Umhverfisrannsóknir og vöktun

  • Mannvirki vatnsaflsvirkjana
  • Uppistöðulón
  • Áfok frá miðlunarlónum
  • Öldurof við uppistöðulón
  • Stíflur í árfarvegum
  • Veitur vatnsaflsvirkjana
  • Áhrif á fiska
  • Fiskvegir og lágmarksrennsli
  • Mannvirki jarðvarmavirkjana
  • Hávaði vegna jarðvarmavinnslu
  • Losun í loft
  • Losun á yfirborð
  • Landnotkun og ásýnd vindorkuvera
  • Veðrun vindmylla
  • Áhrif vindorkuvera á fugla
  • Skuggaflökt
  • Hávaði frá vindmyllum
  • Skógrækt
  • Vistheimt
  • Rannsóknir
  • Vöktun

Mannvirki vatnsaflsvirkjana

Vatnsaflsvirkjunum fylgja ýmis mannvirki sem hafa áhrif á náttúru og umhverfi, svo sem stöðvarhús, stíflur, uppistöðulón, vegir og raflínur. Við undirbúning virkjana og rekstur eru áhrifin metin og leitast við að milda þau og vinna að mótvægisaðgerðum.

Uppistöðulón

Uppistöðulón er samheiti yfir miðlunarlón og inntakslón aflstöðva. Þegar það myndast fer land undir vatn, sem hefur áhrif á landslag og vistkerfi. Ef um gróið land er að ræða byrjar niðurbrot lífrænna efna og þá getur losun gróðurhúsalofttegunda aukist. Sveiflur í yfirborðshæð geta sömuleiðis haft áhrif á grunnvatnsstöðu og lífríki umhverfis lónin.

Áfok frá miðlunarlónum

Þegar lítið er í miðlunarlóni geta jarðvegsefni sem sest hafa í lónstæðinu þornað. Sterkir vindar geta feykt þeim inn á gróið land og áfokið haft áhrif á þekju og samsetningu gróðurs. Til að hefta dreifingu áfoksefna hafa sandgildrur verið grafnar og fokgirðingar reistar. Annars staðar hefur land verið friðað fyrir beit og fengið áburð til styrkingar gróðurs.

Öldurof við uppistöðulón

Þegar vindar blása geta öldur á uppistöðulónum valdið því að bakkar umhverfis lónin rofni. Slíkt öldurof er vaktað og hafa bakkavarnir úr grjóti verið hlaðnar til að stöðva landeyðingu af völdum þess.

Stíflur í árfarvegum

Stíflur geta haft veruleg áhrif á gönguleiðir fiska, sér í lagi ef engar mótvægisaðgerðir koma til. Slíkar aðgerðir felast t.d. í fiskvegum, en einnig er rennsli neðan stíflu stýrt þannig að það fari aldrei undir skilgreint lágmark. Grjótstíflur og varnargarðar geta einnig haft áhrif á spörfugla, t.d. snjótittlinga og maríuerlur, sem nýta hvort tveggja sem búsvæði.

Veitur vatnsaflsvirkjana

Vatni er yfirleitt veitt í nýjan farveg þegar vatnsaflsvirkjanir eru reistar. Við þetta myndast ný vatnavistkerfi og vistkerfi gamla farvegarins breytist. Þegar jökulvatni er veitt í tærara vatn hefur það jafnan neikvæð áhrif á vatnalíf. Hið gagnstæða gerist ef jökulvatni er veitt úr vatnakerfum. Veituskurðir og aukið rennsli á veituleiðum geta raskað farleiðum dýra.

Áhrif á fiska

Breytingar á árfarvegi geta heft aðgengi fiska að svæðum til fæðuöflunar, hrygningar og uppeldis, auk þess að hafa áhrif á setflutninga. Þegar búsvæðum er skipt upp geta fiskstofnar aðskilist. Fiskar geta drepist ef þeir fara í gegnum hverfla á leið sinni til sjávar.

Fiskvegir og lágmarksrennsli

Allar stærstu vatnsaflsvirkjanir á Íslandi hafa verið byggðar í jökulám, og nær alltaf ofan fiskgengra svæða. Laxastigar hafa engu að síður verið reistir í nágrenni vatnsaflsstöðva til að opna leið fyrir laxa inn á ný svæði. Þar sem farvegir hafa orðið fyrir áhrifum af virkjunum höldum við skilgreindu lágmarksrennsli til að viðhalda mikilvægum búsvæðum og hrygningarstöðvum.

Mannvirki jarðvarmavirkjana

Jarðvarmavirkjunum fylgja ýmis mannvirki; svo sem stöðvarhús, skiljuhús, kæliturnar, gufulagnir, vegir og raflínur. Jafnframt þarf að bora rannsókna- og vinnsluholur. Það fer eftir eðli og umfangi hverrar virkjunar hversu stór svæði raskast og hversu mikil áhrif þeirra eru á landslag og lífríki. Þá getur vinnslan haft áhrif á grunnvatn, jarðhitavirkni og jarðskjálftavirkni þegar vatnsgufa og vatn eru tekin úr jarðhitakerfinu.

