Fyrri 14 vindmyllurnar verða reistar snemma árs 2026
Landsvirkjun hefur samið við þýska vindmylluframleiðandann Enercon um kaup, uppsetningu og rekstur á 28 vindmyllum sem settar verða upp í Búrfellslundi við Vaðöldu. Fyrri 14 vindmyllurnar verða reistar snemma árs 2026 og gangsettar seinna um árið. Reiknað er með að vindorkuverið verði að fullu tilbúið og komið í rekstur fyrir lok ársins 2027.
Landsvirkjun auglýsti útboð á vindmyllunum í janúar sl., með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál. Útboðsgögnin og öll vinna við útboðsferil og samningagerð var unnin með ráðgjöfum Landsvirkjunar, dönsku lögfræðiskrifstofunni Kromann Reumert og alþjóðlegu verkfræðistofunni Afry. Öll nauðsynleg leyfi lágu fyrir í október sl. Þrír framleiðendur tóku þátt í útboðsferlinu. Enercon GmbH átti hagkvæmasta tilboðið, 140 milljónir evra sem eru rúmir 20 milljarðar kr.
Framleiðandi vindmyllanna, Enercon, hefur reynslu af uppbyggingu og rekstri vindmylla hér á landi því fyrirtækið framleiddi vindmyllurnar sem Landsvirkjun hefur rekið í tilraunaskyni á Hafinu frá 2013, auk þess sem vindmyllur í Þykkvabæ eru frá Enercon komnar.