Loftslagsáætlun - síða komin úr birtingu

Markmiðin okkar

Aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum var samþykkt árið 2019 og nær til 2030.

Hún byggir á kortlagningu á kolefnisspori Landsvirkjunar og í henni er að finna fimm markmið til að vísa okkur veginn til framtíðar. Landsvirkjun verður kolefnishlutlaus árið 2025 – þá bindum við a.m.k. jafn mikið kolefni og starfsemin losar.

Upplýsingar um losun fyrirtækisins og hvernig okkur gengur að ná markmiðunum má finna í Loftslagsbókhaldi og á Loftslagsmælaborði.

Forgangsröðun okkar

Við höfum sett upp forgangsröðun aðgerða okkar í loftslagsmálum sem hjálpar okkur að ná sem mestum árangri í loftslagsmálum á sem hagkvæmastan hátt:

  1. Koma í veg fyrir nýja losun
  2. Draga úr núverandi losun
  3. Mótvægisaðgerðir

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Mælingar á losun þjóna ekki tilgangi sínum nema þær leiði raunverulega til betri ákvarðana.

Þess vegna tekur aðgerðaráætlunin okkar til fjölmargra þátta í starfsemi fyrirtækisins og felur í sér tölusett markmið um hvern og einn þeirra.

Það er mikilvægt svo að hægt sé að tryggja stöðuga eftirfylgni með framgangi þeirra aðgerða sem gripið er til og jafnframt mæla árangurinn sem af þeim hlýst.

  • Við ætlum alltaf að vera undir 4 g/kWst

    Kolefniskræfni (e. carbon intensity) raforkuvinnslu okkar er mjög lág í alþjóðlegu samhengi. Í grænum sáttmála Evrópusambandsins (e. EU Green Deal) getur raforkuvinnsla með vatnsafli og jarðvarma verið flokkuð sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum ef kolefniskræfni hennar er undir 100 g CO2 ígildi á hverja kWst, að uppfylltum skilyrðum um sjálfbæra raforkuvinnslu.

    Við vitum að við getum gert ennþá betur og okkar framlag nær því lengra. Við höfum sett okkur markmið um að kolefniskræfni raforkunnar sem fyrirtækið framleiðir verði alltaf undir 4 g CO2 á hverja kWst – langt undir viðmiði Evrópusambandsins.

  • 60% samdráttur í jarðvarma árið 2025

    Bróðurpartur þeirrar losunar sem verður vegna starfsemi Landsvirkjunar á upptök sín í jarðvarmavirkjunum.

    Árið 2025 ætlum við að skila meirihluta þess koltvíoxíðs sem losnar úr jarðhitagufunni við vinnslu til baka í jarðhitakerfið og verður losun frá jarðvarmastöðvum okkar þá 60% minni en árið 2008.

    Á sama tíma höfum við rúmlega tvöfaldað orkuvinnslu með jarðvarma.

  • 2030 hættum við að kaupa jarðefnaeldsneyti

    Stór hluti losunar á heimsvísu verður vegna notkunar jarðefnaeldsneytis. Þess vegna ætlum við að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030.

    Í orkuskiptaáætlun okkar eru skilgreind markmið um samdrátt í notkun á bensíni og olíu til ársins 2025 ásamt undirmarkmiðum sem þjóna sem vörður á leiðinni. Í þessum markmiðum endurspeglast áhersla okkar á að taka upplýstar ákvarðanir í bíla- og tækjakaupum.

    Það þýðir til dæmis að þegar kominn er tími til þess að skipta út bíl eða tæki sem knúið er jarðefnaeldsneyti er hrein orka okkar fyrsti kostur. Þannig hugum við að heildstæðum áhrifum þess að endurnýja bíla- og tækjaflotann okkar.

  • 50% samdráttur í beinni losun

    Við ætlum að draga úr beinni losun frá starfsemi fyrirtækisins um 50% árið 2025 miðað við 2008, m.a. með því að draga úr losun frá jarðvarmastöðvum okkar.

