Öryggi verktaka

Landsvirkjun leggur mikla áherslu á öryggi og heilsu verktaka.

Hér má finna upplýsingar um helstu kröfur sem Landsvirkjun gerir til verktaka, nytsamlegar leiðbeiningar og reglur auk umfjöllunar um áhættustýringu í öryggismálum.

Helstu kröfur til verktaka

Lesa öryggishandbók Landsvirkjunar
  1. Áhættumat: Verktakar bera ábyrgð á því að útfæra og skila inn áhættumati fyrir öll verk sem þeir sinna. Þar skal koma fram hvaða hættur fylgja verkinu og hvaða ráðstafanir eru gerðar til að lágmarka áhættu. Áhættumat skal vera í samræmi við öryggiskröfur Landsvirkjunar og þau lög og reglugerðir sem um það gilda.
  2. Öryggisfræðsla og þjálfun: Allt starfsfólk verktaka skal sækja rafrænt öryggis-, heilsu- og umhverfisnámskeið Landsvirkjunar í þjálfunarkerfi SSG.
  3. Notkun persónuhlífa og búnaðar: Allir verktakar og starfsfólk þeirra skulu nota viðeigandi persónuhlífar í samræmi við áhættumat og gildandi reglur, svo sem hjálma, öryggisgleraugu, heyrnarhlífar og hlífðarfatnað.
  4. Skráning atvika og tilkynningar: Öll slys, næstum-slys og önnur öryggisatvik skulu vera skráð. Alvarleg atvik skulu tafarlaust tilkynnt til Landsvirkjunar.
  5. Verkleyfi: Verktakar þurfa að afla verkleyfis áður en vinna hefst í aflstöðvum Landsvirkjunar eða á öðrum rekstrarsvæðum. Í umsókn um verkleyfi skal vera lýsing á verki, áhættumat og listi yfir starfsfólk.
  6. Brunavarnir og skyndihjálp: Verktakar bera ábyrgð á því að brunavarnir og neyðaráætlun séu til staðar fyrir þau verk sem þeir sinna. Nauðsynlegur neyðarbúnaður á borð við sjúkrakassa og hjartastuðtæki skal vera tiltækur og yfirfarinn reglulega.

Reglur til lífsbjargar

Við hjá Landsvirkjun höfum sett okkur níu reglur til lífsbjargar. Tilgangur og markmið þeirra er að lýsa varnarlögum sem nauðsynleg eru til að stýra áhættu og þar með fyrirbyggja slys.

Mikilvægt er að verktakar sem vinna fyrir Landsvirkjun fari eftir reglunum níu þegar unnið er að verkefnum sem innihalda einhvern af þeim hættuflokkum sem þær taka til.

Áhættustýring og áhættumat

Form fyrir áhættumat

Við leggjum ríka áherslu á að markviss áhættustýring í öryggismálum sé hluti af daglegri starfsemi fyrirtækisins. Markmið okkar er að draga úr líkum á slysum, tjóni og óvæntum atvikum, ásamt því að stuðla að stöðugum umbótum og öruggu vinnuumhverfi.

Við höfum skuldbundið okkur til þess að vinna að stöðugum umbótum í öryggismálum með markvissri áhættustýringu, reglubundinni endurskoðun og öflugu samstarfi við starfsfólk og verktaka.

    • Allt starf innan fyrirtækisins skal byggja á traustu áhættumati og engin vinna hefjast án þess að það liggi fyrir og sé samþykkt. Þetta gildir bæði fyrir starfsfólk og verktaka.
    • Verktökum ber að skila inn ítarlegu áhættumati fyrir öll verk, nema annað hafi verið ákveðið sérstaklega. Fyrir aflstöðvar Landsvirkjunar liggur fyrir heildstætt áhættumat svæða sem tekur á þeim hættum sem fylgja daglegum rekstri.
    • Við viðhaldsverkefni og önnur tímabundin verk skal gera sértækt áhættumat sem tekur mið af aðstæðum, verkefnum og áhættuþáttum.
  • Í áhættumati skulu eftirfarandi atriði koma skýrt fram:

    • Lýsing á verki.
    • Helstu verkþættir sem skapa áhættu.
    • Helstu hættur.
    • Hvaða hæfni og þekking starfsfólks er nauðsynleg.
    • Hvernig á að skipuleggja og framfylgja öryggisráðstöfunum.
    • Starfsfólki ber að kynna sér áhættumat allra verka sinna, vera meðvitað um þær hættur sem þeim fylgja og gera allar tilgreindar öryggisráðstafanir áður en vinna hefst.
    • Áhættumat skal reglulega rýnt og uppfært í samræmi við breytingar á vinnuaðstæðum, verkefnum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á öryggi.
  • Við áhættumat skal sérstaklega horfa til eftirfarandi þátta:

    • Aðstæður á vinnustað, vélar og tæki, efni og efnavinnsla.
    • Verkferlar, vinnuvenjur, hegðun starfsfólks og mannleg geta.
    • Tilgreina skal skýrar mótvægisaðgerðir til að draga úr áhættu.
    • Eyða hættu (áhrifaríkast): Fjarlægja hættuna algjörlega úr verkefninu, t.d. með því að breyta hönnun eða verkferlum.
    • Skipta út hættu: Nota öruggari aðferðir, tæki eða efni.
    • Finna tæknilegar lausnir: Einangra hættuna með áþreifanlegum vörnum, girðingum, hlífum, afsogi, loftræstingu, einangrun, tíma eða rúmi.
    • Stýra verklagi: Skilgreina skýra verkferla, bæta þjálfun og innleiða verklagsreglur.
    • Nota réttar persónuhlífar (áhrifaminnst): Persónuhlífar skulu vera í góðu ástandi og vernda einstaklinginn.