Matvæli

Orka, tækni og dass af snjallræði

Nýir tímar og nýjar áherslur kalla á nýjar lausnir í matvælaframleiðslu. Lausnir sem eru sjálfbærar og hlífa loftslaginu.

Við Íslendingar erum í kjörstöðu til að láta til okkar taka í þessum efnum. Við höfum gott aðgengi að raforku frá endurnýjanlegum auðlindum og varma frá jarðhita.

Þessa sérstöðu getum við nýtt til þess að byggja upp hátæknimatvælaframleiðslu.

Við höfum um aldir stundað hefðbundna matvælaframleiðslu til að fæða þjóðina og til útflutnings. Við getum byggt á þeim sterka grunni, sótt fram og byggt upp fleiri greinar innan matvælaframleiðslu með okkar grænu orku og hreina vatni.

Ræktun í hátæknigróðurhúsum, örþörungaræktun, framleiðsla próteina, ýmis líftækni, þurrkun, frostþurrkun, eiming og úrvinnsla eru aðeins nokkur dæmi um þau tækifæri sem bíða þess að vera sótt.

Til mikils er að vinna því með hátæknimatvælaframleiðslu hér á landi getum við framleitt matvæli með minna umhverfisspor, bætt nýtingu orkuauðlinda, tengt saman þekkingu úr hefðbundinni matvælaframleiðslu við hátæknimatvælaframleiðslu, skapað ný og eftirsótt störf um land allt og aukið útflutningstekjur.

Við hjá Landsvirkjun höfum þegar látið til okkar taka í þessum efnum, með því að koma á laggirnar ýmsum nýsköpunarverkefnum á sviði orkutengdrar matvælaframleiðslu. Þar má nefna samstarfsverkefnið Orkídeu, þar sem Landsvirkjun, Landbúnaðarháskóli Íslands, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætla að vinna saman að framgangi hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni á Suðurlandi, með áherslu á sjálfbæra verðmætasköpun.

Orka, tækni og dass af snjallræði

Nýsköpunarstjóri viðskiptaþróun