Umhverfisstjórnun framkvæmda

Við lágmörkum neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki

Framkvæmdir hafa bæði áhrif á umhverfi og samfélag. Til þess að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki notum við ýmis tól og tæki, t.d. vinnum við samkvæmt umhverfisstjórnunarkerfinu ISO 14001 og starfsemi okkar er rekin reglulega út af faggildum skoðunarstofum. Við framkvæmum líka innri úttektir og höfum skilgreint vel vinnuferla og verklag. Við greinum áhættuþætti, hlítum ytri og innri kröfum og göngum lengra en lög segja til um.

Við leggjum áherslu á að vera góður granni og eiga góð samskipti og samstarf við samfélagið sem við tilheyrum.

Umhverfismat framkvæmda

Við mat á umhverfisáhrifum eru þau áhrif sem framkvæmd kann að hafa á umhverfið metin á kerfisbundinn hátt, áður en tekin er ákvörðun um hvort hún skuli leyfð.

Skipulagsstofnun framfylgir lögum og reglugerð um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt stofnuninni felst umhverfismat framkvæmda í að meta og upplýsa um líkleg áhrif tiltekinna framkvæmda á umhverfið. Áhrifin eru greind, vægi þeirra metið og lagt til hvernig bregðast skuli við þeim.

Þegar við hyggjum á framkvæmdir sem háðar eru umhverfismati nýtum við niðurstöður matsins við endanlega útfærslu. Þá er tryggt að áhrifin hafi verið metin, almenningi gefst kostur á að taka þátt og hægt er að grípa til viðeigandi mótvægisaðgerða við hönnun og byggingu.

Umhverfisáætlanir framkvæmda

Markmiðið með umhverfisstjórnun framkvæmda og umhverfisáætlunum er að gera verklag tengt umhverfismálum skilvirkara og auðvelda það að framfylgja áherslum Landsvirkjunar í umhverfismálum í öllum verkefnum, stórum sem smáum.

Í upphafi verkefna setjum við okkur umhverfismarkmið og metum hvaða áhrif framkvæmd getur haft á náttúru og samfélag og gerum ráðstafanir til að draga úr þeim eins og mögulegt er. Niðurstaðan er svo sett fram í svokallaðri umhverfisáætlun.

Við undirbúning viðhaldsverkefna og virkjanakosta er lykilatriði að framfylgja umhverfisáætlun út allt verkefnið og tryggja eftirfylgni.

Fyrir hvert verkefni þarf að greina áhættuþætti m.t.t. áhrifa á umhverfið. Við gerum líka áætlun um umhverfistengdar aðgerðir og vöktun.

Viðbrögð og mótvægisaðgerðir

Með öflugri stýringu og vöktun fáum við dýrmætar upplýsingar sem gera okkur kleift að gera sífellt betur og að hafa umhverfið í forgangi í öllum okkar verkum, allt frá flokkun úrgangs til hönnunar nýrra mannvirkja.

Liður í þessu er að stunda ýmsar vistfræðirannsóknir og vöktun á áhrifum á lífríki, í samræmi við samþykktar vöktunaráætlanir auðlindasviða fyrirtækisins. Við tökum líka þátt í því að skipuleggja og framkvæma mótvægisaðgerðir sem varða áhrif á lífríki, jarðminjar, menningarminjar, landslag og nærsamfélag.

Áhrif á lífríki

Nýting endurnýjanlegra auðlinda felur í sér inngrip sem hefur áhrif á lífríkið. Þess vegna rannsökum við og vöktum náttúru og lífríki áður en framkvæmdir hefjast, á meðan á þeim stendur og eftir að rekstur aflstöðva hefst. Þannig öflum við okkur vísindalegrar þekkingar um hvort og þá hvernig við höfum áhrif á umhverfið og hvort grípa þurfi til aðgerða. Mörg ár geta liðið áður en slík áhrif koma fram og er því um langtímavöktun að ræða, sem stendur jafnvel yfir í áratugi.

Vöktun á vatna-, fugla- og dýralífi á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins fer fram í samvinnu við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Við leggjum áherslu á að endurheimta líffræðilega fjölbreytni á áhrifasvæðum aflstöðva og tengdra mannvirkja.

Endurheimt landgæða

Við höfum stundað landgræðslu og skógrækt í nágrenni aflstöðva fyrirtækisins frá árinu 1968, með það að markmiði að græða upp lítt gróin svæði, bæta fyrir rask og uppfylla skilyrði um mótvægisaðgerðir. Frá árinu 2011 höfum við einnig unnið að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi til að vega upp á móti losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfseminnar.

Við tökum þátt í umfangsmiklu samstarfi við opinbera aðila og félagasamtök um aðgerðir í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Samstarfið gengur út á að endurheimta gróður og landgæði sem hafa raskast, styrkja viðkvæm búsvæði plantna og dýra og sporna við náttúrulegri jarðvegseyðingu og sandfoki.

Í tengslum við þessi verkefni höfum við öðlast dýrmæta þekkingu sem við nýtum til að styrkja gróður á öllum starfssvæðum fyrirtækisins, óháð því hvort starfsemi okkar hafi þar bein áhrif eða ekki. Verkefnin eru unnin í samvinnu við Land og skóg, skógræktarfélög og heimamenn, en jafnframt vinna ungmenni sem starfa á aflstöðvunum á sumrin að hluta þessara verkefna.

Innra kolefnisverð

Við beitum innra kolefnisverði til að hjálpa okkur að taka ákvarðanir og vorum fyrsta íslenska fyrirtækið til að taka upp slíkt verkfæri árið 2018. Það þýðir að við reiknum losun, eða öllu heldur framtíðarkostnað vegna mögulegrar losunar, inn í allt frá innkaupum á rekstrarvörum upp í val á nýjum virkjanakostum og verktökum.

