Skuldbindingar okkar í loftslagsmálum
Orkumál gegna lykilhlutverki í baráttunni við neyðarástand í loftslagsmálum.
Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að starfsemin verði kolefnishlutlaus árið 2025.
Framlag fyrirtækisins hefur áhrif á skuldbindingar Íslands í málaflokknum um 29% samdrátt árið 2030 miðað við árið 2005.
Skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum eru samofnar skuldbindingum Evrópusambandsins. Hér skipta endurnýjanleg orka, orkusparnaður og breytt framleiðslu- og neyslumynstur höfuðmáli.
Samdráttur í losun verður sífellt mikilvægari og hafa verður í huga að mótvægisaðgerðir á borð við skógrækt og endurheimt votlendis koma ekki í stað samdráttar.
Ríki sambandsins hafa sett sameiginlegt markmið með Íslandi og Noregi um að draga úr losun um 55% árið 2030 miðað við 1990.
Þessi samdráttur fer fram í þremur flokkum:
1. Viðskiptakerfi með losunarheimildir
Losun frá iðnaðarferlum í stóriðju og millilandaflugi.
2. Samfélagslosun
Losun vegna notkunar á hinum ýmsu vörum og þjónustu hér á landi og frá framleiðslu, annarri en stóriðju. Má þar nefna ferðaþjónustu, sjávarútveg, landbúnað, byggingariðnað, raforkuvinnslu með jarðvarma, sorp og endurvinnslu.
3. Landnotkun og skógrækt
Losun frá landnotkun og kolefnisbinding, t.d. með landgræðslu eða skógrækt.