Landsvirkjun er umhverfisfyrirtæki ársins 2023

28.11.2023Umhverfi

Samtök atvinnulífsins veittu Landsvirkjun umhverfisverðlaun samtakanna við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í Hörpu fyrr í dag.

F.v. Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður Loftslags og grænna lausna, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjói Samfélags og umhverfis
F.v. Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður Loftslags og grænna lausna, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjói Samfélags og umhverfis

Umsjón auðlinda á ábyrgan og auðmjúkan hátt

„Fyrirtækið er í forystu í loftslags- og umhverfismálum og má með sanni segja að aðgerðir og vinnubrögð endurspegli þann metnað og önnur fyrirtæki geti tekið sér Landsvirkjun til fyrirmyndar. Landsvirkjun ber því vel titilinn umhverfisfyrirtæki ársins 2023,“ segir í rökstuðningi dómnefndar Samtaka atvinnulífsins sem veittu Landsvirkjun umhverfisverðlaun samtakanna í ár.

Samtök atvinnulífsins veita þessi verðlaun árlega og að þessu sinni bárust fjölmargar tilnefningar sem sýna að umhverfis- og loftslagsmál eru sífellt að verða stærri hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi, að því er segir í rökstuðningnum.

Þar segir enn fremur: „Landsvirkjun fer með umsjón mikilvægra náttúruauðlinda landsins og gerir það á ábyrgan og auðmjúkan hátt. Lögð er áhersla á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar, draga úr þeim og koma í veg fyrir frávik. Fyrirtækið hefur verið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi í hátt í 20 ár og hefur sýnt framsýni og forystu þegar kemur að útgáfu og birtingu umhverfisupplýsinga og aðgerða.

Lögð er áhersla á að hámarka verðmæti þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er falið með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þannig hefur fyrirtækið markvisst innleitt sjálfbæra nýtingu í starfsemi sína, hámarkað nýtni og dregið úr úrgangi og losun tengdri starfsemi sinni.“

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, tók við verðlaununum og þakkaði þann heiður sem féll fyrirtækinu í skaut. „Það er ánægjulegt að fá viðurkenningu á því umfangsmikla starfi sem fer fram hjá okkur í umhverfis- og loftslagsmálum.  Áherslur okkar og markmið eru skýr og við fylgjum þeim eftir af festu,“ sagði Jóna.

Gengur lengra en lög og reglur krefjast

Meira um samfélagslosun

Dómnefndin bendir einnig á að Landsvirkjun taki hlutverk sitt og áhrif í samfélaginu alvarlega og gangi lengra en lög og reglur segja til um þegar kemur að áhrifum frá starfsemi fyrirtækisins. Landsvirkjun leggi áherslu á að styðja við alla virðiskeðju sína á loftslagsvegferðinni.

„Fyrirtækið horfir út fyrir starfsemi sína þegar kemur að samdrætti í samfélagslosun og þeim áhrifum sem Landsvirkjun getur haft á heildarlosun Íslands. Fyrirtækið fékk fyrst íslenskra fyrirtækja hæstu einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa frá alþjóðlegu samtökunum CDP. Landsvirkjun hefur sett sér markmið um nettó kolefnishlutleysi árið 2025 og var með fyrstu fyrirtækjum landsins að kynna markmið sín opinberlega. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að draga úr kolefniskræfni raforkuvinnslu sinnar með metnaðarfullri aðgerðaráætlun og skýrum, tölulegum og tímasettum markmiðum sem eru aðgengileg öllum.“

Frumkvæði í grænum skuldabréfum

Meira um græn skuldabréf

Þá segir í rökstuðningi dómnefndar að Landsvirkjun hafi nýtt sér framúrskarandi árangur í umhverfismálum til fjármögnunar með útgáfu grænna skuldabréfa fyrst íslenskra fyrirtækja.

„Því frumkvæði var tekið eftir, bæði erlendis og hérlendis og hafa mörg íslensk fyrirtæki fylgt í spor Landsvirkjunar með slíkum útgáfum.“