Vindorka við Vaðöldu

16.03.2023Búrfellslundur

Grein eftir Einar Mathiesen, framkvæmdastjóra Vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun.

Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma
Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma

Aukinni raforkuþörf mætt

Landsvirkjun styður við vaxandi orkuþörf samfélagsins, innlend orkuskipti, framþróun núverandi viðskiptavina og ný tækifæri í stafrænni vegferð, nýsköpun og fjölnýtingu. Til að mæta aukinni raforkuþörf stefnum við að því að raungera fjögur virkjunarverkefni á árunum 2025-2027. Til að svo geti orðið skiptir miklu að leyfisveitingarferli sé bæði skilvirkt og árangursríkt.

Áætlað er að þessi verkefni skili a.m.k. 1.500 GWst af nýrri raforku árlega, sem nemur um 10% af raforkuvinnslu Landsvirkjunar á árinu 2022. Verkefnin eru:

  • Búrfellslundur
  • Hvammsvirkjun
  • Stækkun Þeistareykjastöðvar
  • Stækkun Sigöldustöðvar

Búrfellslundur

Haustið 2012 reisti Landsvirkjun tvær vindmyllur í rannsóknarskyni á Hafinu ofan við Búrfell. Reynsla af rekstri þeirra síðasta áratug hefur leitt í ljós að staðsetningin er óvenjuhagstæð.

Nú býr Landsvirkjun sig undir að taka skrefið til fulls og reisa fyrsta vindorkuverið á Íslandi – Búrfellslund ¹, en það er vinnuheiti verkefnisins. Áformað er að vindlundurinn rísi stutt frá Hafinu á svæði sem er umhverfis Vaðöldu, skammt neðan við stíflu Sultartangalóns. Uppsett afl verður 120 MW og árleg orkuvinnsla er áætluð 440 GWst á ári, sem nemur tæplega 3% af orkuvinnslu Landsvirkjunar á árinu 2022.

Hæð og slit spaða

Lesa skýrslu um umhverfisáhrif vindorku

Á þeim árum sem Landsvirkjun hefur verið með verkefnið í þróun hefur tækninni fleygt fram. Vindmyllur í dag eru allt að 300 metrar á hæð. Landsvirkjun hefur í gegnum þróun verkefnis leitast við að draga úr sjónrænum áhrifum og því ákveðið að hæð á vindmyllum verði að hámarki 150 metrar. Turnhæðin er þá allt að 95 metrar og þvermál spaða getur numið allt að 130 metrum. Hver endanleg stærð verður ræðst af niðurstöðum útboðs, en heildarhæðin verður þó aldrei meiri en 150 metrar. Aflgeta hverrar vindmyllu í þessari stærð er á bilinu 4-5 MW. Því þarf 24-30 vindmyllur til að ná fram uppsettu afli fyrir Búrfellslund.

Landsvirkjun hefur lagt mikið upp úr því að draga úr umhverfisáhrifum verkefnisins og hefur meðal annars látið vinna úttekt á helstu umhverfisáhrifum sem bygging og rekstur vindorkuvers hefur í för með sér. Í kjölfar greinar sem birtist í Noregi fyrir allnokkru spannst mikil umræða um mengun af völdum örplasts frá spöðum. Rýni fjölmargra aðila á þessari grein bendir þó til að niðurstöður séu byggðar á röngum forsendum og að mengun af völdum örplasts sé ekki mikil.

Landsvirkjun hefur látið taka saman skýrslu um helstu umhverfisáhrif sem koma frá rekstri vindmylla og er hún aðgengileg hér á vef Landsvirkjunar.

Staða verkefnisins

Verkefnið hefur verið í þróun síðan árið 2012. Vindmælingar hófust 2014, umhverfismati lauk árið 2016 og ný útfærsla var lögð fram árið 2019. Verkefnið var samþykkt í nýtingarflokk rammaáætlunar árið 2022 og sótt var um virkjunarleyfi í upphafi vetrar 2022.

Síðasta vor var farið í markaðskönnun á evrópska efnahagssvæðinu með það að markmiði að fá framleiðendur til að máta sínar vindmyllur inn í okkar umhverfi og aðstæður. Þá var jafnframt lagt mat á áætlaðan fjárfestingar- og rekstrarkostnað, en þeim hluta verkefnisins lauk í byrjun árs.

Nú er unnið að breytingu á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags í samráði við Rangárþing ytra og vonast er til að þeirri vinnu ljúki í haust. Í síðasta mánuði var gengið frá samningi um verkhönnun vindorkuversins. Ákvörðun um útboð verður tekin þegar undirbúningi lýkur og tilskilin leyfi liggja fyrir.

Lokaorð

Nú eru tólf ár liðin frá því að fyrstu hugmyndir um vindorkuver á Hafinu litu dagsins ljós. Aðdragandinn hefur verið langur og fyrir því eru margar ástæður. Nú er verkefnið komið á beina braut og mikilvægt er að útfærslan verði í sem mestri sátt við samfélag og náttúru.

Ef allt gengur að óskum verður mögulegt að tengja orkuverið við raforkukerfið í lok árs 2025.

  • Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. mars 2023.
  • ¹ Greinarhöfundur fjallaði um málefnið í grein á síðum blaðsins 3. nóvember 2022.