Loftslags- og umhverfisstefna

Virðing fyrir náttúru og ábyrg nýting auðlinda

Nýting endurnýjanlegra auðlinda felur í sér inngrip í náttúruna sem óhjákvæmilega veldur raski á umhverfinu. Það er á okkar ábyrgð að lágmarka þetta rask eins og kostur er. Í loftslags- og umhverfisstefnu Landsvirkjunar skilgreinum við áherslur okkar og er hún leiðarvísir okkar að árangri.

Loftslags- og umhverfisstefnan okkar

Landsvirkjun stuðlar að sjálfbærum heimi með umhverfislega sjálfbærri orkuvinnslu sem samræmist markmiðum heims um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C.

Við berum virðingu fyrir náttúru landsins og ásýnd þess og vinnum stöðugt að því að bæta nýtingu auðlinda og koma í veg fyrir sóun. Við stöndum vörð um líffræðilega fjölbreytni með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Áhersla er lögð er á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar, að draga úr þeim og koma í veg fyrir umhverfisatvik.

Við tökum virkan þátt í alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsvánni. Markvisst er unnið að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfseminnar, styðja við skuldbindingar Íslands um samdrátt í samfélagslosun og bregðast við þeim áskorunum og tækifærum sem loftslagsbreytingum fylgja.

Skýr markmið

Mælikvarðar loftslags- og umhverfisstefnu

  • Hlutfall umhverfislega sjálfbærrar orkuvinnslu (%)

  • Fjöldi umhverfisatvika

  • Losun gróðurhúsalofttegunda vegna orkuvinnslu (gCO2 ígildi/kWst)

  • Hlutfall seldrar orku af orkugetu (%)

  • Kolefnisspor (tonn CO2 ígilda á ári)

Hvernig náum við árangri?

Við erum með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 14001. Það þýðir að við höfum farið í gegnum viðurkennd ferli sem fela í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega greiningu á þeim umhverfisáhrifum sem fyrirtækið hefur. Til að lágmarka áhrifin grípum við til viðeigandi ráðstafana, skilgreinum (mótvægis)aðgerðir og vöktum árangur þeirra.

Hvernig vinnum við?

  • Það er lykilatriði í starfsemi fyrirtækisins að greina áhættur. Árangur og áhætta eru nátengd hugtök. Til að ná árangri þarf að taka áhættu. Með virkri áhættustýringu er hægt að stýra hvaða áhætta er tekin, hvar og í hve miklum mæli og um leið ná árangri. Áhættustýring styður við upplýsta ákvarðanatöku og hvetur til fyrirbyggjandi aðgerða. Þess vegna viljum við draga fram og skrásetja æskilega og óæskilega atburði og möguleg áhrif þeirra.

    Við höfum farið í ítarlega greiningu á öllum þeim þáttum sem starfsemin okkar hefur eða gæti haft áhrif á. Við vitum hvar við höfum áhrif og hvað við þurfum að gera til að draga úr þeim áhrifum.

  • Áhættustýringu er nú að finna í flestum köflum allra stjórnunarkerfa. Umhverfisstjórnunarkerfið veitir okkur tól og tæki til að stýra og vakta áhrifaþætti, þ.e. þá þætti í starfseminni sem geta haft umtalsverð áhrif á umhverfið. Niðurstöðurnar notum við til að bæta starfsemina, vinna gegn neikvæðum áhrifum og auka þekkingu okkar.

  • Komið geta upp atvik tengd starfsemi okkar sem valda áhrifum á umhverfið. Slík atvik eru skráð sem umhverfisatvik, orsakir þeirra greindar og úrbótum fylgt eftir með vöktun. Með þessu getum við greint og komið í veg fyrir mögulegar umhverfisáhættur ásamt því að uppfylla ytri og innri kröfur. Allt starfsfólk okkar er upplýst um skráð atvik með reglubundnum hætti.

  • Vöktun á áhrifaþáttum fer fram á öllum starfsstöðvum okkar og áhrifasvæðum þeirra. Vöktunin er unnin í samstarfi við rannsóknarstofnanir og sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

  • Með öflugri stýringu og vöktun fáum við dýrmætar upplýsingar. Þær gera okkur kleift að gera sífellt betur og að hafa umhverfið í forgangi í öllum okkar verkum, allt frá flokkun úrgangs til hönnunar nýrra mannvirkja.

  • Við deilum þekkingu okkar og reynslu bæði innan fyrirtækisins og utan þess. Þannig getum við unnið saman sem ein heild, lært hvort af öðru og skapað vettvang fyrir frjóa hugsun og nýjar lausnir.

Hverjir eru áhrifaþættir starfseminnar?

Við höfum greint þá þætti í starfseminni sem geta haft umtalsverð áhrif á umhverfið. Þessa þætti köllum við áhrifaþætti. Hver áhrifaþáttur hefur verið ítarlega greindur, áhætta metin og henni stýrt samkvæmt viðurkenndum aðferðum.

Áhrif vegna nýtingar auðlinda:
  • Nýting vatns
  • Nýting jarðvarma
  • Landnotkun
  • Orkunotkun
  • Efnanotkun
  • Innkaup
Áhrif vegna losunar:
  • Losun út í andrúmsloftið
  • Frárennsli
  • Úrgangur
  • Nýting vatns
  • Nýting jarðvarma
  • Landnotkun
  • Orkunotkun
  • Efnanotkun
  • Innkaup
  • Gaslosun
  • Frárennsli
  • Úrgangur

Nýting vatns

Við reynum að nýta vatnið sem við notum til raforkuvinnslu eins vel og við mögulega getum, en nýtingin hefur m.a. áhrif á vatnið sjálft og uppsprettu þess, jarðlögin, vistkerfi fiska, gróður og dýralíf.

Til að draga úr þessum áhrifum vöktum við þessa þætti og rannsökum framvindu jökla og lífríkis, auk þess sem við stýrum rennsli til að koma í veg fyrir sveiflur í vatnshæð lóna og rennsli í árfarvegum.

Nýting jarðvarma

Við nýtum gufu úr jarðhitavökva til raforkuvinnslu, en í vökvanum eru einnig vatn og gas sem nýtast í aðra vinnslu eða er veitt ofan í jörðina. Hluta vatnsins er líka fargað á yfirborðinu og gasið að hluta losað út í andrúmsloftið.

Umhverfisáhrifin sem þessu fylgja geta verið losun gróðurhúsalofttegunda, brennisteinsvetnis, gufu og jarðhitavatns; breytt skjálftavirkni, minna orkuinnihald auðlindarinnar og hávaði frá borholum.

Helsta hætta fyrir umhverfið felst í uppsöfnun á gasi, sem getur orsakað súrefnisskort manna og dýra. Öll losun getur haft áhrif á lífríki.

Til að draga úr þessum áhrifum vöktum við losun og upplýsum um hana, stýrum vinnslunni til að lágmarka hana, vöktum og drögum úr hávaða frá borholum og veitum jarðhitavatni aftur niður í jörðina.

Landnotkun

Öll orkuvinnsla felur í sér að landnotkun breytist, mest þegar land fer undir lón og við mannvirkjagerð.

Helstu umhverfisáhrif þess eru breyting á lífríki og vistkerfum, áhrif á andrúmsloft, breyting á ásýnd, skerðing víðerna og áhrif á nýtingu lands til annarrar starfsemi.

Helsta hætta fyrir umhverfið felst í hugsanlegum raski á landi, t.d. við skyndilegt rof eða áfok, sem hefur áhrif á vatna- og gróðurvistkerfi og landslag og einnig við mögulega olíu- og efnaleka.

Til að draga úr þessum áhrifum grípum við til ýmissa mótvægisaðgerða, t.d. græðum við landið og styrkjum þann gróður sem fyrir er. Við reynum líka að hanna virkjunarkosti þannig að áhrifin séu í lágmarki, vöktum rof og áfok, setjum okkur strangar reglur um olíu- og efnanotkun og höldum jarðraski í lágmarki.

Orkunotkun

Orkunotkun okkar felst í því að við notum eldsneyti á farartæki og vélar, ásamt rafmagni og heitu vatni til húshitunar. Bifreiðar okkar og ýmsar vélar ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, rafmagni, lífdísil og vetni. Rafmagnið sem við notum kemur að mestu frá okkar eigin vinnslu , en auk þess kaupum við rafmagn og heitt vatn af öðrum orkufyrirtækjum.

Mestu umhverfisáhrif þessarar orkunotkunar eru losun gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Þá getur eldsneytisleki haft skaðleg áhrif á vistkerfi.

Helsta hætta fyrir umhverfið skapast ef eldsneyti berst út í umhverfið.

Til að draga úr þessum áhrifum drögum við úr notkun jarðefnaeldsneytis eins og við getum. Við fræðum starfsfólk um orkusparnað og höfum skýrt verklag um flutning, notkun og geymslu eldsneytis.

