Um Hvammsvirkjun
Landsvirkjun hefur um árabil unnið að rannsóknum og undirbúningi fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Virkjunin verður á stærsta aflsvæði Landsvirkjunar, Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, en þar eru fyrir sjö aflstöðvar sem virkja orku þessara tveggja árkerfa. Upptök orkuvinnslusvæðisins eru í Hofsjökli og Vatnajökli, þaðan sem vatnið rennur úr um 600 metra hæð og losar gríðarmikla orku á leið sinni til sjávar.
Fyrirhuguð Hvammsvirkjun mun nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar, frá svokölluðu Yrjaskeri rétt ofan við bæinn Haga og niður fyrir Ölmóðsey austan við Þjórsárholt.
Með því að virkja fall í Þjórsá neðan núverandi virkjana vill Landsvirkjun hámarka afraksturinn af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir.