við erum með öflugt viðhaldskerfi sem heldur utan um hvaða viðhald þarf að fara fram og hvenær.

Við erum afar stolt af árangri okkar í þessum málaflokki. Með góðu viðhaldi hefur okkur tekist að lengja líftíma véla umfram uppgefinn endingatíma og þannig spara fé og auðlindir. Sem dæmi er uppgefinn endingartími á vél 1 í Kröflu 30 ár. Vélin er búin að ganga í 44 ár.

Flokkun úrgangs

Úrgangur er auðlind. Við leggjum okkur fram við að lágmarka magn úrgangs sem fer til urðunar og hámarka það sem fer aftur inn í hringrásarhagkerfið.
Við höfum greint alla úrgangsflokka sem fara frá okkur, fylgjum eftir hvernig úrgangurinn er meðhöndlaður og greinum tækifæri til úrbóta. Við flokkum úrgang sem fellur til vegna starfsemi okkar og komum til endurvinnslu eða förgunar hjá viðurkenndum aðilum.

Starfsstöðvar okkar flokka úrgang í samræmi við þá möguleika sem sorphirðufyrirtæki og viðkomandi sveitarfélög hafa upp á að bjóða. Þar sem úrræði til flokkunar eru færri, t.a.m. í minni sveitarfélögum, höfum við unnið með sorphirðuaðilum að bættri þjónustu, sem hefur nýst samfélögunum í kring.

Spilliefni

Samkvæmt lögum og reglum er öllum spilliefnum skilað til viðurkenndra móttökuaðila til að tryggja rétta meðhöndlun þeirra. Fyrirtæki sem sinna sorphirðu og förgun fyrir okkur eru öll með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu og Umhverfisstofnun.

Grænn rekstur

Við leggjum áherslu á grænan rekstur, vistvæn innkaup og síaukna umhverfisvitund starfsfólks. Landsvirkjun hefur lokið innleiðingu Grænna skrefa á öllum starfsstöðvum fyrirtæksins. Markmiðið er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá skrifstofustarfsemi, auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum og innleiða grænan rekstur.

Græn skref

Grænu skrefin eru fimm talsins, en hvert skref inniheldur 20 til 40 aðgerðir sem er skipt upp í sjö flokka:

Uppfylla þarf að minnsta kosti 90% aðgerða til að standast úttekt á Grænum skrefum, sem við höfum mikinn metnað fyrir.

Við vitum að umhverfisvænn vinnustaður skiptir starfsfólkið okkar máli. Grænu skrefin hjálpa okkur öllum að taka þátt, þau leiða af sér nýja þekkingu og hvetja okkur til að leita frumlegra og vistvænni lausna við bæði stór og lítil verk.

Svansvottað mötuneyti

Mötuneyti okkar á starfsstöðvum um allt land leggja sig fram um að bjóða upp á heilsusamlegan mat og á sama tíma lágmarka umhverfisáhrif þjónustunnar. Við leitum sífellt leiða til þess að tryggja að starfsemi okkar uppfylli ströngustu umhverfiskröfur hverju sinni og sem liður í því hlaut Lónið Bistro, mötuneyti okkar á höfuðborgarsvæðinu, Svansvottun árið 2022. Vottuninni fylgir aukin áhersla á lífræn og staðbundin matvæli, alfarið umhverfisvottuð efni í almennum þrifum, aðgerðir gegn matarsóun ásamt reglulegri markmiðasetningu og fræðslu.