Fremst í loftslagsmálum í Evrópu

06.06.2023Umhverfi

Annað árið í röð situr Landsvirkjun á lista Financial Times yfir þau evrópsku fyrirtæki sem hafa lækkað losun á framleiðslueiningu hvað mest.

Annað árið í röð situr Landsvirkjun á lista Financial Times yfir þau evrópsku fyrirtæki sem hafa lækkað losun á framleiðslueiningu hvað mest á árunum 2016-2021 en samdráttur okkar nam 17,4% yfir það tímabil. Alls eru 500 fyrirtæki á listanum yfir Europe Climate Leaders og bætast við fleiri íslensk fyrirtæki í ár, en á listanum eru nú einnig Eimskip, Brim og Arionbanki.

Listinn tekur til beinnar losunar og losunar vegna orkunotkunar. Þá var einnig horft m.a. til losunar á hagnað, samdráttar í heildarlosun og einkunnar viðkomandi fyrirtækis hjá alþjóðlegu samtökunum CDP, en einkunn Landsvirkjunar þar er A og telst fyrirtækið leiðandi í loftslagsmálum.

Þá er rétt að taka fram að fyrirtæki sem valda umtalsverðum umhverfisskaða komast ekki á þennan lista Financial Times jafnvel þótt þau uppfylli kröfur um samdrátt í losun.

Losun með því lægsta sem þekkist

Losun í starfsemi Landsvirkjunar árið 2022 var 3,5 grömm af koldíoxíði á hverja framleidda kílówattstund og er með því lægsta sem þekkist hjá orkuframleiðendum, jafnvel þegar borið er saman við aðra endurnýjanlega orkuvinnslu.

Listi Financial Times er enn ein staðfestingin á góðum árangri Landsvirkjunar í loftslagsmálum.

Sjá lista Financial Times