Jafnframt hefur kröfu Náttúrugriða um stöðvun framkvæmda við Búrfellslund verið hafnað. Kærðu samtökin framkvæmdaleyfi Rangárþings ytra til vegagerðar og uppsetningar vinnubúða og kröfðust stöðvunar framkvæmda. Í úrskurðinum segir meðal annars:
Við úrlausn á fyrirliggjandi stöðvunarkröfu verður ekki hjá því litið að framkvæmdasvæðið er eigi ósnortið, enda staðsett á orkuvinnslusvæði sem hefur orðið fyrir raski eins og lýst er í 2. kafla í matsskýrslu Landsvirkjunar vegna Búrfellslundar. Í matsskýrslunni er bent á að ráðgert framkvæmdasvæði sé á eldhrauni frá nútíma undir gjóskulagi sem sé að meðaltali um 4 m að þykkt. Svæðið sé tiltölulega flatt og þar sé einnig nokkuð um gervigíga. Bæði eldhraun og gervigígar séu landslagsgerðir sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Landslagsgerðirnar séu þó vart sjáanlegar á yfirborði vegna gjósku sem þekur svæðið og gígana að mestu eða öllu leyti. Að þessu virtu og með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér verður ekki talið að knýjandi þörf sé á að fallast á framkomna beiðni kæranda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður henni af þeim sökum hafnað.
Eins og þarna kemur fram hefur Úrskurðarnefndin kæru Náttúrugriða á bæði virkjunarleyfi Búrfellslundar og framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar og vinnubúða til meðferðar.