Áform um sölu skammtímaorku á markaðstorgum

17.07.2025Viðskipti

Landsvirkjun áformar sölu á skammtímaorku á markaðstorgum raforku, Vonarskaði og Elmu. Hingað til hefur orkufyrirtæki þjóðarinnar selt skammtímaorku á eigin viðskiptavef.

Áform um sölu skammtímaorku á markaðstorgum

Landsvirkjun áformar sölu á skammtímaorku á markaðstorgum raforku, Vonarskaði og Elmu. Hingað til hefur orkufyrirtæki þjóðarinnar selt skammtímaorku á eigin viðskiptavef.

Viðskipti á markaðstorgum með skammtímaorku hófust á Íslandi vorið 2024, þegar Vonarskarð hélt fyrsta söluferli stundarrafmagns. Elma, dótturfélag Landsnets, opnaði svo næstadagsmarkað að evrópskri fyrirmynd í mars 2025. Landsvirkjun hefur ekki selt skammtímaorku á þessum markaðstorgum fram til þessa en unnið að greiningum og annarri undirbúningsvinnu.

Stefnt er að þátttöku hjá bæði Vonarskarði og Elmu frá komandi hausti. Framboð fer eftir stöðunni í kerfinu hverju sinni. Komi til þátttöku Landsvirkjunar á skammtímamarkaði leiðir það samhliða til endurskoðunar á sölufyrirkomulagi aflþjónustu.

Brýnt að tryggja orkuöryggi

Landsvirkjun selur í dag skammtímaorku gegnum eigin viðskiptavef allt að 14 daga fram í tímann. Með tilkomu markaðstorga áformar Landsvirkjun nú að færa sölu skammtímaorku þangað. Skammtímamarkaður getur verið skilvirk lausn til að miðla raforku, sér í lagi þegar eftirspurn er umfram framboð. Á sama tíma er brýnt að stjórnvöld tryggi orkuöryggi með fullnægjandi hætti.

Sala skammtímaorku innan dags verður áfram í boði í gegnum viðskiptavef Landsvirkjunar, þ.e. að loknum öðrum viðskiptum í gegnum markaðstorg.

Landsvirkjun tók fyrstu skref inn á skipulegan raforkumarkað í maí 2024, þegar fyrirtækið tók þátt í söluferli Vonarskarðs fyrir langtímavörur, þ.e. grunnorku og mánaðarblokkir.

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir