Áætlað að Hvammsvirkjun taki til starfa 2029
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Áður hafði sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir sitt leyti. Þar með liggja öll leyfi fyrir til að hefja virkjunarframkvæmdir. Nú er áætlað að Hvammsvirkjun taki til starfa árið 2029.
Í bókun kvaðst meirihluti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps telja framkvæmdina vera í samræmi við skipulagsáætlanir, matsskýrslu, úrskurði og ákvarðanir vegna umhverfismats framkvæmdanna og önnur fyrirliggjandi gögn, þar með talda greinargerð umsækjanda.
Skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins var falið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun.