Öll leyfi fyrir Hvammsvirkjun í höfn

24.10.2024Hvammsvirkjun
Tölvuteiknuð mynd af Hvammsvirkjun
Tölvuteiknuð mynd af Hvammsvirkjun

Áætlað að Hvammsvirkjun taki til starfa 2029

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Áður hafði sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir sitt leyti. Þar með liggja öll leyfi fyrir til að hefja virkjunarframkvæmdir. Nú er áætlað að Hvammsvirkjun taki til starfa árið 2029.

Í bókun kvaðst meirihluti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps telja framkvæmdina vera í samræmi við skipulagsáætlanir, matsskýrslu, úrskurði og ákvarðanir vegna umhverfismats framkvæmdanna og önnur fyrirliggjandi gögn, þar með talda greinargerð umsækjanda.

Skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins var falið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun.

Áttunda aflstöðin

Hvammsvirkjun verður á stærsta aflsvæði Landsvirkjunar, Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, en þar eru fyrir sjö aflstöðvar sem virkja orku þessara tveggja árkerfa. Virkjunin mun nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar, frá svokölluðu Yrjaskeri rétt ofan við bæinn Haga og niður fyrir Ölmóðsey austan við Þjórsárholt. Afl Hvammsvirkjunar verður 95 MW og árleg orkuvinnsla um 740 GWst.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Landsvirkjun hefur nú fengið öll tilskilin leyfi fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun og það er fagnaðarefni. Við höfum þegar hafist handa við undirbúningsframkvæmdir og munum kappkosta að koma aflstöðinni í rekstur árið 2029. Eiginlegar virkjanaframkvæmdir hefjast undir lok þessa árs, þar með talin vegagerð innan virkjanasvæðis, gerð fiskistiga og efnisvinnsla í frárennslisskurði.