Landsvirkjun fær hæstu einkunn í loftslagsmálum

13.12.2022Umhverfi

Landsvirkjun fær hæstu einkunn í ár fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa og afleiðinga loftslagsbreytinga á starfsemi fyrirtækisins hjá alþjóðlegu samtökunum CDP. Undanfarin tvö ár hefur Landsvirkjun verið með einkunnina A-, fyrst íslenskra fyrirtækja til að til að ná svo góðum árangri, en í ár bættum við enn um betur með því að hljóta hæstu einkunn, einkunnina A. Landsvirkjun telst þar með til leiðandi fyrirtækja í loftslagsmálum á heimsvísu.

Samtökin CDP stuðla að samræmdri og faglegri upplýsingagjöf um umhverfismál, ásamt því að veita endurgjöf og hvetja til stöðugra umbóta. Landsvirkjun fékk fyrst mat CDP árið 2016. Kröfur CDP hafa aukist jafnt og þétt með árunum og því þurfti meira til að fá A í einkunn nú en þegar vegferðin hófst.

Upplýsingagjöfin er viðamikil og nær utan um loftslagsstýringu fyrirtækja með heildrænum hætti. Árið 2022 skiluðu um nítján þúsund fyrirtæki inn upplýsingum um loftslagsmál til samtakanna. Landsvirkjun er í hópi 283 þeirra sem hljóta hæstu einkunn og komast á A lista samtakanna.

Skýr framtíðarsýn

Framtíðarsýn Landsvirkjunar er sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku. Fyrirtækið telur stærsta framlag sitt til sjálfbærrar þróunar vera að taka ábyrgð í loftslagsmálum, enda eru orkumál loftslagsmál, þar sem um tveir þriðju hlutar af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu koma frá orkuvinnslu.

Landsvirkjun hefur verið meðvituð um hlutverk sitt og ábyrgð í baráttunni gegn loftslagsvánni. Síðustu ár höfum við sett loftslagsmál í forgang með því að horfa heildstætt á málaflokkinn, þvert á starfsemi fyrirtækisins og eru þau samþættuð í alla starfsemina. Við fögnum staðfestingu CDP á því að við séum leiðandi í loftslagsmálum. Þær aðgerðir og breytingar sem við höfum unnið markvisst að teljast til bestu starfsvenja („best practice“).

Ábyrgð stjórnenda Landsvirkjunar á málaflokknum er skýr. Við erum meðvituð um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra og tökum tillit til loftslagstengdrar áhættu og tækifæra. Loftslagsáherslur okkar ná út í virðiskeðju fyrirtækisins þar sem við reynum að hámarka framlag okkar til baráttunnar gegn loftslagsvánni. Við höfum sett fram metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, með skýrum samdráttarmarkmiðum, og beitum innra kolefnisverði í ákvarðanatöku. Ytri endurskoðendur staðfesta raunmæti og umfang loftslagsbókhaldsins okkar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Við höfum einsett okkur að taka virkan þátt í alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsvánni og fögnum því að fá afdráttarlausa staðfestingu CDP á að sú sé raunin. Við vinnum orku úr endurnýjanlegum auðlindum, höfum sett okkur markmið um kolefnishlutleysi árið 2025 og vinnum að því með skýrum aðgerðum sem draga úr losun. Þá endurspeglast loftslagsáherslur okkar í stefnu fyrirtækisins og samtali okkar við virðiskeðjuna og aðra hagaðila. Við munum hvergi slaka á í kröfum okkar því við ætlum áfram að vera leiðandi í loftslagsmálum á heimsvísu.“

Maxfield Weiss, framkvæmdastjóri CDP Europe:

„Hátt í 20.000 fyrirtæki skiluðu umhverfisgögnum til CDP á þessu ári, þar á meðal 70% evrópskra fyrirtækja miðað við markaðsvirði. COP27 sýndi að þörfin fyrir umbreytingu er mikilvægari en nokkru sinni fyrr ef við ætlum að takmarka hlýnun við 1,5 °C. Ég er því ánægður með að evrópsk fyrirtæki eru næstum helmingur allra fyrirtækja á A-lista um allan heim. Við verðum að draga úr losun um helming og útrýma skógareyðingu fyrir árið 2030 samhliða því að ná vatnsöryggi fyrir sama ár – það er engin leið að 1,5°C án náttúrunnar.

Með byltingarkenndri nýrri reglugerð ESB um birtingu ófjárhagslegra upplýsinga, CSRD, sem nú hefur verið samþykkt, sýna fyrirtæki á A-lista CDP að þau eru framar öðrum – grípa til skýrra aðgerða til að draga úr losun og takast á við umhverfisáhrif í gegnum virðikeðjur sínar. Þetta er sú tegund af gagnsæi og aðgerðum í umhverfismálum sem við þurfum á að halda í öllu hagkerfinu til að koma í veg fyrir vistfræðilegt hrun.“

Nánari upplýsingar á vef CDP