Undirbúningur í 11 ár
Undirbúningur að byggingu Búrfellslundar, vindorkuvers Landsvirkjunar við Vaðöldu, hefur staðið á annan áratug. Á þeim tíma hafa aðstæður allar verið rannsakaðar ítarlega, Alþingi fjallað margoft um virkjunarkostinn, hann farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum, flókið umsóknarferli virkjunarleyfis staðið í tæp tvö ár, sveitarfélagið hefur unnið deiliskipulag svæðisins, gengið var frá lögbundnum samningum um tengingu vindorkuversins við dreifikerfi raforku og samið við ríkið um lands- og vindorkuréttindi. Lokahnykkurinn er framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu, sem vonir standa til að komi í hús sem fyrst.
Af þessari upptalningu má ljóst vera að leyfisveitingaferlið vegna Búrfellslundar hefur verið mjög ítarlegt og fjarri því að það sé geðþótta háð eða að skýran ramma skorti, eins og fleygt hefur verið fram. Virkjunarkosturinn var lagður fram til umfjöllunar í rammaáætlun í upphafi árs 2013 og hefur því verið 11 ár til umfjöllunar hjá löggjafanum og stjórnsýslunni.