Ærin verkefni næstu ár
Landsvirkjun hefur nú hafist handa við gerð Hvammsvirkjunar í Þjórsá og byggingu vindorkuversins Búrfellslundar við Vaðöldu. Miklar framkvæmdir verða í Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi næstu árin og íbúar nágrannasveitarfélaga þeirra verða einnig varir við ýmsar framkvæmdir og flutninga. Vindmyllurnar sjálfar rísa á árunum 2026 og 2027 og verða fyrstu vindmyllur gangsettar síðla sumars 2026. Þá er áætlað að hefja stækkun Sigölduvirkjunar næsta vor en henni á að vera lokið haustið 2028. Gangi allt að óskum verður Hvammsvirkjun gangsett undir lok árs 2029.
Við hjá Landsvirkjun hittum íbúa Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps á tveimur fundum nú í vikunni til að fara yfir næstu skref og við hverju megi búast á svæðinu. Fundirnir voru vel sóttir, við fengum tækifæri til að varpa ljósi á framkvæmdirnar og íbúarnir að leita frekari upplýsinga og skýringa. Við ætlum okkur að veita ítarlegar upplýsingar jafn óðum, eftir því sem framkvæmdum vindur fram. Allar nýjustu fréttir af gangi mála verða raktar á vefsíðunum hvammsvirkjun.is og burfellslundur.is.