Efnanotkun

Með efnanotkun er átt við notkun á varasömum efnum, eins og þau eru skilgreind í lögum og reglugerðum. Þau eru notuð á verkstæðum, til þrifa, til viðhalds á búnaði, til rannsókna, við jarðboranir og aðrar framkvæmdir.

Varasöm efni geta haft neikvæð áhrif á umhverfið, heilsu manna og dýra og mengað vistkerfi.

Efnin eru skaðleg ef þau berast út í umhverfið. Því er áhætta falin í flutningi þeirra, geymslu og notkun. Hætta getur einnig skapast við eldsvoða og ef afgöngum er ekki fargað á viðeigandi hátt.

Til að draga úr þessum áhrifum eru öll varasöm efni merkt og þeim fylgja upplýsingar um skaðleg áhrif þeirra, þá skráum notkun efnanna og reynum að nota sem minnst af þeim. Við söfnum spilliefnum og skilum til viðurkenndra aðila, höfum skýrt verklag um flutning, notkun og geymslu þeirra og fræðum starfsfólk um efnanotkun.

Innkaup

Allri orkuvinnslu fylgja umtalsverð innkaup, bæði á framkvæmda- og rekstrartíma. Við framleiðslu á aðföngum er oft notast við takmarkaðar auðlindir, svo sem málma og steinefni, auk ýmissa gerviefna.

Helstu umhverfisáhrif eru skerðing náttúruauðlinda eða hráefna, oftast í öðrum heimshlutum, ásamt loftslagsáhrifum og öðrum umhverfisáhrifum við framleiðslu og flutning.

Helsta hætta fyrir umhverfið tengist flutningi og förgun, þ.e. ef varan lendir á einn eða annan hátt úti í náttúrunni þar sem hún veldur skaða.

Til að draga úr þessum áhrifum fylgjum við reglum um innkaup í samræmi við lög og reglugerðir og veljum umhverfisvottaðar vörur og þjónustu þegar við getum.

Gaslosun

Losun á gasi á sér stað við alla orkuvinnslu. Jarðvarmavinnsla getur losað koldíoxíð (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) og orkuvinnsla úr vatnsafli getur losað metan (CH4), koldíoxíð (CO2) og brennisteinshexaflúríð (SF6) út í andrúmsloftið.

Helstu umhverfisáhrif eru gróðurhúsaáhrif og hugsanleg skaðleg áhrif á lífríki og fólk

Helsta hætta fyrir umhverfið felst í uppsöfnun á gasi í lægðum, sem getur orsakað súrefnisskort manna og dýra.

Til að draga úr þessum áhrifum vöktum við alla losun og leka frá rafbúnaði, reynum að draga úr allri losun og dælum gasi aftur niður í jarðlögin.

Frárennsli

Frárennsli er allt fráveituvatn sem inniheldur svifagnir: þétti- og skiljuvatn frá jarðvarmavinnslu og það vatn sem rennur frá framkvæmdum og mannvirkjum vegna orkuvinnslu.

Helstu umhverfisáhrif eru neikvæð áhrif á hreinleika vatns og jarðvegar.

Helsta hætta fyrir umhverfið er losun vegna mannlegra mistaka á jarðvarma- og vatnsaflsstöðvum.

Til að draga úr þessum áhrifum dælum við þétti- og skiljuvatni aftur niður í jörðina og síum frárennsli frá framkvæmdum. Þá notum við settanka, olíuskiljur og rotþrær og fylgjumst grannt með því hvort þessar aðgerðir virki.

Úrgangur

Úrgangur er auðlind sem mikilvægt er að endurnýta og endurvinna og á að vera hluti af hringrásarhagkerfinu.

Helstu umhverfisáhrif eru þegar lífræn efni brotna niður við urðun og mynda metangas, sem velur gróðurhúsaáhrifum. Mengun frá urðunarstöðum getur líka ógnað hreinleika vatns, jarðvegs og vistkerfis.

Helsta hætta fyrir umhverfið felst í því ef aðstaða er ófullnægjandi fyrir söfnun á úrgangi og úrgangur berst í umhverfið vegna lélegra vinnubragða.

Til að draga úr þessum áhrifum flokkum við úrgang og sendum hann til endurvinnslu eða endurnotkunar, vinnum að uppbyggingu hringrásarhagkerfisins og fræðum starfsfólk um söfnun og urðun úrgangs.

Hvernig mælum við árangur?

Forstöðumaður - Loftslag og áhrifastýring