Virkjunarleyfi afgreitt fyrir Búrfellslund

12.08.2024Búrfellslundur

Virkjunarleyfi afgreitt fyrir Búrfellslund

Orkustofnun afgreiddi í dag virkjunarleyfi fyrir vindorkuverið Búrfellslund við Vaðöldu. Landsvirkjun mun í kjölfarið sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Rangárþings ytra.

Búið er að ganga frá tengisamningi við Landsnet og verið er að leggja lokahönd á samning um lands- og vindorkuréttindi við ríkið. Hvort tveggja eru mikilvægir áfangar í undirbúningsferli virkjunarkostsins.

Fyrsta vindorkuverið

Frekari upplýsingar um Búrfellslund

Búrfellslundur var settur í nýtingarflokk rammaáætlunar árið 2022 og verður fyrsta vindorkuver landsins. Gert er ráð fyrir að 28-30 vindmyllur rísi sunnan Sultartangastíflu á 17 ferkílómetra svæði. Uppsett afl verður um 120 MW.

Landsvirkjun auglýsti útboð snemma þessa árs á vindmyllum fyrir Búrfellslund, með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál. Sú leið var farin til að styrkja líkurnar á að vindmyllurnar verði farnar að skila orku inn á raforkukerfið fyrir árslok 2026, eins og áætlanir gera ráð fyrir.

Jarðtæknirannsóknir sem hófust í vor hafa gengið vel og er gert ráð fyrir að þeim ljúki í haust. Allur undirbúningur hefur því gengið að óskum.

Ef öll tilskilin leyfi fást tekur stjórn Landsvirkjunar að lokum endanlega ákvörðun um hvort ráðist verði í verkefnið.