Við leitum leiða til að draga úr raski og minnka áhrif á umhverfið, veljum umhverfisvæn byggingarefni og gerum ríkar kröfur til þeirra framkvæmdaaðila sem við störfum með.

Kröfur til framkvæmdaaðila

Árið 2022 byrjuðum við að nota innra kolefnisverð í útboðum framkvæmdaverkefna. Það þýðir að við veljum verktaka ekki eingöngu út frá hagkvæmasta tilboðinu, heldur eru áhrif þeirra á loftslagið einnig metin.

Verktakar sem bjóða í verk hjá okkur eru beðnir um að leggja fram áætlun um fyrirhugaða losun vegna notkunar á jarðefnaeldsneyti og framleiðslu stáls og steypu. Við reiknum svo út kostnað vegna fyrirhugaðrar losunar og tökum hann með í reikninginn við val á verktaka.

Á framkvæmdatíma fylgjumst við náið með raunlosun verktakans.

Hér má sjá hvernig fylgst er með eldsneytislosun verktaka í verkefni sem stendur yfir og hvernig hún er í samanburði við upphaflega áætlun. Ef losunin er yfir upphaflegri áætlun ber honum að greiða fyrir það en ef losunin er undir áætluninni fær hann fjárhagslega umbun.

Samvinna og gæðastjórnun

Kröfur til verktaka og þjónustuaðila

Kröfur til verktaka og þjónustuaðila í umhverfismálum eru hluti af umhverfisstjórnunarkerfinu okkar. Þær snúa að orku- og efnanotkun, meðhöndlun úrgangs og spilliefna, frárennsli á framkvæmdasvæðum, nýtingu vatns, innkaupum, landnotkun, lífríki og samfélagi.

Í sumum tilfellum göngum við lengra en lög og reglugerðir gera ráð fyrir og ber samstarfsaðilum okkar að fylgja því.

Vistferilsgreiningar

Við notum vistferilsgreiningu, eða Life Cycle Assessment (LCA), til að meta heildarumhverfisáhrif raforkuvinnslunnar okkar á öllum stigum virðiskeðjunnar. Það þýðir að við skoðum vistferil virkjana, allt frá öflun hráefna við byggingu þeirra til niðurrifs við lok líftíma og metum umhverfisáhrif þess að vinna raforku úr tiltekinni auðlind á tilteknum stað.

Metin eru umhverfisáhrif við öflun hráefna, á framleiðslu og flutningum byggingarefna, á framleiðslu og flutningum vél- og rafbúnaðar, byggingarframkvæmdum, orkunotkun, rekstri stöðvarinnar sem og niðurrifi hennar við lok líftíma. Niðurstöðurnar notum við til að draga úr umhverfisáhrifum í rekstri tiltekinna aflstöðva og til að draga úr umhverfisáhrifum nýrra aflstöðva í framtíðinni.

Niðurstöður vistferilsgreininga hjálpa okkur einnig að upplýsa kaupendur og aðra hagsmunaaðila um umhverfiseiginleika raforkunnar. Upplýsingarnar geta líka nýst þriðja aðila, t.d. framleiðslu- og iðnfyrirtækjum við mat á umhverfisáhrifum vegna framleiðslu á eigin vöru.

Að lækka kolefnissporið

Vistferilsgreiningar veita okkur mikilvægar upplýsingar um samsetningu heildarkolefnisspor tiltekinna aflstöðva. Niðurstöður sýna til að mynda að við framleiðslu byggingarefna og á framkvæmdatíma eru það stál og steypa auk notkunar á jarðefnaeldsneyti sem skilja eftir sig stærsta kolefnissporið. Við leggjum því sérstaka áherslu á að lágmarka áhrif þessara þriggja þátta við hönnun og byggingu nýrra virkjana.

Hvernig nýtum við vistferlisgreiningar?

Við rannsóknarboranir í tengslum við undirbúning á stækkun Þeistareykjastöðvar árið 2023 var vistferlisgreining notuð til að draga úr losun framkvæmdarinnar. Boraðar voru tvær rannsóknarborholur en að þessu sinni var notaður rafknúinn bor sem minnkaði notkun jarðefnaeldsneytis til muna.

Að meðaltali voru notaðir um 66 þúsund lítrar af jarðefnaeldsneyti til að bora hverja holu. Notkun jarðefnaeldsneytis var því 65% minni en í fyrri framkvæmdum sem jafngildir um 320 tonnum CO2-ígilda.

Viltu vita meira?

Vistferilsgreiningar sem gerðar eru á aflstöðvunum okkar eru unnar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þær eru aðgengilegar hér fyrir neðan.

Úttektir á sjálfbærni í rekstri

Við höfum notað alþjóðlegan matslykil um sjálfbærni vatnsorkuvinnslu - Hydropower Sustainability Assessment Protocol (HSAP) - til að efla enn frekar sjálfbæra auðlindanýtingu fyrirtækisins. Alþjóðlegt teymi úttektaraðila tók m.a. út rekstur Blöndustöðvar og Fljótsdalsstöðvar árið 2017 ásamt hönnun fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar á grundvelli matslykilsins.

Í úttektunum voru teknir til nákvæmrar skoðunar fjölmargir flokkar sem vörðuðu rekstur stöðvanna og gefa mynd af því hversu vel starfsemin féll að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun.

Úttektirnar leiddu í ljós að rekstur stöðvanna væri framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og á mörgum sviðum þóttu starfsvenjur þær bestu sem fyrirfinnast.