Hávaði vegna jarðvarmavinnslu

Vinnslu jarðhita fylgir hávaði, en við hefðbundinn rekstur er hann innan skilgreindra marka. Stöku sinnum þarf þó að láta vinnsluholur blása til að ná upp hita og þrýstingi eða hreinsa holurnar. Við það eru hávaðamörkin rofin, en þess er gætt að sá tími sé sem stystur, þótt tímabundin hækkun hljóðstigs umfram skilgreindra marka sé heimil.

Losun í loft

Við vinnslu jarðvarma koma ýmsar gastegundir upp með jarðhitavökvanum. Leitast er við að dæla gasinu aftur niður í jarðvegsgeiminn til að koma í veg fyrir áhrif þess á umhverfið, en losun brennisteinsvetnis getur haft skaðleg áhrif á gróður, dýr og fólk. Þá teljast metangas og koldíoxíð til gróðurhúsalofttegunda sem stuðla að loftslagsbreytingum. Losun er vöktuð í nágrenni virkjana og þess gætt eftir föngum að hún fari ekki yfir heilsuverndarviðmið.

Losun á yfirborð

Vatnsgufa og vatn eru hluti af jarðhitavökvanum sem berst úr vinnsluholum jarðvarma. Í vatninu geta verið þungmálmar og næringarefni í mismiklum styrk. Sé vatnið losað á yfirborð getur það haft áhrif á gróður, grunnvatn, smádýr, fiska og annað vatnalíf, en áhrifin ráðast af styrk efnanna í vatninu. Við nýrri jarðvarmavirkjanir er öllu vatni skilað aftur niður í jörðina.

Landnotkun og ásýnd vindorkuvera

Byggja þarf öflugar undirstöður fyrir hverja vindmyllu og leggja þarf að þeim vegi. Við það raskast jarðvegur og gróður. Vindorkuver geta jafnframt haft neikvæð áhrif á beit spendýra. Sitt sýnist hverjum um ásýnd vindmylla, en þær má fjarlægja að líftímanum loknum og eru sjónræn áhrif þeirra því afturkræf.

Veðrun vindmylla

Vindmyllur veðrast rétt eins og önnur mannvirki. Möstrin eru yfirleitt úr stáli en spaðarnir úr glertrefjum og trefjaplasti. Hvort tveggja er húðað til að auka endingu og draga úr sjónrænum áhrifum. Í auknum mæli er notast við slitþolna epoxíð-húð, en engu að síður getur örplast kvarnast úr húðinni og fallið til jarðar. Mengunin er þó tiltölulega lítil, til dæmis í samanburði við mengun af fólksbílum.

Áhrif vindorkuvera á fugla

Röng staðsetning vindorkuvera getur haft neikvæð áhrif á búsvæði, skorið farleiðir og fælt fugla. Þá er hætta á að fuglar lendi í árekstri við vindmyllu og drepist. Til að lágmarka þessi áhrif höfum við látið framkvæma ítarlegar rannsóknir á fuglalífi og höfum þær til hliðsjónar þegar vindorkuverum er valinn staður.

Skuggaflökt

Á björtum dögum framkalla vindmylluspaðar flöktandi skugga sem geta verið hvimleiðir, sérstaklega ef vindmyllan er nærri íbúabyggð. Skuggaflöktið getur einnig truflað og fælt fiska í nálægum ám og vötnum. Þessi áhrif má lágmarka með því að vanda til vals á staðsetningu vindmyllunnar og stýra vinnslu hennar.

Hávaði frá vindmyllum

Hljóð frá vindmyllu nemur um 50 desíbelum þegar staðið er nærri henni. Það er svipaður hávaði og í rigningu eða ísskáp. Hljóðlíkan fyrir vindorkuver við Vaðöldu gefur til kynna að hljóðstig í eins kílómetra fjarlægð verði um 35 desíbel. Það telst vera svipaður styrkur og heyrist þegar hvíslað er (35 dB) og fyrirfinnst á bókasafni (40 dB). Vindmyllur stöðvast í logni og þá ríkir kyrrðin ein.

Skógrækt

Upphaf skógræktar á vegum Landsvirkjunar má rekja til þess að starfsfólk aflstöðva vildi fegra umhverfi sitt og efla uppgræðslu. Síðar var í auknum mæli farið að horfa á skógrækt sem aðgerð til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Við vinnum skógræktaráætlanir með fagstofnunum og notum eingöngu innlendar trjátegundir, en liður í loftslags- og umhverfisstefnu okkar er að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni.

