Þarfar endurbætur á Landvegi

18.07.2025Vaðölduver

Landsvirkjun hefur samið við Borgarverk um að byggja upp Landveg á 13 km kafla í Rangárþingi ytra. Veghlutann þarf að styrkja sérstaklega fyrir flutning efnis og búnaðar fyrir Vaðölduver, fyrsta vindorkuver landsins.

Framkvæmdir hafnar á Landvegi
Framkvæmdir hafnar á Landvegi

Þarfar endurbætur

Landsvirkjun hefur samið við Borgarverk um að byggja upp Landveg á 13 km kafla í Rangárþingi ytra. Veghlutann þarf að styrkja sérstaklega fyrir flutning efnis og búnaðar fyrir Vaðölduver, fyrsta vindorkuver landsins. Borgarverk átti lægsta tilboð í verkið, tæpar 760 milljónir kr. Framkvæmdir eru nú þegar hafnar og á þeim að vera að fullu lokið í október 2025.

Dagný Ísafold Kristinsdóttir, starfsmaður Borgarverks, Elín Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun og Kristinn Sigvaldason, eigandi Borgarverks á verkstað.
Dagný Ísafold Kristinsdóttir, starfsmaður Borgarverks, Elín Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun og Kristinn Sigvaldason, eigandi Borgarverks á verkstað.

Hagur samfélags

Vegarhlutinn sem styrktur verður og lagður bundnu slitlagi er á milli slóða að Áfangagili skammt norðan Landmannaleiðar og móta Þjórsárdalsvegar og Sprengisandsleiðar. Þótt tilefni verksins sé að undirbúa veginn fyrir mikla þungaflutninga í tengslum við Vaðölduver þá er ljóst að samfélagið mun njóta góðs af, jafnt heimafólk sem ferðafólk.

Elín Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Landsvirkjun
Elín Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Landsvirkjun

Borgarverk vinnur líka að vegagerð innan framkvæmdasvæðisins við Vaðöldu, þar sem leggja þarf samtals rúmlega 20 km af vegum.

Framkvæmdir eru komnar á fullt á svæðinu
Framkvæmdir eru komnar á fullt á svæðinu

Miklar framkvæmdir

Af öðrum framkvæmdum á svæðinu er það helst að segja að Ístak hefur hafið byggingu mannvirkja á svæðinu, þ.e. byggingu kranastæða og vinnusvæða fyrir vindmyllurnar sem og undirstöður og byggingu safnstöðvar. Í þeim framkvæmdum felst einnig útlögn á um 80 km strengja milli vindmylla og safnstöðvar auk allrar nauðsynlegrar jarðvinnu, þ. á m. um 20 km af skurðum.

Loks má nefna að uppsetning vinnubúða í Búrfelli 2 er að klárast og uppsetningu á aðstöðu Landsvirkjunar og verktaka í Vaðölduveri verður lokið í ágúst. Eins og komið hefur fram var samið við þýska framleiðandann Enercon um kaup á vindmyllum og er framleiðsla þeirra hafin.

Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að stuðla að jákvæðum samfélagsáhrifum og samfélagsábata af starfsemi fyrirtækisins, samhliða ábyrgri nýtingu auðlinda. Við viljum að nærsamfélag njóti ávinnings af starfsemi okkar, allt frá undirbúningi verkefna í rekstur virkjana.

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir