Framkvæmdir

Framkvæmdir fram undan

Orkustofnun gaf út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun 12. september 2024 og sveitarfélögin tvö sem framkvæmdir ná til, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur, gáfu út framkvæmdaleyfi 16. og 24. október 2024. Þar með voru öll leyfi til að hefja virkjanaframkvæmdir í höfn.

Vegagerðin vann að endurbótum á núverandi Hvammsvegi í sumar og næst verður ráðist í lagningu nýs Búðafossvegar og Búðafossbrúar.

Við hjá Landsvirkjun höfum þegar hafist handa við undirbúningsframkvæmdir og höldum þeim áfram, t.d. að leggja grunn að vinnubúðum og leggja veitukerfi fyrir þær og framkvæmdasvæðið allt. Þá þarf að leggja nýjan aðkomuveg í framhaldi af núverandi Hvammsvegi, að væntanlegu stöðvarhúsi og stíflu. Framkvæmdir innan virkjanasvæðis hefjast undir lok árs 2024, þar með talin vegagerð, undirbúningur fyrir gerð fiskistiga og efnisvinnsla í frárennslisskurði, en efnið úr frárennslisskurðinum verður m.a. nýtt í vegagerð.

Gerðar verða breytingar á Þjórsárdalsvegi og Gnúpverjavegi þar sem hluti þessara vega fer undir lónstæði en þessar framkvæmdir hefjast væntanlega ekki fyrr en síðsumars 2025.

Sú breyting hefur orðið á, að í stað þess að miða við að aflstöðin komist í rekstur árið 2028 er núna gert ráð fyrir að reksturinn hefjist ári síðar, 2029.

Við hjá Landsvirkjun erum tilbúin að hefjast handa og vonum að hverflarnir verði farnir að snúast í Hvammsvirkjun árið 2029, samfélaginu öllu til heilla.