Samið við Landsnet um flutning vindorku

30.07.2024Orka

Vindorka í fyrsta sinn inn á flutningskerfið

Búrfellslundur
Búrfellslundur

Samið við Landsnet um flutning vindorku

Landsnet og Landsvirkjun hafa samið um að tengja vindorkuverið sem rísa á í svonefndum Búrfellslundi inn á raforkuflutningskerfið. Vindorkuverið verður neðan við Sultartangastíflu í Rangárþingi ytra. Allt að 30 vindmyllur eiga að rísa þar á 18 ferkílómetrum. Þær verða að hámarki 150 metrar á hæð. Uppsett afl vindorkuversins verður allt að 120 MW og árleg orkugeta 440 GWst.

Forsenda virkjunarleyfis

Búrfellslundur var færður í orkunýtingarflokk rammaáætlunar árið 2022.  Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti skipulag fyrir vindorkuverið í apríl. Tengisamningurinn er lokaforsenda þess að Orkustofnun afgreiði virkjunarleyfi.

Landsvirkjun auglýsti útboð á vindmyllum í janúar sl., með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál. Það var gert til að auka líkurnar á því að vindorkuverið geti farið að skila orku inn á raforkukerfið fyrir lok árs 2026, en útboðsferli eru tímafrek og afhendingartími á búnaði langur.