Umhverfisrannsóknir og vöktun

Þekking á ferlum náttúrunnar gegnir lykilhlutverki í vinnslu endurnýjanlegrar orku. Rannsóknir og vöktun hjálpa okkur að skilja þessa ferla, hámarka nýtingu orkuauðlindarinnar og lágmarka áhrif okkar á náttúru og umhverfi.

Öflugar rannsóknir og vöktun

Sjá rannsóknir og skýrslur

Við leggjum ríka áherslu á að lágmarka það rask sem starfsemi okkar hefur í för með sér, að viðhalda náttúrulegum fjölbreytileika og að færa röskuð svæði eins og unnt er til fyrra horfs. Lögð er áhersla á að umhverfisáhrif séu metin strax á undirbúningsstigi virkjunarkosta, m.a. með víðtækum rannsóknum á umhverfinu og með því að skilgreina meginlínur í hönnun og heildaryfirbragði mannvirkja.

Við stundum einnig ítarlega vöktun og umhverfisrannsóknir á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Vöktunin og rannsóknirnar eru í mörgum nær öllum tilvikum unnar í samstarfi við rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga. Mikill fjöldi skýrslna er gefinn út árlega þar sem niðurstöður vöktunar og rannsókna á náttúru og lífríki við orkuvinnslusvæðin eru kynntar.

Við vinnum vöktunaráætlun fyrir hvert virkjanasvæði fyrir sig og er áhersla á lögð á að afla upplýsinga um tegundir eða vistkerfi sem er líklegt að geti orðið fyrir áhrifum af byggingu og rekstri aflstöðva.

Umhverfisvöktun

Að þekkja umhverfi sitt

Umhverfisvöktun jarðhitasvæða

Lífríki

Grunnvatn

Hljóð og loft

Jarðvarmi

Áhrif á náttúru og nærumhverfi

Orkuvinnsla okkar byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum, þar sem vatni, vindi og jarðvarma er umbreytt í raforku. Kolefnisspor vinnslu á endurnýjanlegri orku er hverfandi í samanburði við vinnslu sem byggir á bruna jarðefnaeldsneytis, en hún hefur engu að síður áhrif á náttúru og nærumhverfi virkjana. Áhrifin eru mismikil og geta jafnt komið fram við byggingu og á rekstrartíma.

Öllum virkjunum okkar hefur fylgt rask á yfirborði lands og breyting á landslagi. Umhverfisáhrifin eru annars breytileg frá einni virkjun til annarrar og ráðast að miklu leyti af uppsprettu orkunnar.

Upptalningin hér að neðan er ekki tæmandi, en við kappkostum að þekkja áhrif virkjana okkar á náttúru og vega gegn neikvæðum áhrifum með vandaðri hönnun og mótvægisaðgerðum. Við viljum lágmarka umhverfisáhrif af starfsemi okkar og erum ávallt tilbúin að hlusta á umbótatillögur.

Áhrif ólíkra virkjana

  1. Vatnsaflsvirkjanir

    Áhrif vatnsaflsvirkjana sem hagnýta miðlunarlón birtast m.a. í breytingum á rennsli en geta einnig komið fram í grunnvatnsstöðu, gróðurfari, jarðveg og lífríki, bæði í vatni og á landi. Áhrif rennslisvirkjana eru alla jafna minni en þær geta m.a. truflað far fiska og flæði framburðar.

  2. Jarðvarmavirkjanir

    Vinnsla jarðvarmaorku getur m.a. haft áhrif á grunnvatn, jarðhita- og jarðskjálftavirkni þegar vatnsgufa og vatn er tekið úr jarðhitakerfinu.

  3. Vindorkuver

    Vindorkuver geta m.a. haft áhrif á fugla en umfang áhrifanna ræðst af staðsetningu vindorkuveranna gagnvart búsvæðum og farleiðum. Vindorkuver hafa áhrif á hljóðvist og sjónræn áhrif þeirra geta verið töluverð.