    Það er hins vegar ekki nóg ef óbein losun, þ.e. sú losun sem verður hjá birgjum, ráðgjöfum eða öðrum þjónustuaðilum, heldur áfram í sama horfi. Þess vegna gerum við líka ríkar kröfur til þeirra aðila sem við vinnum með um að draga úr kolefnisspori sínu og aðstoðum þá við það. Við beitum innra kolefnisverði til að hjálpa okkur að taka ákvarðanir auk þess sem við leitum allra leiða til þess að draga úr kolefnisspori framkvæmda.

    Innra kolefnisverð
    Okkar megintæki við ákvarðanatöku er innra kolefnisverð. Það þýðir að losun – eða öllu heldur framtíðarkostnaður vegna losunar – er reiknuð inn í allar stærri fjárhagsákvarðanir, allt frá innkaupum á rekstrarvörum og yfir í val á nýjum virkjanakostum.

    Framkvæmdir
    Draga má úr kolefnisspori framkvæmda með bættri hönnun og sértækum aðgerðum hverju sinni. Í nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum er þannig í auknum mæli tekið mið af kolefnisspori.

  • Kolefnisbinding

    Við leggjum ríka áherslu á að lágmarka það rask sem starfsemin hefur í för með sér, viðhalda náttúrulegum fjölbreytileika og færa röskuð svæði eins og unnt er til fyrra horfs.

    Við höfum í áratugi unnið að bættum landgæðum og ásýnd á starfssvæðum okkar og í nágrenni þeirra ásamt því að hafa markvisst bundið kolefni í jarðvegi og gróðri. Þetta starf hefur skilað sér í því að árleg kolefnisbinding okkar er orðin yfir 34 þúsund tonn CO2 ígilda. Með því að hlúa áfram vel að landsvæðum okkar mun kolefnisbinding á vegum fyrirtækisins halda áfram að aukast.

    Landgræðsla
    Með landgræðsluaðgerðum er komið í veg fyrir gróður- og jarðvegseyðingu og stuðlað að uppbyggingu vistkerfa. Markmið þessara aðgerða er ekki síst að bæta landgæði á viðkomandi svæðum og áhersla er lögð á að tryggja sjálfbær vistkerfi, örva náttúrulega ferla og endurheimta líffræðilega fjölbreytni íslenskrar náttúru.

    Endurheimt votlendis
    Árið 2019 var votlendi í fyrsta sinn endurheimt sem þáttur í loftslagsaðgerðum okkar. Markmiðið er að aðstæður færist sem næst því sem þær voru fyrir framræsingu. Þess vegna leggjum við jafnframt áherslu á vakta breytingar í losun gróðurhúsaloftegunda og fylgjast með landnámi gróðurs á svæðinu.

    Skógrækt
    Markmið skógræktarverkefna okkar hefur verið að skapa skjól, draga úr sandfoki, klæða rýrt og illa farið land gróðri, endurheimta náttúruskóga og jafnframt er áhersla á kolefnisbindingu skóganna.

Við þurfum öll að gera betur

Staða loftslagsmála er alvarleg og nú er tími fyrir aðgerðir. Þó að heilt yfir losi starfsemi fyrirtækisins ekki mikið þá ætlar Landsvirkjun engu að síður leggja sitt af mörkum í baráttuna við loftslagsbreytingar, sem eru eitt mest aðkallandi viðfangsefni mannkyns.

Loftslagsáætlun Landsvirkjunar var unnin með aðkomu starfsfólks okkar og byggir á ítarlegri kortlagningu á kolefnisspori fyrirtækisins frá 2007. Sérfræðingar okkar hafa víðtæka þekkingu á umhverfismálum og hafa starfað við þau í áratugi.

Það er ábyrgðarmál okkar að deila þessari verðmætu þekkingu svo hana megi nýta á fleiri vígstöðvum.

Forstöðumaður - Loftslag og grænar lausnir