Af öðrum framkvæmdum á svæðinu er það helst að segja að Ístak hefur hafið byggingu mannvirkja á svæðinu, þ.e. byggingu kranastæða og vinnusvæða fyrir vindmyllurnar sem og undirstöður og byggingu safnstöðvar. Í þeim framkvæmdum felst einnig útlögn á um 80 km strengja milli vindmylla og safnstöðvar auk allrar nauðsynlegrar jarðvinnu, þ. á m. um 20 km af skurðum.
Loks má nefna að uppsetning vinnubúða í Búrfelli 2 er að klárast og uppsetningu á aðstöðu Landsvirkjunar og verktaka í Vaðölduveri verður lokið í ágúst. Eins og komið hefur fram var samið við þýska framleiðandann Enercon um kaup á vindmyllum og er framleiðsla þeirra hafin.
Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að stuðla að jákvæðum samfélagsáhrifum og samfélagsábata af starfsemi fyrirtækisins, samhliða ábyrgri nýtingu auðlinda. Við viljum að nærsamfélag njóti ávinnings af starfsemi okkar, allt frá undirbúningi verkefna í rekstur virkjana.