Búrfellslundur liggur innan staðarmarka Rangárþings ytra og er leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar áskilið til nýtingar á réttindum innan þjóðlendu, annarra en vatns- og jarðhitaréttinda. Það leyfi liggur fyrir og er ein forsenda samningsins. Virkjunarkosturinn var settur í nýtingarflokk rammaáætlunar árið 2022 og verður fyrsti vindorkugarður landsins, fáist öll tilskilin leyfi.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:
„Það er ákaflega ánægjulegt að samkomulag um lands- og vindorkuréttindi sé í höfn. Landsvirkjun hefur vandað mjög til verka við undirbúning Búrfellslundar og samningurinn er mikilvægur áfangi í átt að því að verkefnið verði að veruleika.“
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra sagði við undirritunina að það væri fagnaðarefni að vindorkan verði þriðja stoðin í orkukerfi landsins.