Vistheimt

Uppgræðsla lands er hluti af mótvægisaðgerðum okkar vegna virkjanaframkvæmda. Þær aðgerðir miðast við að mynda gróðurþekju á svæði sem er jafnstórt eða stærra en sú gróðurþekja sem tapast vegna framkvæmda. Við viljum samt stíga skrefinu lengra og stöndum fyrir vistheimt, eða endurheimt vistkerfa, til að mæta markmiðum okkar um kolefnishlutlausan rekstur.

Rannsóknir

Rannsóknir eru mikilvægur þáttur í undirbúningi nýrra virkjana. Ítarlegar rannsóknir á náttúrufari hafa farið fram vegna allra nýrri virkjana okkar og í nýrri verkefnum erum við í auknum mæli farin að skoða samfélagslega þætti.

Vöktun

Vöktun á náttúru og umhverfi gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi okkar. Sem dæmi má nefna að við mælum afkomu jökla vegna vatnsaflsvirkjana og fylgjumst með áhrifum starfsemi okkar á land og lífríki. Þekkingin sem verður til vegna vöktunarinnar nýtist til hagkvæmrar orkuvinnslu og hjálpar okkur að draga úr neikvæðum áhrifum af starfseminni eða útiloka þau.

Öflugar rannsóknir og vöktun

Sjá rannsóknir og skýrslur

Við leggjum ríka áherslu á að lágmarka það rask sem starfsemi okkar hefur í för með sér, að viðhalda náttúrulegum fjölbreytileika og að færa röskuð svæði eins og unnt er til fyrra horfs. Lögð er áhersla á að umhverfisáhrif séu metin strax á undirbúningsstigi virkjunarkosta, m.a. með víðtækum rannsóknum á umhverfinu og með því að skilgreina meginlínur í hönnun og heildaryfirbragði mannvirkja.

Við stundum einnig ítarlega vöktun og umhverfisrannsóknir á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Vöktunin og rannsóknirnar eru í mörgum nær öllum tilvikum unnar í samstarfi við rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga. Mikill fjöldi skýrslna er gefinn út árlega þar sem niðurstöður vöktunar og rannsókna á náttúru og lífríki við orkuvinnslusvæðin eru kynntar.

Við vinnum vöktunaráætlun fyrir hvert virkjanasvæði fyrir sig og er áhersla á lögð á að afla upplýsinga um tegundir eða vistkerfi sem er líklegt að geti orðið fyrir áhrifum af byggingu og rekstri aflstöðva.

Umhverfisvöktun

Að þekkja umhverfi sitt

Umhverfisvöktun jarðhitasvæða

Lífríki

Grunnvatn

Hljóð og loft

Jarðvarmi

Áhrif á náttúru og nærumhverfi

Orkuvinnsla okkar byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum, þar sem vatni, vindi og jarðvarma er umbreytt í raforku. Kolefnisspor vinnslu á endurnýjanlegri orku er hverfandi í samanburði við vinnslu sem byggir á bruna jarðefnaeldsneytis, en hún hefur engu að síður áhrif á náttúru og nærumhverfi virkjana. Áhrifin eru mismikil og geta jafnt komið fram við byggingu og á rekstrartíma.

Öllum virkjunum okkar hefur fylgt rask á yfirborði lands og breyting á landslagi. Umhverfisáhrifin eru annars breytileg frá einni virkjun til annarrar og ráðast að miklu leyti af uppsprettu orkunnar.

Upptalningin hér að neðan er ekki tæmandi, en við kappkostum að þekkja áhrif virkjana okkar á náttúru og vega gegn neikvæðum áhrifum með vandaðri hönnun og mótvægisaðgerðum. Við viljum lágmarka umhverfisáhrif af starfsemi okkar og erum ávallt tilbúin að hlusta á umbótatillögur.

Áhrif ólíkra virkjana

  1. Vatnsaflsvirkjanir

    Áhrif vatnsaflsvirkjana sem hagnýta miðlunarlón birtast m.a. í breytingum á rennsli en geta einnig komið fram í grunnvatnsstöðu, gróðurfari, jarðveg og lífríki, bæði í vatni og á landi. Áhrif rennslisvirkjana eru alla jafna minni en þær geta m.a. truflað far fiska og flæði framburðar.

  2. Jarðvarmavirkjanir

    Vinnsla jarðvarmaorku getur m.a. haft áhrif á grunnvatn, jarðhita- og jarðskjálftavirkni þegar vatnsgufa og vatn er tekið úr jarðhitakerfinu.

  3. Vindorkuver

    Vindorkuver geta m.a. haft áhrif á fugla en umfang áhrifanna ræðst af staðsetningu vindorkuveranna gagnvart búsvæðum og farleiðum. Vindorkuver hafa áhrif á hljóðvist og valdið sjónrænum áhrifum.